BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar sjálfum sér verstir!

26.08.2012

Það voru tæplega 1200 manns á vellinum í dag og mikið af Selfyssingum sem létu vel í sér heyra frá fyrstu mínútu. Blikar grilluðu hamborgara og gáfu Pepsi í boði Ölgerðarinnar og Varðar, menn voru allir að vilja gerðir með að reyna búa til góða stemmningu bæði fyrir leik og á meðan leik stóð. Einhverjir Fésbókarar töluðu digurbarkalega fyrir leik um stuðning og hvernig við ættum að snúa okkur í þeim efnum en það fór fyrir lítið þegar á hólminn var komið. Nokkrir heldri menn mættu með börnin sín og eina trommu og reyndu að láta vel í sér heyra við litlar undirtekir í stúkunni. Það er eins og svo oft áður, stemmningin hún myndast! Þrátt fyrir góðan vilja þá er það oft svo að neistinn sem er inni á vellinum skilar sér upp í stúku. Ef að hann er ekki til staðar þá gerist oft lítið, svo að maður taki hanskan upp fyrir þá sem voru til í öskur og læti fyrir leik en stóðu ekki við stóru orðin.

En nóg af tuði um stuðning og ekki stuðning, þetta snýst jú um fótbolta. Ætla ekki að dvelja of lengi við þennan leik, Blikar voru mikið betri í fyrri hálfleik svo einfalt er það. Rafn Andri skoraði gott mark eftir góða sendingu frá Þórði Steinari. Kristinn Jónsson var líka óheppinn að skora ekki ásamt því að Andri Rafn og Finnur áttu einfaldlega miðjuna. Eins og ég sagði þá voru Blikar mikið betri í fyrrihálfleik en svo ekki söguna meir.  

Breiðabliksliðið mætti einfaldlega ekki í seinni hálfleikinn, það var sem menn væru að bíða eftir því að fá á sig mark. Það kom auðvitað á endanum eða eftir 64 mínútur. Tómas Leifsson skoraði þá fyrir sunnanmennina sem voru gríðarlega sprækir og ákveðnir á meðan að Blikar gáfu ítrekað lélegar sendingar sem skilaði sér í stórhættulegum sóknum hjá Selfyssingum. Þannig að það sé orðað pent þá er það ekki Blikum að þakka að Selfoss fór ekki með 3 stig af Kópavogsvelli í dag. Blikar sóttu aðeins í lokinn og Rohde átti að setja boltann í netið þegar að hann barst óvænt til hans nánast á markteig en skotið hans fór langt framhjá. Þórður Steinar átti líka gott skot neðst í markhornið sem var vel varið. Leikurinn fjaraði út og liðin sættust á sitthvort stigið en ég veit ekki um einn Blika í stúkunni sem var sáttur eftir þennan seinni hálfleik. 

Það sem var jákvætt í þessum leik voru norsku dómararnir sem stóðu sig manna best á vellinum. Þvílíkur munur að vera með svona menn að stjórna leiknum.

Blikar sitja nú í 7 sæti með 23 stig eftir 17 leiki. Það sem er jákvætt við það er að einungis 4 stig eru í evrópusæti en ÍBV á þó leik til góða sem er úti á móti FH. 8 stig eru í fallsæti þar sem Selfoss situr. Næstu 2 leikir Blika eru útileikir, fyrst í Grindavík og svo verður farið í Frostaskjólið. Það er ljóst að okkar menn þurfa að rífa sokkana upp og setja kassann fram. Það eru ennþá fullt af möguleikum í stöðunni og ef að Blikaliðið spilar alla leiki eins og þeir gerðu í fyrri hálfleik í dag þá er ég bjartsýnn. Taki menn hinsvegar upp á því að halda að þetta gerist af sjálfum sér eins og rauninn var í seinni hálfleik þá er voðinn vís.

KIG

Til baka