BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2022: KR - Breiðablik

25.04.2022 image

Grafík: Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Fyrsti útileikur okkar manna í Bestu 2022 > Heimsækjum KR-inga í Frostaskjólið> Miðasala á Stubbur > Sagan > Gamli leikurinn: KR-Breiðablik 2012> Blikahópurinn 2022 > Stuðningsmaðurinn Aron Páll Gylfason er SpáBliki 2. umferðar> Dagskráin  > Gefðu kost á þér í liðið!

KR - Breiðablik

Næsti leikur okkar manna í Bestu 2022 er gegn KR á þeirra heimavelli í vesturbæ Reykjavíkur.

Flautað verður til leiks í Frostaskjólinu (nú Meistaravellir) kl.18:00!

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Leikurinn verður sýndir á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. Útsending hefst klukkan 17:45. 

Staða liðanna er hníf jöfn eftir fyrstu umferð - stafróið ræður röðun 😊

image

Sagan

Innbyrðis leikir KR og Breiðabliks í efstu deild frá upphafi eru 70.

KR-ingar hafa vinninginn með 33 sigra gegn 15 sigrum Breiðabliks. Jafnteflin eru 22.

Síðustu 3 leikir í Skjólinu:

Gamli leikurinn

Gamli leikurinn er ekki mjög gamall en eftirminnanlegur er hann. Það eru ekki nema 10 ár síðan að Blikar mættu í Skjólið í 19. umferð - 16. september 2012.

Fjórar umferðir eftir og baráttan um Evrópusæti í algleymingi. Fyrir umferðina voru FH-ingar stungnir af með 41 stig. KR í öðri sæti með 31 stig, Stjarnan í því þriðja í með 29 stig. ÍBV og ÍA í fjórða og fimmta sæti með 28 stig og Blikar sjötta sæti með 26 stig, en þegar talið var upp úr pokanum eftir 22 umferðir höfðu Blikar haft sætaskipti KR, sem endaði fjórða sæti, og ÍBV endaði í þriðja sæti.

Það gekk á ýmsu í leiknum. Blikar stál heppnir að vera ekki undir fyrsta hálftímann. Á 22. mín er dæmd vítaspyrna á Rene Troost, sem Ingvar Þór Kale gerði sér lítið fyrir og varði. 

Kristinn Jónsson geggjað mark beint úr aukaspyrnu á 34. mín.

Nichlas Rohde skorar annað mark Blika á 72. mín.

Elfar Árni Aðalsteinsson skorar þriðja mark Blika á 81. mín.

Tómas Óli Garðarsson skorar fjórða mark Blika á 90. mín.

Blikar vinna leikinn 0:4 sem var þá stærsta tap KR á heimavelli í efstu deild frá upphafi. 

Klippur úr leiknum:

Blikahópurinn 2022

Leikmannahópur Breiðabliks keppnistímabilið 2022 (sjá mynd).

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfarari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Í sjúkarþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Og Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.

Nokkrir uppaldir Blikar spila með Vesturbæjarliðinu. Kristinn Jónsson gekk til liðs við KR eftir keppnistímabilið 2017. Arnór Sveinn Aðalsteinsson söðlaði um árið 2016. Og fyrrverandi leikmaður Blika, Akureyringurinn Atli Sigurjónsson, leikur nú aftur með KR en hann lék 49 mótsleiki með Breiðabliki á árunum 2015 til 2017.

Óskar Hrafn Þorvaldsson aðalþjálfarari meistaraflokks karla og Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari eru með tengingu við KR. Báðir sem sem leikmenn og þjálfarar.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins hefur verið Bliki frá upphafi. Gylfi, faðir minn, var duglegur að taka mig með á leiki í gamla daga og við feðgarnir sátum sáttir í “gömlu stúkunni” og sungum og trölluðum langt fram á kvöld. Gamla var samt hætt að lítast á blikuna þegar ég var farinn að öskra á dómarann öllum illum nöfnum þegar illa gekk en þetta eldist sem betur fer úr mér (að mestu) og við héldum áfram að mæta á allflesta leiki hjá þeim grænu. Í dag reyni ég að mæta á alla leiki sem ég get en ég á þó ekki roð í pabba sem lætur fátt stoppa sig ef það er leikdagur. Ég er fæddur og uppalinn í Kópavogi og æfði fótbolta með Breiðabliki á mínum yngri árum, 94 árgangur. Ég áttaði mig fljótt á því að hæfileikar mínir væru líklegast betur nýttir uppí stúku og því varð aldrei neitt úr mínum fótboltaferli. Ef ég hefði haldið áfram í fótbolta þá hefði ég líklegast endað sem einhverskonar blanda af Olgeiri Sigurgeirssyni og Nenad Zivanovic, snarheiðarlegur “no nonsense” leikmaður.

Aron Páll Gylfason: Hvernig fer leikurinn?

Leikur Breiðabliks í Frostaskjólinu (nú Meistaravellir) er óumdeilanlega einn stærsti leikur ársins, ár hvert. Frá því að ég man eftir mér hefur alltaf verið mesta spennan fyrir útileiknum gegn KR. Ég man eftir mér bandbrjáluðum, 10 ára, að öskra á Björgólf Takefusa og félaga.

Þessir leikir hafa alltaf verið spennandi og leikmenn gefa allt í verkefnið hverju sinni og ég trúi því að það sama verði í ár. Ég tengi Frostaskjólið mest við manninn sem var þekktur sem KR baninn, Kristinn Jónsson. Hvernig hann gjörsamlega yfirspilaði þá svarthvítu leik eftir leik, tímabil eftir tímabil, hefur ekki sést síðan hann yfirgaf þá grænu. Í dag er hann orðinn einn af þeim svarthvítu og ef eitthvað þá er hann frekar þekktur sem Blikabaninn í dag.

Ég hef samt fulla trú á því að strákarnir valti yfir Blikabanann og félaga hans í KR og spái því að Breiðablik taki þetta 2-1 í æsispennandi, blóðugum, baráttuleik í Frostaskjólinu.

Kiddi Steindórs opnar markareikninginn með marki á 23. mínútu, Atli Sigurjóns jafnar svo leikinn í byrjun fyrri hálfleiks. Úrslitin ráðast svo undir blálokin þegar Jason Daði, einnig þekktur sem Mosfellingurinn geðþekki, sólar 3 varnarmenn KR og smellir boltanum framhjá Beiti í marki KR.

Viva Blikar, áfram Óskars Green&White army!

image

SpáBliki 2. umferðar - Aron Páll Gylfason

Dagskrá

Flautað verður til leiks á KR vellinum í Frostaskjólinu kl.18:00!

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Leikurinn verður sýndir á Stöð 2 Sport  fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. Útsending hefst kl. 17:45. 

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Klippur úr leik KR og Breiaðbliks í Pepsi MAX 2021:

Gefðu kost á þér í liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að skrifa efni og setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum Blikar.is. 

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum.

Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is

image

Grafík: Aron Páll Gylfason

Til baka