BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar héldu hreinu !

19.08.2014

Blikar mættu Fram í kvöld í 16.umferð PEPSI deildarinnar. Veður var dágott í dalnum. Hæg norðvestan átt í byrjun en logn að heita þegar leið á leikinn. Heiðríkja, en sól farin að lækka nokkuð á lofti og skuggar að lengjast. Hiti nálægt 13°C sem telst ágætt miðað við árstíma Völlurinn fallegur og virtist í góðu standi en samt voru menn að skripla á skötu og detta á rassinn í tíma og ótíma. Hvernig er það eiginlega? Er ekki hægt að fá þessa hundrað þúsund króna skó sem menn eru með á fótunum, neglda? Eða kostar það aukalega?

Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m)
Damir Muminovic - Finnur Orri Margeirsson (F) - Elfar Freyr Helgason  - Arnór Aðalsteinsson
Höskuldur Gunnlaugsson - Andri Yeoman - Baldvin Sturluson - Guðjón Pétur Lýðsson
Elfar Árni Aðalsteinsson - Árni Vilhjálmsson

Varamenn:
Arnór Bjarki Hafsteinsson (m)
Stefán Gíslason
Elvar Páll Sigurðsson
Ellert Hreinsson
Jordan L. Halsmann
Davíð Kristján Ólafssson
Olgeir Sigurgeirsson

Sjúkralisti:
Enginn það vitað er

Farnir í nám erlendis:
Tómas Óli Garðarsson
Gísli Páll Helgason

Það er fyrst frá fyrri hálfleik þessa leiks að segja að mér er satt að segja til efs að Blikar hafi haft boltann jafnmikið fyrstu 15-20 mínútur nokkurs leiks frá því við endurheimtum sæti okkar í PEPSI deildinni haustið 2005. Nánast einstefna, en samt tókst ekki að troða tuðrunni í netið. Færin reyndar ekki ýkja mörg en samt nógu mörg til að setja eitt eða tvö mörk. Svo datt þetta niður og leikmenn gerðu sig sannast sagna ekki líklega til að efna í markaveislu. En svo komu okkar menn reyndar lífi í leikinn og blésu eiginleg lífi í Framarana þegar þeir hentu í tvö góð færi, eins og sagt er, en bara vitlausu megin. M.ö.o . réttu gestunum boltann á miðju vallarins þannig að þeir gátu blásið til skyndisókna og minnstu munaði í tvígang að Haukur Baldvinsson skoraði. Í fyrra sinn skaut hann í bak samherja, og í hið seinna bjargaði Gunnleifur vel.
Það hefði verið huggulegt, eða hitt þó heldur að lenda undir í lok hálfleiksins, eftir að hafa stjórnað leiknum meira og minna í 45 mínútur þó heldur drægi úr yfirburðunum þegar á leið.
Staðan í hálfleik semsagt 0-0 og einhvernveginn lá það fyrir að gestirnir ætluðu ekki að hætta miklu til fram á við, heldur liggja til baka og sækja hratt. Það má svo sem segja að þetta hafi gengið að sumu leyti en það var mest fyrir okkar klaufaskap. En það mega þeir eiga að þeir voru snöggir að skapa sér færin þegar okkur varð á í messunni. Okkar menn voru að gera þokkalega hluti á köflum og héldu boltanum ágætlega en oft gekk þetta ansi hægt og of oft hlupu menn langar leiðir með boltann áður en sent var á samherja, og þá voru menn oft lentir í pressu og sendingarnar oft á tíðum slakar. Í stað þess að senda bara boltann hratt og vel á næsta mann, því nægt var plássið og gestirnir voru ekki sérlega vel skipulagðir og það var mikið óöryggu yfir varnarleik þeirra. Einkum framan af.

Í hálfleik voru menn mis vongóðir þó flestir væru sammála um að við værum miklu betri. Það gefur bara engin stig ef hinir skora mörkin. Menn sögðu að þetta gæti farið á hvorn veginn sem er. Fram hefur nefnilega reynst vera okkur sannkallað bananhýði síðan við unnum þá í bikarúrslitunum 2009. Ekki unnið þá síðan og oftar en ekki húrrað á rassinn gegn þeim. Samt spilað ágætlega í mörgum leikjunum.
Deja Vu !

