BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2022: Stjarnan - Breiðablik

06.08.2022 image

Grafík: Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Sextándi leikur okkar manna í Bestu karla 2022 > Blikar eru á toppnum > Heimsækjum Stjörnumenn í Garðabæinn > Miðasala á Stubbur > Sagan: 65 mótsleikir > Gamli leikurinn: Stjarnan - Breiðablik 1994  > Blikahópurinn 2022  > Sveinbjörn Strandberg er SpáBliki leiksins  > Dagskráin fyrir leik > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!

Stjarnan - Breiðablik

Næsti leikur okkar manna í Bestu deild karla er á sunnudag þegar við heimsækjum Stjörnumenn á Samsungvöllinn í Garðabæ. Flautað verður til leiks kl.19:15! 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Staðan í Bestu deild karla eftir 15 umferðir - okkar menn á toppnum með 9 stiga forskot á Víkinga sem eiga leik inni:

image

Sagan & tölfræði

Keppnisleikir Breiðabliks og Stjörnunnar í öllum mótum frá fyrsta leik árið 1970 eru 65 leikir. Blikamenn með 29 sigra gegn 25 sigrum Stjörnumanna. Jafnteflin eru 11.

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild, fyrst árið 1991, eru 34 leikir. Staðan er Blikamönnum í vil með 18 sigra gegn 9 sigrum Stjörnunnar. Jafnteflin eru 8.  Markaskorun: Breiðablik 67 Stjarnan 45.

Síðusu 4 leikir í efstu gegn Stjörnunni í Garðabæ (leikurinn 2020 féll niður vegna Covid-19):

Gamli leikurinn

Gamli leikurinn að þessu sinni er útileikur okkar manna við Stjörnuna 24. september í lokaleik Íslandsmótsins 1994. 

Sagan 1994 (tekið af blikar.is):

Spennan var feykileg í Garðabænum . Þórsarar urðu að vinna Keflavík og treysta á að við Blikar myndum tapa gegn Stjörnumönnum sem voru þegar fallnir. Þór komst yfir á 9. mínútu og gullu þau tíðindi við í viðtækjunum. Spenna komin í gang, tap myndi senda okkur lóðbeint niður. Stjarnan byrjaði leikinn vel enda alþekkt að lið sem eru þegar fallin leiki vel í lokin. Vilhjálmur Kári Haraldsson fékk boltann fyrir utan teig og lét vaða á markið; boltinn sveif í fjærhornið og söng þar í netinu. Hans fyrsta – og eina – mark í efstu deild og kom það á góðum tíma. 

Okkar piltar létu kné fylgja kviði og þeir Kristófer Sigurgeirsson, Arnar Grétarsson og Willum Þór Þórsson fóru mikinn á vellinum. Í upphafi síðari hálfleiks léku þeir Arnar og Willum vörn Garðbæinga sundur og saman og sendi Arnar knöttinn í stöng og inn frá vítateig. Þá fór að léttast á mönnum brúnin. Nú var jafnt hjá Þór og Keflavík og allt leit þokkalega út. Stjarnan fékk hornspyrnu og boltinn var stangaður í netið. 2-1 staðan og smá stress gerði aftur vart við sig. Ekki mikið þó. Einn Stjörnumaður hljóp á sig skömmu síðar og var sendur í bað. Eftir það voru Garðbæingar ekki líklegir og eftir lipra takta sendi Willum boltann í netið frá vítateig og skoraði þar með í þriðja leiknum í röð. Var hann kallaður bjargvætturinn í nokkurn tíma eftir og ekki að ósekju.

Dómarinn blés í hljóðpípu sína skömmu síðar og sætið í efstu deild var tryggt og rúmlega það. Blikar enduðu í 7. sæti og var það verðskuldað; liðið beit í skjaldarrendur eftir erfiða byrjun og mikið mótlæti í meiðslum lykilmanna.

