BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar mæta Skagamönnum

25.01.2018

Breiðabliksliðið mætir gulum og glöðum Skagamönnum í 3. umf. Fótbolta.nets mótsins og fer leikurinn fram í Akraneshöllinni á laugardaginn kl.11:00.

Þetta er leikur í 3. umferð en annar leikur Blika í keppninni. Ástæðan er frestun leiks Breiðabliks og ÍBV um síðustu helgi.

Breiðablik og ÍA hafa mæst 110 sinnum í opinberri keppni frá upphafi (nánar). Leikur ÍA og Breiðabliks á laugardaginn er því 111. opinberi leikur liðanna frá upphafi og 4. leikur liðanna í Fótbolta.net mótinu frá því að það hófst árið 2011.

2012 gera liðin 0-0 jafntefli í Fífunni (nánar).

2013 vinnur Breiðablik 1-0 sigur á ÍA í Fífunni með marki frá Elfari Árna Aðalsteinssyni (nánar).

2015 vinna Blikar góðan 3-0 sigur í Fífunni með mörkum frá Ellert Hreinssyni, Arnþóri Ara Atlasyni og Davíð Kristjáni Ólafssyni (nánar).

Búast má við hörkuleik í Akraneshöllinni á laugardaginn. Bæði lið töpuðu síðustu leikjum í mótinu. ÍA vann ÍBV 3-1 fyrsta leik en tapaði svo 2-0 fyrir Störnunni í síðasta leik. Blikaliðið er búið með 1 leik sem var naumt 0-1 tap fyrir Stjörnunni í Kórnum um miðjan janúar (nánar).

Blikastrákarnir hafa æft vel að undanförnu og hafa nokkrir ungir og efnilegir leikmenn úr 2. og 3. flokki fengið að æfa og spila með liðinu. Strákarnir hafa staðið sig mjög vel. Ekki er vitað hvort einhver þessara stráka fái aftur tækifæri á laugardaginn en óneitanlega væri gaman að sjá einhvern þeirra aftur inn á vellinum.

Eins og hefur komið fram í fjölmiðlum þá hefur Skagamaðurinn Guðmundur Böðvar Guðjónsson skipt yfir til okkar Blika. Hann lék undir stjórn Ágústar Gylfasonar þjálfara hjá Fjölni þannig að Ágúst veit hvað í hann er spunnið. Guðmundur Böðvar býr á Akranesi og ætlar að bjóða Blikastrákunum heim til sín eftir leikinn í ljúffenga Skagamáltíð. Þetta er skemmtilegt frumkvæði hjá Guðmundi enda er hann sterkur karakter og góður liðsfélagi.

Sigurvegarar Fotbolta.net mótsins frá upphafi:

2011: Keflavík

2012: Breiðablik

2013: Breiðablik

2014: Stjarnan

2015: Breiðablik

2016: ÍBV

2017: FH

Leikur ÍA og Breiðabliks verður í Akraneshöllinni á laugardaginn klukkan 11:00.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka