BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2025: Afturelding - Breiðablik

01.07.2025 image

Eftir sterkan sigur okkar manna í síðasta leik á erfiðum útivelli gegn Stjörnunni er komið að öðrum erfiðum útivelli.

Breiðabliksliðið ferðast upp í Mosfellsbæ til að etja kappi við lið Aftureldinar sem er á mikilli siglingu þessa dagana. Það var gaman að fá Mosfellinga í heimsókn á Kópavogsvöll í fyrsta leik tímabilsins með tilheyrandi stemmingu og vonandi mæta okkar menn í svipuðum gír í útileikinn gegn þeim.

Allavega eru Mosfellingir búnir að boða til fjölskylduhátíðar í Hlégarði fyrir leik: Sprite Zero Klan stígur á svið og Emmessís gefur ís. Húsið opnar klukkan 18:00. Nánar um viðburðinn hér. 

Kópacabana sveitin ætlar að hita upp á Bankinn Bistro í Mosó og mæta svo á leikinn.

Þetta verður eitthvað - bæði innan vallar sem utan. 

Miðasala á leikinn er á: Stubb

Stöðutaflan eftir 13 umferðir. Blikar í 2. sæti - 3 stigum á eftir toppliðinu:

image

Sagan & Tölfræði

Innbyrðis keppnisleikir Aftureldingar og Breiðabliks eru 10 talsins - þar af 4 leikir í B-deild Íslandsmótsins árin 2002 og 2003.

Vinningshlutfallið í leikjunum 10 fellur með Blikum: 9 sigrar gegn 1 sigri Aftureldingar. Nánar hér. 

Fyrsti leikur Aftureldingar í efstu deild var opnunarleikur Bestu deildarinnar 2025 á Kópavogsvelli laugardaginn 5.apríl. 

Leikmannahópurinn

Innbyrðis felagaskipti milli félaganna. Nokkrir Blikar hafa flutt sig upp í Mosfellsbæ. Síðustu félagaskiptu þangað voru í nóvember 2024 þegar Oliver Sigurjónsson söðlaði um og skipti yfir í Afturerldingu. Nánar: Tíma Olivers hjá Breiðabliki lokið Árið 2021 spilaði Anton Logi Lúðvíksson með Aftureldingi á láni frá Blikum. Sjá hér yfirlit yfir félagaskipti frá Breiðabliki í Aftureldingu.

Og rétt fyrir lok félagaskiptagluggans í vor gekk Benjamin Stokke frá félagaskiptum til Aftureldingar og skrifaði undir samning út þetta keppnistímabil, leikmaðurinn spilaði 29 mótsleiki með Breiðabliki í fyrra og skoraðu 4 mörk. Sjá frétt á blikar.is um Benjamin: Takk Benjamin Stokke!

Til Breiðabliks hafa komið öflugir uppaldir leikmenn Aftureldingar. Fyrstan ber að nefna markvörðinn okkar Anton Ara Einarsson. Anton Ari er að hefja fimmta keppnistímabil í Breiðablikstreyjunni - hann á að baki 212 mótsleiki í Breiðablisktreyjunni. Snillingurinn Jason Daði Svanþórsson er uppalinn hjá Aftureldingu. Hann var fjögur tímabil hjá okkur í Breiðabliki en söðlaði svo um til Grimsby Town FC í júlí glugganum 2024. Okkar maður Arnór Gauti Jónsson kemur til Blika frá Fylki er er uppalinn hjá Aftureldingu. Og svo auðvitað Ísak Snær Þorvaldsson en hann er uppalinn í Mosó. Önnur nöfn eins og Arnór Gauti Ragnarsson, Róbert Orri Þorkelsson og Vignir Jóhanensson koma upp í hugann. Sjá hér yfirlit yfir félagaskipti frá Aftureldingu í Breiðablik. 

image

Mynd: Leikmannahópur Breiðabliks 2025

Teymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Arnór Sveinn Aðalsteinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Brynjar Dagur Sighvatsson og Dagur Elís Gíslason.