-GSG

image

Blikar fagna af krafti eftir að hafa haldið sæti sínu í efstu deild árið 1994. Willum Þór Þórsson, Gunnlaugur Einarsson, Valur Valsson, Einar Páll Tómasson, Rastislav Lazorik, Kristófer Sigurgeirsson, Jón Stefánsson, Arnar Grétarsson, Vilhjálmur Kári Haraldsson. Mynd: Íslensk Knattspyrna.

24.09 16:00
1994
Stjarnan
Breiðablik
1:3
1
3
1
A-deild | 18. umferð
Stjörnuvöllur | #

Byrjunalið Breiðabliks: Hajrudin Cardaklija - Rastislav Lazorik - Gunnlaugur Einarsson - Einar Páll Tómasson - Willum Þór Þórsson - Gústaf Ómarsson - Hákon Sverrisson - Arnar Grétarsson - Vilhjálmur Kári Haraldsson - Valur Valsson - Kristófer Sigurgeirsson. Inná komu: Tryggvi Valsson og Jón Þorgrímur Stefánsson. Ónotaðir varamenn: Guðmundur Hreiðarsson (m), Guðmundur Guðmundsson og Sigurjón Kristjánsson. Þjálfari: Ingi Björn Albertsson. Aðstoðarþjálfari: Ólafur Björnsson. Sjúkraþjálfari: Kristján Hjálmar Ragnarsson. Liðsstjórn: Konnráð Kristinsson og Björn Víðisson. Dómari: Bragi Bergmann. Aðstoðardómarar: Kristinn Jakobsson og Kári Gunnlaugsson. 

Markaskorarar Blika: Vilhjálmur Kári Haraldsson - Arnar Grétarsson - Willum Þór Þórsson. Mark Stjörnunnar: Ingólfur Ingólfsson. 

Klippur og mörkin úr leiknum ásamt viðtölum við Inga Björn Albertsson og Arnar Grétarsson sem Samúel Örn Erlingsson tók eftir leik: 

Blikahópurinn 2022

Í hópi heimamanna er fyrrverandi leikmaður - og núverandi aðstoðarþjálfari Stjörnuliðsins - Jökull Ingason Elísarbetarson sem hefur leikið í grænu Breiðablikstreyjunni. Jökull lék 116 mótsleiki með Blikum á árunum 2010-2013. Hann varð Íslandsmeistari með Blikaliðinu 2010.

Og Ágúst Gylfason, aðalþjálfari Stjörnunar, var þjálfari meistaraflokks karla hjá Breiðabliki árin 2018 og 2019. 

Í okkar leikmannahópi er það Sövi Snær Guðbjargarson sem hefur leikið með Stjörnuliðunu. Hann lék 55 leiki og skoraði 9 mörk með Garðabæjarliðinu árin 2018 - 2021. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Og Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 16. umferðar fæddist 1954 við Borgarholtsbraut 31 í vesturbæ Kópavogs. Þar skammt frá byggðu foreldrar hans hús, Melgerði 28 (nú 32) þar sem hann ólst upp ásamt tveimur systrum og þremur bræðrum. Þess má geta að foreldrar hans seldu húsið langafa og langömmu Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur fyrrv. leikmanns Breiðabliks,  landsliðsmanneskju og leikmanns Bayern Munchen.

Það var stutt að fara á æfingar og leiki á Vallagerðisvöllinn, sem var í raun uppeldisstöð ungra drengja og þangað sótti SpáBlikinn. Þjálfarar voru margir, þekkt nöfn eins og Jón Ingi Ragnarsson  og Guðmundur Þórðarson koma upp í hugann. Yfir sumartímann dvaldi hann í sveit, sem batt enda á frekari formlegar fótboltaæfingar.“

