BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Bikardraumurinn úti ☹

24.06.2021 image

Blikar töpuðu 2:0 fyrir Keflvíkingum í framlengdum leik í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni KSÍ í gærkvöldi. Tapið var svekkjandi því við vorum meira með boltann og sköpuðum okkur töluvert af færum.

En inn vildi knötturinn ekki og við þurftum því að bíta í það súra epli að komast ekki í Laugardalinn enn eitt árið.  Það þýðir hins vegar ekkert að hengja haus því verðug verkefni bíða strákanna á næstu vikum bæði í deild og ekki síður Evrópukeppni.

Þokkalegasta veður var suður með sjó aldrei þessu vant! Sólin skein, lofthiti var í kringum 7 gráður en nokkur andvari af suð-austri. Því miður sáust ekki margir áhorfendur á vellinum og greinilegt að þessar Covid19-hindranir eru að hafa áhrif á mætinguna á völlinn. En sem betur fer sjáum við fyrir endann á þeirri óáran. Þjálfararnir gerðu nokkrar breytingar á liðinu frá hinum frækna sigri gegn FH. Sjálfsagt til að hvíla lykilmenn en einnig til að gefa fleiri leikmönnum tækifæri til að spreyta sig. Fyrri hálfleikur var fjörugur og skipust bæði lið á því að sækja. Sóknarleikur Blika var snarpur og fengum við óteljandi hornspyrnur sem nýttust því miður ekki sem skyldi. Sérstaklega var gaman að sjá flottar hornspyrnur Höskuldar Gunnlaugssonar sem sköpuðu stórhættu hvað eftir annað. Það var reyndar með ólíkindum að liðin skyldu ekki skora í hálfleiknum. Við lentum meðal annars nokkrum sinnum í erfiðleikum með skyndisóknir Keflavíkinga og einnig voru föst leikatriði heimapilta að valda okkur vandræðum.

Viktor Örn og Alexander komu inn á eftir leikhlé fyrir þá Gísla og Damir. Við náðum betri tökum á miðjunni og virtumst ætla að taka yfir leikinn og áttum nokkrar snarpar sóknir að marki Suðurnesjapilta. En smám saman jafnaðist leikurinn og of oft skapaðist hætta upp við markið hjá okkur þegar varnarmenn okkar dekkuðu ekki sóknarmenn heimapilta nægjanlega vel í vítateignum. En þrátt fyrir nokkur ágætist færi á báða bóga var staðan jöfn 0:0 eftir hefðbundinn leiktíma. Því var gripið til framlengingar. Við hertum smám saman gripið á Keflvíkingum og virtumst ætla að landa sigri. En þá kom rothöggið. Heimapiltar náðu snarpri sókn skömmu fyrir leikslok og varnarmenn Blika gáfu sóknarmanni Keflvíkinga allt of mikið pláss og þar með vorum við lentir undir 1:0.  Blikar hentu öllu sem þeir áttu í sóknina á lokamínútunum en það þýddi að vörnin var fáliðuð. Þeir bláklæddu laumuðu því inn öðru marki á lokasekúndunum. Það skipti í sjálfu sér ekki máli enda allt í húfi. Bikardraumi okkar Blika var því rústað suður með sjó að þessu sinni.

image

Leikurinn var fyrsti byrjunarliðsleikur Sölva Snæs með Breiðabliki

image

Anton Logi fékk fyrstu mínúturnar síðan í fyrra þegar hann kom inná fyrir Sölva Snæ á 113. mín.

Við megum hins vegar ekki dvelja of lengi við þennan leik. Nú þarf liðið að undirbúa sig fyrir erfiðan leik gegn HK á sunnudaginn í Kórnum. Félagar okkar í efri byggðum hafa oft valdið okkur miklum búsifjum. Þeir tvíeflast alltaf í leikjum gegn okkur og nú þurfum við að mæta þeim af fullri hörku.

Við hvetjum alla Blika til að mæta á leikinn gegn HK á sunnudag kl.19.15. Með öflugum stuðningi áhorfenda náum við góðum úrslitum.

-AP

Til baka