BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar byrja vel á nýju ári!

08.01.2022 image

Mikið breytt Blikaliðið vann nokkuð öruggan 5:2 sigur á Keflavík í fyrsta leik á FotboltaNet mótinu árið 2022. Sigurinn var sanngjarn en hugsanlega aðeins of stór miðað við gang leiksins því gestirnir áttu nokkur góð færi sem þeir ekki nýttu. Ennig átti Brynjari Atli Bragason stórleik í marki Blika og varði nokkrum sinnum frábærlega. Margir fastamenn Blika, meðal annars allir landsliðsmennirnir okkar, voru fjarverandi í þessum leik og sýnir það hve breiddin og samkeppin er gríðarleg í leikmannahópnum.

Keflavíkingar byrjuðu leikinn betur og pressuðu okkur nokkuð fyrstu 20 mínútur leiksins. En Blikar voru samt skeinuhættir úr skyndisóknum. Úr einni þeirra fiskaði Benedikt Warén vítaspyrnu sem Kiddi Steindórs skoraði örugglega úr. Skömmu síðar fengum við aðra vítaspyrnu og úr henni skoraði Kiddi aftur, reyndar í annarri tilraun. Við létum hins vegar Keflavíkinga minnka muninn skömmu fyrir leikhlé og var það óþarfi!

Suðurnesjamenn áttu nokkur upplögð færi í upphafi síðari hálfleiks en hittu hreinlega ekki á markið eða að Brynjar Atli tók af þeim knöttinn. Þegar hinn bráðefnilegi Ásgeir Galdur Guðmundsson setti þriðja markið á 50. mínútu, fyrsta meistarflokksmark Ásgeirs, var ljóst hvar sigurinn myndi enda. Benedikt Warén setti fjórða markið fljótlega eftir frábæran undirbúnings Ásgeirs Galdurs og það var síðan Kristinn Steindórsson sem fullkomnaði þrennuna sína á 70. mínútu með fimmta marki okkar drengja. Keflavík minnkaði síðan muninn í 5:2 skömmu fyrir leikslok en stigin þrjú urðu eftir í Kópavogi.

image

Kiddi skoraði þrennu í leiknum. Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Myndaveisla: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Allir leikmenn Blikaliðsins fengu að spreyta sig og stóðu sig vel. Venezúelamaður Juan Camilo Perés þreytti frumraun sína með Blikaliðinu og átti ágætan leik sem vinstri vængbakvörður. Davíð Ingvars sýndi á sér nýja hlið sem miðvörður og Dagur Dan átti flottan leik á miðjunni. Það vakti athygli að þjálfari þeirra Augnabliksmanna Hrannar Bogi Jónsson spilaði síðari hálfleikinn með Blikaliðinu og stóð vel fyrir sínu. Þetta var fyrsti meistaraflokksleikur Hrannars Boga fyrir Breiðablik en hann verður 29 ára á þessu ári!

Næsti leikur Breiðabliks er gegn vinum okkar í Leikni laugardaginn 15. janúar í Breiðholtinu og verður gaman að sjá hvers konar Blikaliði þjálfararnir okkar tefla fram í þeirri viðureign!

-AP

KLIPPUR ÚR LEIKNUM Í BOÐI BLIKAR TV

Til baka