BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar komnir í úrslit!

18.03.2024 image

Blikaliðið tryggði sér sæti í úrslitaleik Lengjubikarsins með 0:1 sigri á Þórsurum í Boganum á Akureyri. Sigurinn var torsóttur en Aron Bjarnason tryggði okkur sætið dýrmæta með marki í uppbótartíma eftir frábæra sendingu Viktors Karls Einarssonar. Úrslitaleikurinn fer fram miðvikudaginn 27. mars og verða andstæðingar okkar annað hvort Valsarar eða Skagamenn.

Leikurinn fer ekki í sögubækurnar sem einn af toppleikjum Blikaliðsins. Við vorum í vandræðum meirihluta leiksins og náðum ekki upp þeim hraða og krafti sem hefur einkennt liðið okkar í flestum leikjum okkar hingað til. Leikurinn var hins vegar fjörugur, töluvert um marktækifæri og mikið af pústrum og návígum. Gulu spjöldin voru fimm og var nokkur hiti í leikmönnum. Aðalatriðið er hins vegar að sigurinn datt okkar megin og geta nú strákarnir einbeitt sér að því að fínpússa leik sinn í æfingaferð á Spáni. Þar mætum við til dæmis þýska Bundesligaliðinu Köln í æfingaleik. Við ættum því að vera klárir fyrir úrslitaleikinn í Lengjuibikarnum annan miðvikudag!

-AP

Til baka