BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar betri en broddinn vantaði

07.05.2012

Blikaliðið varð að bíta í það súra epli að tapa fyrsta leiknum í Pepsí-deildinni árið 2012 gegn ÍA 0:1. Skagamenn mættu með sterka vörn og þrátt fyrir mikla yfirburði úti á vellinum í fyrri hálfleik tókst okkar drengjum ekki að skapa sér nein verulega góð færi. Í síðari hálfleik komu gestirnir betur inn í leikinn og tókst að pota inn einu marki. Þrátt fyrir mikla pressu Blikaliðsins hélt Skagavörnin og stigin þrjú fóru öll yfir Faxaflóann.

Blikaliðið getur verið þokkalega ánægt með leikinn en ekki úrslitin. Vörnin leit vel út þrátt fyrir að Gísli Páll lægi veikur heima með flensu. Tómas Óli stóð sig vel í bakverðinum en auðvitað vill maður sjá hann framar á vellinum.  Miðjumennirnir með Finn Orra sem fremstan meðal jafningja létu boltann fljóta vel. Sóknarmennirnir áttu þokkalega spretti en samt sem áður vantaði meiri greddu inn í teiginn. En það þýðir ekkert að gráta Björn bónda.

Fjórir leikmenn Blika voru að leika fyrsta leikinn í efstu deild á Íslandi. Sverrir Ingi Ingason, Elfar Freyr Aðalsteinsson, Renee Troost og Petar Rnkovic. Blikar.is óskar þeim til hamingju með þann áfanga.

Næsti leikur er gegn særðum Eyjamönnum í Vestmannaeyjum. Þeir töpuðu einnig sínum fyrsta leik þannig að bæði lið verða að ná ásættanlegum úrslitum í þeim leik.

Sjá umfjöllun um leikinn á Fótbolti.net  

 

Sjá umfjöllun um leikinn á 433.is

Andrés Pétursson

Til baka