BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

„Blikar Jólastjarna“

15.12.2017

Blikar léku til úrslita gegn Stjörnunni í BOSE mótinu í gærkveldi og fór leikurinn fram í Fífunni.  Bæði lið búin að eiga gott mót og nú var barist um sigurlaunin, nýtt hljóðkerfi í klefann. Og svo fylgir sigri í þessu móti örlítill montréttur fram til 4. janúar.

Blikar stilltu upp liði sínu þannig í byrjun;

Ólafur Íshólm (M)
Elfar Freyr - Damir - Viktor
Jonathan - Kolbeinn - Andri Rafn - Willum - Davíð Kristján
Gísli - Arnþór Ari

Kunnuglegt kerfi með 3ja manna varnarlína og eldfljóta vængmenn á hraðferð upp og niður kantana.

Bæði lið hófu leikinn af krafti og mikilli ákefð og það var hart tekist á um allan völl. Ekki mikið um færi en þeim mun meiri stöðubarátta um allan völl. Smátt og smátt náðu Blikar frumkvæðinu í leiknum og þegar leið á hálfleikinn voru tök okkar manna á leiknum orðin nokkuð góð. Blikar gerðu fyrsta markið eftir um hálftíma leik þegar Arnþór Ari skallaði boltann í netið eftir góða sókn Blika upp vinstri kantinn. Blikar hertu svo tökin enn frekar og skömmu fyrir leikhlé náðu þeir góðu hraðaupphaupi hægra megin þar sem Hendrickx komst inn í teig og sendi þvert inn í teig, Arnþór Ari hljóp yfir boltann en á eftir honum kom Gísli á ferðinni og skoraði með góðu skoti neðst í markhornið. Blikar komnir í 2-0 og það var verðskuldað. Á þessum kafla var bara eitt lið á velllinum og okkar menn að að leika mjög vel.  Seinni hálfleikur einkenndist eins og sá fyrri af mikilli baráttu og var fínn að flestu leyti. Byrjunarliðið týndist jafnt og þétt útaf og það voru aðeins tver -3 leikmenn sem léku allar 90 mínúturnar. Þeir sem komu inn á stóðu vel fyrir sínu og greinilegt að það er þokkaleg breidd í hópnum og útlit fyrir verulega samkeppni um stöður. Það er góðs viti. Aftur að leiknum sjálfum. Leikurinn var ívið jafnari í síðari hálfleik og gestirnir freistuðu þess að minnka muninn en Blikar vörðust vel og gestirnir náðu ekki að skapa sér færi að ráði, þó nokkrum sinnum munaði litlu. Eftir því sem á leið dró heldur af Stjörnumönnum og Blikar héldu boltanum vel og gáfu fá færi á sér. Annars var þetta barátta og aftur barátta með flottu spili í bland. Blikar sköpuðu sér svo 2-3 góð færi en náðu ekki að auka við forystuna. Gísli hefði átt að bæta 3ja markinu við og sínu 4ða marki í mótinu, þegar hann slapp einn í gegn en markmaður náði að loka á hann. Fyrir vikið hirti Willum markakóngstitlinn (var sneggri að skora sín 3 mörk) en Gísli var valinn maður mótsins að leik loknum og Blikar fengu svo sigurlaunin afhent í leikslok. Rándýrt hljóðkerfi frá BOSE.

Blikar kláruðu þennan leik vel og það var gaman að horfa á. Fínn bragur á liðinu. Baráttan og ákefðin til fyrirmyndar og liðið hikstaði ekki þó skipt væri ört um leikmenn. Blikar hlupu hraðar og meira en andstæðingurinn, voru grimmir í návígjum og hirtu marga lausa bolta. Það telur og vonandi gefur þetta góð fyrirheit um það sem koma skal. Fótboltakunnáttan er til staðar en það þarf að vera með yfirhöndina á öllum sviðum.

Blikar ætla að æfa grimmt fram að áramótum, enda er það alkunna að það er aukaæfingin sem skapar meistarann. Nýtt ár hefst svo með látum og æfingamótin rúlla í gang  Fyrst Fótbolta.Net mótið og svo Lengjubikarinn.

Namminamm!

Áfram Breiðablik !

OWK

Myndaveisla í boði BlikarTV.

Leikurinn í heild í boði SportTV. 

Til baka