BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2022: ÍA - Breiðablik

03.05.2022 image

Grafík: Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Fjórði leikur okkar manna í Bestu karla 2022 > Skellum okkur í smá ferðalag upp á Skaga > Miðasala á Stubbur > Sagan: 122 leikir >  Gamli leikurinn: ÍA - Breiðablik 1971 > Blikahópurinn 2022  > Helgi Hjálmars er SpáBliki leiksins  > Dagskráin > Blikasigur 2021 í 5 marka leik > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!

ÍA - Breiðablik

Næsti leikur okkar manna í Bestu 2022 er gegn ÍA.

Flautað verður til leiks á Norðurálsvellinum kl.14:00 á laugardaginn.

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Leikurinn verður sýndir á Stöð 2 BD fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Staðan eftir 3 umferiðir - stafróið ræður ekki lengur röðun efstu liða :-)

image

Sagan

Innbyrðis leikir Breiðabliks og ÍA í öllum mótum frá fyrsta leik 1965 eru 122 leikir. Skagamenn leiða með 64 sigra gegn 36 sigri Blikamanna. Jafnteflin eru 22.

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild, fyrst 1971, eru 59. Staðan er Skagamönnum í vil með 33 sigra gegn 18 Blikasigrum. Jafnteflin eru 8.  Á síðustu öld unnu Skagamenn nánast alla mótsleiki liðanna.

En frá síðustu aldamótum hefur vinningshlutfalið fallið með Blikum. Frá 2006 er hlutfalið Blikum í vil í efstu deild: 11 sigrar, 6 töp og 5 jafntefli í 21 viðureign. Skagamenn léku 1. deild 2009 og 2011, og aftur árin 2014 og 2018. Því eru innbyrðis leikir liðanna í efstu deild 21 á þessu 16 ára tímabili 2006-2021. Einnig féll annar leikur liðanna 2020 niður útaf svolitlu. 

Síðustu 3 leikir í efstu á Akarnesi.

Gamli leikurinn

Leikurinn á laugardaginn verður 30. viðureign liðanna í efstu deild á heimavelli Skagamanna. Með réttu ætti viðureignin að vera 31.leikurinn en árið 2020 féll heimaleikur ÍA niður vegna Covid-19.

Gamli leikurinn er sem sagt fyrsta viðureign liðanna í efstu deild á Akranesi.

Árið er 1971. Ungt og upprennandi Breiðablikslið - á sínu fyrsta ári í efstu deild í 13 ára sögu knattspyrnudeildar félagsins - mætti til leiks upp á Skaga 29. ágúst 1971 til að etja kappi við stórlið Skagamanna.

Blikamenn þurftu á stigi að halda til að halda sæti sínu í deildinni, en heimaleikur okkar manna gegn þeim á Melavellinum sunnudaginn 4. júlí 1971 fór ekki vel því Skagamenn unnu þar öruggan 0:5 sigur. 

Úr fréttabrefi knattspyrnudeildar fyrir heimaleikinn á Melavellinum:

image

Um gamla leikinn

Breiðablik tryggði sér öruggt áframhald í 1. deild, þegar liðið náði 3:3 jafntefli á Akranesi í miklum baráttuleik þar sem Skagamenn skoruðu jöfnunarmarkið rétt fyrir leikslok. Þrátt fyrir nær vonlausa stöðu í deildinni í júlí sýndi Breiðablikliðið mikinn baráttuvilja í fjórum síðustu leikjum og náði 6 stigum af 8 mögulegum.

Blikar byrjuðu leikinn á Skaganum mjög vel. Strax á 3. mín skoraði Guðmundur Þórðarson mark. Skagamenn komu mjög sterkir til baka og á 23. mín náði Björn Lárusson að jafna leikinn í 1:1. Á 25. mín ná Blikar aftur forustu með marki Hinriks Þórhallssonar. Á 37. mín bjarga Skagamenn á línu og strax í kjölfarið nær Matthías Hallgrímsson að jafna leikinn fyrir ÍA. Staðan 2:2 í hálfleik. Blikar komast aftur yfir snemma í seinni hálfleik. Aukaspyrna að 40 m færi sem Steinþór Steinþórsson tók og sendi boltann yfir ÍA vörnina og fann þar fyrir Einar Þórhalsson sem skoraði 3ja mark Blika. Eftir þetta tóku Skagamenn leikinn yfir og hver sóknin af annarri dundi á vörn Breiðabliks með Ólaf Hákonarson í markinu. Á 85. mín skoraði Matthías Hallgrímsson jöfnunrmarkið. Leiknum lauk með 3:3 jafntefli.