SpáBlikinn er kvæntur Kristínu Jónsdóttur, eigum við þrjá stráka sem allir stunduðu fótbolta með Breiðablik. Í gegnum þeirra iðkunn hitti maður marga eldri félaga úr vesturbænum sem voru þarna með sín börn, einn þeirra Sverrir Davíð Hauksson vélaði SpáBlikann í unglinganefnd knattspyrnudeildar haustið 1986, eftir hafa eytt kvöldstund í að útskýra markmið með starfsemi unglinganefndarinnar, kröfurnar sem gerðar voru til þjálfara, þjálfunaraðferða, foreldrastarfsins og starf umsjónarmanna.  Í unglinganefndinni sat SpáBlikinn árin 1986 - 1992, tók þá að sér starf gjaldkera í stjórn knattspyrnudeildar í eitt ár.   

image

SpáBlikinn kom að stofnun Stuðblikanna sem svo voru nefndir. Það voru unglinganefndarmenn knattspyrnudeildar sem stofnuðu þennan félagsskap (15. mars 1991).  Þetta var kynnt innan félagsins, þeir sem höfðu áhuga voru velkomnir, kominn var vettvangur til að hittast þegar andinn kæmi yfir þá og ræða félagsmálin á léttu nótunum.  Atli Þórsson heitinn, sem var öllum Blikum kunnur átti hugmundina að nafninu Stuðblikar. Í þessum félagsskap voru „félagsfundir, sérkennilegar ræður fluttar og fínni árshátíðir“ haldnar og viðurkenningar veittar.  Á meðfylgjandi mynd (tekin snemma kvölds) fengu fjórir velþekktir einstaklingar innan félagsins viðurkenningu fyrir „afar mikilvæg félagsleg störf“. Samkv. fundargerðarbók þessa félagsskapar urðu fundirnir 23, fjöldinn sem mætti á fundi var frá 28 til 44 manns. Nokkrum árum síðar var svo Blikaklúbburinn stofnaður. 

Í seinni tíð hefur SpáBlikinn reynt að stunda golfíþróttina með mörgum félögum sem hann kynntist í gegnum starf knattspyrnudeildar Breiðabliks. Með þessum félögum í golfleik er eiginlega ekki annað hægt en að brosa og brosa, líka í mótlætinu.  

Sveinbjörn Strandberg – hvernig fer leikurinn?

Þessi leikur á eftir að taka hræðilega á taugarnar. Ágúst Gylfason þjálfari Stjörnunnar er klárlega með  betri þjálfurum í Bestu deildinni. Hann þekkir okkar lið talsvert betur en margir aðrir þjálfarar eftir tveggja ára dvöl í Kópavoginum og annað sætið bæði árin. En, við erum líka með frábæran þjálfara Óskar Hrafn Þorvaldsson. Blikaliðið undir hans stjórn er mjög gott, leikur árangursríkan fótbolta eins og stigataflan segir okkur, en það getur verið „kalt á toppnum“ og hlutirnir fljótir að breytast. Ég spái hörkuleik, en sigurinn verður okkar, en tæpt verður það.  Það verður Gísli Eyjólfsson sem skorar markið í sínum 203. mótsleik fyrir félagið. Þrátt fyrir mjög gott gengi verð ég að játa það, að ég er eiginlega alveg hættur að þola þetta stress sem fylgir leikjum Breiðabliks. Þegar ég var gjaldkeri í denn notaði ég tímann til að „gera upp“ fjármálin meðan á leik stóð, nú vappa ég um. Þetta „ástand“ mitt  bara vesnar með árunum svei mér þá. En, ég sef alltaf mjög, mjög vel eftir vinningsleiki.    

image

SpáBlikinn með Elísu yngsta barnabarninu. Með þessum í golfi er ekki annað hægt en að brosa og brosa. SpáBlikinn með Sverri Davíð Haukssyni og Ólafi Björnssyni.

Dagskrá

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Flautað verður til leiks á Samsungvellinum í Garðabæ kl.19:15!

Leikurinn verður sýndir á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

Klippur úr fyrri leik liðanna á Kópavogsvelli 11. maí í sumar:

Gefðu kost á þér í blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að skrifa efni, setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is. 

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum.

Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is

Til baka