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins gegn Aftureldingu er Björgvin Smári Kristjánsson. Blikinn er fæddur í nóvember 1987 og uppalinn í Kópavogi, lengst af í Lækjarhjallanum í námunda við skítalækinn góða. Hann æfði fótbolta með Blikum frá 4. ára aldri og fram á unglingsárin, en hefur þó einnig reynt fyrir sér í handbolta, körfu og golfi.

Fyrstu minningarnar úr Breiðablik eru líklega frá æfingum í Snælandsskóla, en einnig á hann skemmtilegar minningar af krefjandi aðstæðum á frosnum Vallagerðisvelli þar sem boltinn skoppaði af handahófi upp úr frosnum fótsporum. Aðstæður til iðkunar hafa svo sannarlega tekið nokkur stökk fram á við síðustu árin.

Mynd: Liðsmynd 1995 með þjálfaranum Valdimar Fr. Valdimarssyni. SpáBliki leiksins gegn Aftureldingu er fyrir miðju í aftari röð. 

Á yngri árum var aðal sportið að fá að vera boltasækjari til þess að sjá hetjurnar í sem mestu návígi og voru það ófá skiptin sem Björgvin Smári var mættur á hliðarlínuna eða bakvið mörkin á Kópavogsvelli. Tenging meistaraflokka við þá yngri hefur alltaf skipt miklu máli fyrir okkur Blika og þær stundir þegar leikmenn hafa mætt á æfingar yngri iðkenda hafa ævinlega farið beint í minningarbankann. Það var því ekkert smáræði fyrir litla snáða að fá að taka víti á æfingu á sjálfan vítabanann Hajrudin Cardaklija, ekki löngu eftir að hafa séð hann verja eina slíka úr nokkurra metra fjarlægð.

Svo hafa árin liðið og eftir að Björgvin Smári flutti úr Kópavogi fyrir rúmlega 3 árum síðan lá beinast við að hefja störf hjá Breiðablik „til málamyndunar“ til að halda tengingunni áfram sterkri og þar starfar SpáBliki dagsins enn. Í seinni tíð hefur minningunum og titlunum hjá félaginu fjölgað enn frekar. Það var til að mynda alveg ógleymanleg stund síðasta haust þegar fjölmargir Blikar sameinuðst í Yndisgarðinum, réttu megin við bæjarmörkin og studdu okkar menn til sigurs. Vonandi verða stundir sem þessar fleiri á komandi misserum.

Björgvin Smári Kristjánsson – Hvernig fer leikurinn?

Eftir frábæran karakter í síðasta leik á móti Stjörnunni gengur ekkert annað en að halda áfram að safna 3 stigum í pokann góða. Það var frábært að fá Mosfellinga í heimsókn í fyrsta leik tímabilsins með tilheyrandi stemmingu og vonandi komum við í svipuðum gír í þennan útileik. Tobias Thomsen mætir úthvíldur eftir leikbann og sýnir flotta takta í leiknum. Ég spái leiknum 3-1 fyrir okkur Blikum þar sem Tobias setur 2 og Ágúst Orri 1. Benjamin Stokke skorar mark Mosfellinga.

Áfram Breiðablik!

SpáBlikinn Björgvin Smári Kristjánsson og frú á EM 2016

Dagskrá

Afturelding blæs til fjölskylduhátíðar í Hlégarði fyrir leik. Sprite Zero Klan stígur á svið og Emmessís gefur ís. Húsið opnar klukkan 18:00. Nánar um viðburðinn hér. 

Kópacabana sveitin ætlar að hita upp á Bankinn Bistro í Mosó og mæta svo á leikinn.

Þetta verður eitthvað - bæði innan vallar sem utan. 

Miðasala á leikinn er á: Stubb

Flautað verður til leiks á heimavelli Aftureldingar að Varmá á fimmtudag kl.19:15! 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

PÓÁ

Mörk og klippur frá fyrri leik liðanna Bestu deildinni 2025.

Til baka