BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar skoruðu fjögur í fyrsta leik !

05.05.2013

Blikar hófu í dag leik í PEPSI deildinni og mættu norðanmönnum í Þór á Kópavogsvelli. Völlurinn var fagurgrænn og óhætt að segja að við erum öfundsverðir af hitanum undir vellinum sem enn og aftur sannar gildi sitt. Völlurinn sem sagt í prýðilegu ástandi miðað við árstíma og það mátti finnaglögglega fyrir leikinn að Blikar voru fullir tilhlökkunar að hefja mótið. Blikar stilltu upp sama byrjunarliði og lék gegn Val í úrslitum Lengjubikarsins að því undanskildu að Gísli Páll er enn fjarri góðu gamni eftir meiðslin sem hann hlaut í þeim leik. Í hans stað lék eitilharður Þórður Steinar Hreiðarsson.
Byrjunarlið var því svona;

Gunnleifur
Þórður Steinar- Sverrir Ingi - Renee Troost - Kristinn J.
Andri Yeoman - Finnur Orri - Guðjón Pétur - Elfar Árni
Nichlas Rohde - Árni Vilhjálmsson

Varamenn:
Arnór Bjarki Hafsteinsson  (M)    
Sindri Snær Magnússon         
Olgeir Sigurgeirsson         
Viggó Kristjánsson        
Jökull I Elísabetarson    
Páll Olgeir Þorsteinsson    
Tómas Óli Garðarsson  

Sjá nánari leikskýrslu á KSI.is

Blikar hófu leikinn af krafti og léku oft ágætlega sín á milli. Voru svo snöggir að setja pressu á gestina þegar boltinn tapaðist og unnu hann oftast jafnaharðan á ný. Það varð því hlutskipti gestanna lungann af fyrri hálfleik að elta Blikana. Blikar fengu nokkur hálffæri framan af en náðu ekki að setj´ann í netið. Það vantaði nokkrum sinnum herslumuninn og markið lá í loftinu. Inn á milli reyndu gestirnir að sækja og áttu tvö ágæt upphlaup. Vildu m.a. fá vítaspyrnu þegar Jóhann Þórhallson fauk um koll í vitateig Blika, og var vindur þó hægur af norðvestri. Ekki skal útilokað að harðir sviptivindar við norðurenda stúkunnar hafi valdi falli Jóhanns enda loft lævi blandið og óstöðugt. Hinsvegar munaði litlu að hinn eldfljóti Sveinn Elías gerði okkar mönnum skráveifu þegar hann komst í ágætt færi, en skot hans fór hátt yfir.En svo dró loks til tíðinda við mark gestanna á 24. mínutu leiksins þegar Elfar Árni Aðalsteinsson vann boltann, einu sinni sem oftar, af harðfylgi nálægt hornfána og einlék eftir endalínunni að markinu og smellti boltanum í fjærhornið. Glæsilega gert hjá Elfari og markið og aðdragandi þess minnti mjög á frægt mark Prince Rajcomar sem dansaði á þessari sömu endalínu og setti svo í þetta sama mark gegn Keflvíkingum í bikarkeppninni 2007 - sjá lifandi myndir á Blikar TV. Tær snilld, einsog þeir segja í bankanum. Það sem eftir lifði hálfleiks var nánast einstefna að marki gestanna en herslumun skorti til að Blikar ykju forskotið.
Blikar með sanngjarna 1-0 forystu í hálfleik.
Í hálfleik gröðkuðu menn í sig hamborgara, snittur og allskyns kruðerí í sjoppunni og keyptu sér glænýja Blikatrefla. Mál manna var að Blikar þyrftu nauðsynlega að leggja snarlega drög að öðru marki. Og þeim varð fljótt að ósk sinni. Seinni hálfleikur var nýbyrjaður þegar Árni Vilhjálmsson sendi boltann laglega inn fyrir vörn gestann og þar kom Niclas á fleygiferð og kláraði færið snyrtilega og af miklu öryggi. Nú voru okkar menn komnir á bragðið og öryggið og spilagleðin í fyrirrúmi. Þeir létu gestina hlaupa út og suður og settu svo í gírinn og skilaði 3ja markinu á 65. mínútu þegar Guðjón sendi boltann inn fyrir á Árna og hann kom knettinum í netið í annari tilraun eftir smá klafs. Staðan orðin 3-0 og nú var eiginleg bara spurning um hve stór sigurinn yrði. Árni bætti svo við sínu öðru marki og fjórða marki Blika eftir glæsilega sókn upp vinstri vænginn. Eftir gott samspil við Elfar komst Kristinn Jóns á auðan sjó og sendi flottan balta inn að markteig gestanna þar sem Árni kom á ferðinni og henti sér á boltann og hálfpartinn tróð honum í netið. Ekta ,,sentersmark". 4-0.
Blikar gerðu svo heiðarlegar tilraunir til að bæta við og voru ansi nálægt því en það tókst ekki. Svo gerðu menn sig seka augnabliks einbeitingarleysi þegar gestirnir fengu horn á 90+4 mínútu. Allt í einu voru tveir Þórsarar gapandi fríir og annar þeirra þrumaði knettinum með höfðinu í slá og inn. Gunnleifur var nærri því að verja en inn fór boltinn. Þetta reyndist síðasta spyrna leiksins. Menn voru grautfúlir að fá á sig þetta mark á lokamínútunni enda var það algjör óþarfi. 100% einbeiting allan tímann er krafa dagsins.
Ekkert minna dugir.
Blikar lönduðu þar með sanngjörnum 4-1 sigri gegn nýliðum Þórs, sem vel á minnst eru sömu úrslit og urðu í síðustu viðureign þessar liða á Kópavogsvelli 2011. Tveir ungir piltar komu í dag inná og léku í dag sinn fyrsta leik í efstu deild með Blikum. Þetta eru þeir Páll Olgeir Þorsteinsson f. 1995 og Viggó Kristjánsson f. 1993. Við óskum þeim til hamingju með áfangann og munum framvegis gera auknar kröfur til þeirra, nú þegar mesti hrollurinn er farinn úr þeim. Auk þeirra kom Tómas Óli inn á  og vonandi er hann orðinn góður af meiðslum sem hafa hrjáð hann.
Blikar höfðu talsverða yfirburði á vellinum í dag og voru flott liðsheild frá aftasta til fremsta manns. Dugnaður og vinnsla til fyrirmyndar. Liðið á samt talsvert inni sem og einstakir leikmenn.
Góð byrjun hjá liðinu en það myndi nú ekki drepa okkur að hafa stúkuna líflegri en hún var í dag. Það þarf að gera eitthvað í því máli snarlega.

Næsti leikur er við Eyjamenn á útivelli n.k. sunnudag kl.17:00 og þangað er förinni heitið. Nú er ekkert helv...elsku mamma, Blikar þurfa að fjölmenna til Eyja og styðja sína menn af alefli. Í boði eru 3 stig og við ætlum að sækja þau. Herjólfur siglir frá Landeyjahöfn og upplagt að taka sunnudaginn í þetta. Vitað er um nokkra áhugamenn um golfleik sem ætla að nota tækifærið og fara snemma með bátnum, spila einn hring og skella sér svo á völlinn.

Komaso, allir með. Fyllum bátinn.

Áfram Breiðablik !
OWK.

Til baka