Samkvæmt blaðamanni Þjóðviljans voru þeir Þór Hreiðarsson, Ólafur Hákonarson og Guðmundur H. Jónsson bestir í liði Blika.

Byrjunarliðið: Ólafur Hákonarson, Magnús Steinþórsson, Steinþór Steinþórsson, Bjarni Bjarnason, Guðmundur Jónsson, Heiðar Breiðfjörð, Ólafur Friðriksson, Þór Hreiðarsson, Guðmundur Þórðarson, Einar Þórhallsson, Hinrik Þórhallsson. Helgi Helgason kom inná undir lok síðari hálfleiks fyrir Heiðar Breiðfjörð. 

Lokaniðurstaða Íslandsmótsins 1971: ÍBV vann mótið með 20 stig. ÍA lenti í 4. sæti með 14 stig. KR og Breiðablik enduðu í 6. og 7. sæti með 10 stig. ÍBA féll í 2. deild með 9. stig.

Hópurinn sem fór upp á Skaga 1971 og tryggði öruggt áframhald í 1.deild: 

image

Aftari röð f.v. Ómar Guðmundsson, Hinrik Þórhallsson, Gunnar Þórarinsson, Guðmundur Þórðarson, Helgi (Basli) Helgason , Þór Hreiðarsson, Karl Steingrímsson, Heiðar Breiðfjörð, Einar Þórhallsson, Sölvi Óskarsson þjálfari.

Fremri röð f.v. Trausti Haraldsson, Ólafur Friðriksson, Guðmundur H. Jónsson, Ólafur Hákonarson, Magnús Steinþórsson, Bjarni Bjarnason, Steinþór Steinþórsson.

Blikahópurinn 2022

Leikmannahópur Breiðabliks keppnistímabilið 2022 (sjá/smella á mynd).

Benedikt Warén leikur með heimaliðinu sem lánsmaður frá Breiðabliki. 

Okkar maður Ísak Snær Þorvaldsson lék með Skagamönnum frá miðju ári 2020 og allt árið 2021. Samtals 32 leikir/4 mörk. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Og Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 4. umferðar er Kópavogsbúi og Bliki í húð og hár. Hann byrjaði snemma að sparka tuðru en toppaði frekar seint og Íslandsmeistaratitlarnir fóru ekki að streyma inn fyrr en í Old-Boys. Hann stofnaði fyrirtæki í bílskúr við Hrauntunguna sem síðar óx og óx, starfaði víða um Kópavog og heiti þess - Valka - skreytti um hríð upphitunarbúninga Breiðabliks. Fyrirtækið hefur nú sameinast Marel en SpáBlikinn einbeitir sér í staðinn að því að spá fyrir um gengi keppnisliða félagsins síns.

Helgi Hjálmarsson - Hvernig fer leikurinn?

Ég spái því að Breiðablik vinni ÍA sannfærandi 2-0 á laugardaginn. Lykillinn að því er ég reikna með að allt liðið geri sér grein fyrir því að eina leiðin til að vinna grimma Skagamenn uppi á Skaga er að vera á undan í alla bolta og að vera grimmari í tæklingunum. Þá munu færin koma og sigur vinnast.

image

Helgi Hjálmarsson er SpáBliki 4. umferðar.

Dagskrá

Næsti leikur okkar manna í Bestu 2022 er gegn ÍA upp á Skaga.

Flautað verður til leiks á Norðurálsvellinum kl.14:00 á laugardaginn.

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Leikurinn verður sýndir á Stöð 2 BD fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Áfram, Blikar, alltaf, alls staðar!

Svona var þetta í fyrra. Blikar vinna ÍA í 5 marka leik: 

Gefðu kost á þér í blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að skrifa efni og setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum Blikar.is. 

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum.

Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is

image

Til baka