BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar gefa ekkert eftir!

31.07.2018

Breiðablik vann góðan 1:3 sigur á Keflavík á útivelli í Pepsí-deild karla í gær. Daninn Thomas Mikkelsen hélt áfram uppteknum hætti og setti tvö mörk. Einnig gerði markahæsti maður liðsins Gísli Eyjólfsson eitt mark. Með sigrinum heldur Blikaliðið sér inni í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Næsta umferð verður mjög áhugaverð því þá tökum við á móti KR-ingum á heimavelli og efstu liðin Stjarnan og Valur mætast í innbyrðisviðureign. 

Byrjunarliðin í boði Úrslit.net

Sigur Blikaliðsins í gær var mjög verðskuldaður. Við stjórnuðum leiknum frá fyrstu mínútu en við hleyptum óþarfa spennu í leikinn skömmu fyrir leikslok þegar við gáfum heimapiltum óþarfa vítaspyrnu. Það verður samt að hrósa Blikaliðinu fyrir góðan og þolinmóðan leik. Keflvíkingar, sem eru nánast fallnir, komu vel skipulagðir til leiks. Þeir börðust um alla bolta og lokuðu vel á sóknaraðgerðir okkar pilta. Samt sem áður vorum við að koma okkur í þokklegar stöður í fyrri hálfleik en náðum ekki að reka endahnútinn á sóknaraðgerðirnar. Staðan var því markalaus í fyrri hálfleik.​

Í síðari hálfleik kom getumunurinn á þessum tveimur liðum betur í ljós. Sóknarþungi Blikaliðsins varð þyngri og á rúmlega fimm mínútna kafla gerðum við út um leikinn með tveimur mjög góðum mörkum. Það fyrra kom eftir mjög flotta rispu Arons Bjarnasonar upp vinstri kantinn og Gísli Eyjólfsson kláraði sendinguna eftir að Thomas hafði misst af boltanum.  Aron Bjarnason átti einnig allan heiður af öðru markinu en hann stakk Keflavíkurvörnina af og átti þrumuskot sem markvörður heimapilta varði en hélt ekki knettinum. Þar var markahrókurinn Thomas Mikkelsen réttur maður á réttum stað á réttum tíma og kom tuðrunni örugglega í netið. 

Við héldum áfram að pressa á Keflvíkinga næstu mínútur en það var eins og smá kæruleysi gerði vart við sig í Blikaliðinu. Við hleyptum þeim bláklæddu of mikið inn í leikinn og gáfum svo ódýra vítaspyrnu um tíu mínútum fyrir leikslok. En Davíð Kristján var ekki á þeim buxunum að gefa stigin þrjú frá sér og náði í vítaspyrnu í uppbótartíma. Vel gert hjá bakverðinum knáa!

Það verður líka að hrósa áhorfendum beggja liða fyrir frammistöðu sína í gær. Þrátt fyrir mikla brekku í Keflavík mætti töluvert af heimafólki á leikinn og hvatti sína menn áfram allt til loka leiksins. Svona mæting er til mikillar fyrirmyndar og mættu stuðningsmenn annarra liða taka Keflvíkinga til fyrirmyndar. Það skal tekið fram að Blikar mættu einnig mjög vel á leikinn og var ágætis stemmning í blíðunni suður með sjó.

Það skyggði þó að góð úrslit í gær að miðjumaðurinn ungi og efnilegi Kolbeinn Þórðarson meiddist enn eina ferðina. Hann koma inn á sem varamaður og greinilegt að heimapiltar þekktu snilli hans. Þeir gripu þvi til þess ráðs að bomba hann niður aftan frá og  þurfi hann því að fara af velli eftir einungis nokkrar mínútur. Enn er ekki vitað hvort meiðslin séu alvarleg en hann var amk uppi á slysadeild langt fram á nótt. Dómararar þurfa að taka á svona fólskubrotum af mun meiri festu en gert er. Ekki þýðir að rífa upp spjald í gríð og erg fyrir smá köll en láta svo svona ruddamennsku viðgangast. Og hana nú!

Sigurinn þýðir að við erum í hörkusjens að landa Íslandsmeistaratitlinum. Við verðum bara að trúa því sjálfir að við getum það! Svo einfalt er það nú! Liðið spilaði fínan fótbolta megnið af leiknum. Það er erfitt að taka einhvern einn einstakan leikmann og hrósa honum því liðið spilaði allt mjög vel. Þó er vert að geta þess að Jonathan Hendrixz er farinn að ná fyrri styrk, hraða og útsjónarsemi. Hann var mjög ógnandi allan leikinn en kæruleysi hjá honum að gefa vítaspyrnuna. Það er hins vegar hægt að lofa því að það kemur ekki fyrir aftur! Vörnin steig í raun ekki feilspor í leiknum og ekki skrýtið að liðið er búið að fá langfæst mörk á sig í allri deildinni. Það var einnig mjög ánægjulegt að sjá Elfar Frey koma inn á aftur en hann hefur verið frá vegna meiðsla síðan 9.júní. Miðjan með Oliver og Andra Rafn og framlínan með Gísla, Aron og Thomas fremsta meðal jafningja á líka mikið hrós skilið.

Þau ánægjulegu tíðindi voru einnig að berast að Oliver Sigurjónsson mun klára tímabilið með okkur Blikum áður en hann heldur aftur upp í túndruna í Norður Noregi. Drengurinn hefur átt flotta leiki í græna búningnum og því liggur ekkert á að fara úr andi. Hann á líka eftir að landa tveimur titlum fyrir okkur Blika!

Við mætum þeim langröndóttu úr Vesturbænum í næstu umferð. Þeir hafa verið að rétta úr kútnum í undanförnum leikjum og má þvi búast við hörkuleik. Í sömu umferð mætast Stjarnan og Valur í Garðabænum. Ef úrslitin úr þessum tveimur leikjum verða hagstæð getum við tyllt okkur á toppinn. Þar eigum við auðvitað að vera enda erum við með mannskap og leikskipulag í fremstu röð. Það er eitthvað í andrúmsloftinu!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

Umfjallanir netmiðla

Klefafagn í boði BlikarTV

Til baka