BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar sannfærandi gegn Skagamönnum

26.02.2022 image

Fyrir leik ákváðu liðin ađ koma saman og sýna Úkraínu stuðning, en eins og flestir vita þá ríkir stríðsástand í landinu. Fánann á myndinni fengu Blikar ađ gjöf síðasta haust þegar að stelpurnar okkar spiluðu í úkraínsku borginni Kharkiv sem í dag er ein af miðpunktum blóðugra bardaga.

Blikar mættu í kvöld Skagamönnum í fyrsta leik sínum í Lengjubikarnum 2022.

Það var sannarlega talsverð tilhlökkun eftir linnulausan snjómokstur og endurteknar tilfæringar á ruslatunnum og útigrillum, miili illviðra síðustu vikna að skella sér í Smárann og horfa fótboltaleik utandyra við fínar aðstæður. Og sannarlega voru aðstæður góðar í upphafi leiksins. Hægviðri og úrkomulaust, hiti við frostmark og völlurinn marauður og fagurgrænn. Slatti af áhorfendum, en þó pláss fyrir fleiri.
Andri Rafn og Ísak voru fjarverandi vegna veikinda og Jason Daði er enn að jafna sig eftir aðgerð. Gísli fékk langþráð frí eftir stífa törn með landsliðinu og svo Blikum í Portúgal.

Annars var byrjunarlið Blika svona:

image

Skagamenn hófu leikinn af talsverðum krafti og settu smá pressu á Blika í blábyrjuninni en það stóð ekki lengi því eftir nokkurra mínútna leik lá boltinn í netinu, réttu megin. Eftir flotta sókn vinstra megin sem lauk með því að Höskuldur lagði boltann fyrir Kristinn með hælspyrnu tók sá síðarnefndi allan þann tíma sem hann fékk, áður hann lyfti honum af yfirvegun upp í þaknetið af stuttu færi. Ískalt slútt.

Eftir þetta var jafnræði með liðunum næstu mínúturnar. Bæði lið gerðu sig líkleg en það voru Skagamenn sem náðu jöfnunarmarkinu á 17. mínútu með poti af stuttu færi. Þarna var hik í varnarleik okkar mann og maður hefði viljað sjá þetta hreinsað í burt. En það tókst ekki og því fór sem fór. Staðan 1-1. Blikar voru nálægt því að skora strax aftur í næstu sókn en gestirnur sluppu með skrekkinn í tvígang.

Næst dró til tíðinda þegar Elfar Freyr Helgason fékk beint rautt spjald þegar 30 mínútur voru liðnar, eftir viðskipti við Skagamann sem sótti að honum. Undirritaður sá ekki gjörla hvað gerðist en sýndist þetta vera hálfgert hnoð. Samt klaufalegt og raunar algjör óþarfi að láta reka sig útaf fyrir brot við miðlínu og sannarlega ekki verið að bjarga marki. Blikar þar með orðnir einum færri og eftir þetta var lítið að frétta  það sem eftir lifði hálfleiks annað en að Vetur konungur sýndi klærnar með tilþrifamiklum éljagangi sem hafði talsverð áhrif á gæði leiksins og gang.

image

Enn bætti í úrkomuna í hálfleik og var völlurinn snævi þakinn þegar leikur hófst að nýju. Var nú búið að skipta um bolta og sá nýi var appelsínugulur og sást því mun betur. Má mikið vera ef þetta var ekki sá sami og Blikastúlkur léku með í Meistaradeildinni, við svipaðar aðstæður í haust er leið.

Blikar gerðu 3 breytingar í hálfleik. Davíð, Anton Logi og Sölvi Snær fengu hvíldina og inn komu Oliver, Mikkel Qvist og  Benedikt Warén.

Veðrið gekk svo að mestu niður í upphafi síðari hálfleiks og á 53. mínútu áttu Blikar hörkusókn og Benedikt Warén skaut í ofanverða stöngina og síðan Kristinn í sömu stöng en inn vildi boltinn ekki. Skömmu síðar komust Blikar aftur í gott færi en sem fyrr vildi boltinn ekki í netið. Blikar ívið sterkari fyrstu 20 mínúturnar í síðari hálfleik og virtist ekki há þeim að ráði að vera einum færri. Þrátt fyrir að veðrið hefði lagast til muna þá bötnuðu aðstæður lítið inná velllinum sjálfum og runnu leikmenn beggja liða hist og her í snjónum útum allan völl og stundum hver á annan. Féllu þá ýmsir við og sumir í móðurættina þannig að unun var á að horfa. Var annars lítið að frétta þar til á 85. mínútu að Viktor Karl fékk boltann úti á hægri kanti og náði fastri sendingu inn fyrir vörn gestanna og þar kom Benedikt á ferðinni, lék að vítateig og setti boltann af öryggi fram hjá markverði Skagamanna og í netið. Staðan 2-1 Blikum í vil og kannski ekki ósanngjarnt en lá svo sem ekki í loftinu heldur. Vel klárað færi. Skömmu síðar dró enn og aftur til tíðinda og var sannarlega skammt stórra högga á milli hjá Blikum og einkum þó Benedikt, því nú fékk hann sitt annað gula spjald og þar með rautt og voru nú Blikar orðnir 9 inná vellinum. Harður dómur. En þeir voru ekki að velta sér mikið upp úr því og brunuðu bara í sókn og Kristinn komst einn í gegn og alla leið inn í vítateig þar sem brotið var á honum. Vítaspyrna var dæmd og úr henni skoraði Höskuldur af miklu öryggi og innsiglaði þar með 3-1 sigur okkar manna.
Skömmu síðar blés dómarinn til leiksloka og var það jafngott því nú var aftur kominn harða vetur. En sól var í sinni Blika sem kláruðu þennan leik með stæl þrátt fyrir að vera manni færri megnið af leiknum og svo tveimur í lokin.
Okkar menn fara því vel af stað í Lengjubikarnum í ár. Leikurinn var hin bærilegasta skemmtun þrátt fyrir erfiðar aðstæður lengst af og ljóst að menn eru í ágætum gír.

Næsti leikur okkar manna er strax á þriðjudaginn á sama stað kl. 19:00 og þá koma Fjölnismenn í heimsókn. Spáin er fín.

OWK.

image

Til baka