En hafi gestirnir verið rólegir fram á við í fyrri hálfleik þá var það hrein hátíð miðað við þann seinni. Afleiðingin var sú að langtímum saman voru okkar menn með boltann, en ávallt vantaði herslumun. Og þegar okkar menn misstu boltann þá slengdu gestirnir boltanum jafnharðan langt fram þar sem hann hafnaði oftast hjá varnarmönnum okkar sem hófu næstu sókn og svona gekk þetta á víxl langt fram eftir kvöldi. Og eftir því sem tíminn leið og skuggarnir lengdust þá óx örvænting stuðningsmanna Blika, sem fjölmennt höfðu á völlinn. Ætlaði þetta að verða eitt jafnteflið enn? Eða fáum við á okkur enn eitt skítamarkið? Það væri svo sem eftir öðru....

En svo snerist leikurinn okkur í vil á augabragði þegar tæpur stundarfjórðungur var til leiksloka. Dæmd var aukaspyrna á Árna, ranglega að vísu, á miðjum vallarhelmingi gestanna. Árni maldaði hressilega í móinn þar sem gestirnir voru ítrekað búnir að toga í brók og peysu hans í aðdraganda þessa án athugasemda. Leikmaður gestanna tók hinsvegar boltann og sendi aftur til markvarðar en sendingin var laus og um tilganginn er ekki gott að segja. Árni var hinsvegar fljótur að átta sig og náði boltanum á undan markverðinum, lék á hann og renndi boltanum í autt markið. Gestirnir voru ekki par ánægðir með þetta og reyndu að mótmæla en það var satt að segja ekki mikil sannfæring í því hjá þeim og þeir virtust ekki alveg öruggir á því, sem þeir svo héldu fram eftir á, að markvörðurinn hefði átt að taka frísparkið. En hvað um það, markið stóð og verðskulduð og langþráð forysta Blika staðreynd. Og nú gerðust hlutirnir hratt. Blikar fengu aukaspyrnu tveimur mínútum seinna, stúkumegin við vítateig gestanna og Guðjón Pétur sendi þéttingsfastan bolta í átt að markinu. Boltinn virtist fara óáreittur gegnum allan pakkann uns hann hafnaði í innanverðu hliðarnetinu, en ekki skal útilokað að hann hafi haft viðkomu í einhverjum leikmanni. Markið skráð á Guðjón Pétur þar til annað kemur í ljós. 2-0 og tíu mínútur eftir. Nú var sá litli vindur sem lék um segl gestanna endanlega þrotinn og þeir köstuðu inn handklæðinu, ef svo má segja. Og aðeins fjórum mínútum síðar kláraði Elfar Árni leikinn með laglegu merki eftir góðan undirbúning Árna. Lokatölur 3-0 og Blikar héldu loksins hreinu í PEPSI deildinni, en það hafa þeir ekki gert síðan í 17. umferðinni í fyrra, í 0-0 jafntefli gegn Víkingi Ólafsvík.

Blikar hirtu öll stigin í kvöld og það var verðskuldað því þeir voru betra liðið í 90 mínútur. Þetta var þó engin glansleikur og margt má betur fara hjá liðinu. Mætti maður biðja um örlítið meiri diskant? Færri snertingar og minna klapp og hlaup með boltann. Það er margsannað að boltinn ferðast hraðar þegar honum er sparkað en þegar menn hlaupa með hann. Þá gæti þetta orðið gaman.
Varnarlega reyndi kannski ekki mikið á okkur en við vorum samt næstum búnir að gefa gestunum 2 mörk með aulalegum mistökum inni á miðsvæðinu. Í báðum tilvikum vorum við berskjaldaðir og stálheppnir að vera ekki refsað. Afleitt.

En 3 stig í hús og og markatalan löguð til er það sem farið var fram á í kvöld.  Við sitjum nú í 7. sæti deildarinnar eftir 16 leiki með 18 stig og markatöluna 24-25.
Við getum betur.

Næsti leikur er gegn Stjörnunni  í Garðabænum á sunnudag. Sá leikur er gríðarlega mikilvægur í þeirri baráttu sem framundan er. Stjörnumenn fljúga með himinskautum þessa dagana og gengur allt í haginn. Við þurfum að sækja stigin með blóði og grimmd. Og láta boltann ganga.

Áfram Breiðablik !

OWK
 

Til baka