BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

FOKK OFBELDI

02.09.2021 image

Við stuðningsfólk Breiðabliks höfum átt mörgu að fagna í sumar og það er bjart fram undan. Meistaraflokkur karla í Breiðablik hefur í það í hendi sér hvort það tryggi sér Íslandsmeistaratitilinn síðar í þessum mánuði. Frammistaða liðsins í Evrópukeppninni var stórkostleg og það fór alla leið í 3. umferð og spilamennska liðsins hefur vakið athygli og aðdáun bæði innan lands og utan.

Meistaraflokkur kvenna er í 2. sæti í efstu deild, þær eru komnar í úrslit í bikarkeppninni og eiga góða möguleika á að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar 2021/2022.

Það er gaman að vera Bliki þessar vikur og mánuði. Við höfum haft mörg tækifæri á að fagna góðum úrslitum - og það höfum við svo sannarlega gert.

Ský fyrir sólu

Því miður er það samt þannig að nú gengur yfir knattspyrnuheiminn á Íslandi nokkuð sem líkja má við fárviðri. Allir vita hvað um ræðir og fólk er í senn sorgmætt og vonsvikið. Sú staðreynd að ofbeldi gegn konum hafi átt sér stað sem tengist landsliði Íslands, flaggskipi knattspyrnunnar í landinu er eitthvað sem á ekki að viðgangast. Afleiðingarnar eru þær að stjórn knattspyrnumála í landinu er í algeru uppnámi og ákveðið hefur verið að kalla á saman aukaþing KSÍ. Þetta er auðvitað fordæmalaus staða innan okkar hreyfingar og það er margt sem þarf skoða frá grunni í yfirstjórn knattspyrnunnar í landinu. 

Blikar.is fordæma það ofbeldi, einelti og hvers konar óásættanlega hegðan sem kann að þrífast innan knattspyrnuhreyfingarinnar.  Það á aldrei að líðast. Í fótbolta á ekki bara að vera pláss fyrir alla heldur á þátttakendum að líða þar vel bæði innan vallar og utan. Alger lágmarkskrafa er að öll njóti öryggis.

Horfumst í augu við fortíðina, lærum af henni og byggjum til framtíðar

Nú þarf að fara fram allsherjar endurskoðun á stjórnarháttum KSÍ og við treystum á að grunnur að því verði lagður á aukaþinginu. Breiðablik er stærsta félagið innan KSÍ og því ber félagið mikla ábyrgð á því hvernig framtíðarsýn sambandsins verður mótuð. Við treystum á að fulltrúar okkar á þinginu leggi fram framsæknar og ábyrgar tillögur í þeim efnum og bjóði fram einstaklinga til forystu á þeim vettvangi innan okkar raða. Við á blikar.is vitum að það er talsvert horft til Breiðabliks og við eigum að ganga fram fyrir skjöldu í þessum efnum. 

Breiðablik hefur tekist að samtvinna grasrótarstarf og afreksstefnu svo eftir hefur verið tekið og getum orðið leiðandi í þeirri stefnumótun sem framundan er.  

Skilaboðin frá blikar.is eru skýr:  "Fokk ofbeldi".                                       

Ritstjórn

image

Til baka