BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hrært í basl með dass af dútli

21.07.2015

Blikar mættu Fylkismönnum í 12.umferð PEPSI deildarinnar í kvöld. Með sigri gátu Blikar komist upp fyrir FH og tyllt sér í annað sæti deildarinnar, stigi á eftir KR.  Fylkismenn þurftu hinsvegar nauðsynlega að ná í stig til að mjaka sér lengra frá neðri hluta töflunnar.
Veðrið var heldur leiðinlegt í kvöld. Norðan strekkngsvindur eftir endilöngum vellinum og hiti rétt slefaði yfir 10°C . Bjart og þurrt. Völlurinn í ágætu standi að séð varð.
Í liði Blika var Guðjón Pétur, kominn úr leikbanni og ennfremur var Ellert kominn á ról og laus við flensuskítinn. Þeir komu báðir inn í byrjunarlið i stað Atla og Davíðs.

Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)
Arnór Aðalsteinsson (F) - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Kristinn Jónsson - Höskuldur Gunnlaugsson - Andri R. Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Arnþór Ari Atlason - Guðjón Pétur Lýðsson - Ellert Hreinsson

Varamenn:
Aron Snær Friðriksson(M)
Atli Sigurjónsson
Olgeir Sigurgeirsson
Guðmundur Friðriksson
Davíð Kristján Ólafsson
Kári Ársælsson
Gísli Eyjólfsson

Sjúkralisti: Enginn

Leikbann: Enginn

Leikskýrsla: Breiðablik - Fylkir 20.07. 2015

BlikarTV: útvarpslýsing

Stundum er erfitt að vera Bliki. Það er oft gaman, en ekki alltaf. Leikurinn í kvöld var eiginlega frá fyrstu mínútu þannig að maður hafði á tilfinningunni að menn ætluðu að taka þetta ,,með vinstri“ og það væri verið að velta sér upp úr meintri velgengni í fyrri hluta mótsins. 3ja sætið. Er það ekki bara helv. gott? Og eftir því sem á leikinn leið þá styrktist maður í þeirri trú að þetta væru raunverulega hugarástand liðsins. Þegar þannig er í pottinn búið þá er tvennt sem kemur til greina. Annaðhvort er undirritaður með ranghugmyndir, eða liðið á einhverri óskiljanlegri og ótímabærri ,,uppskeruhátíð“. Það er nú varla að maður trúi því samt...  

Blikar voru, eins og svo oft áður, meira með boltann og léku á milli sín fram og til baka og kantanna á milli en það var allt í ,,slow motion“ og skötulíki, lengst af. Af og til reyndu menn einleik en það lagaði sjaldnast málið. Tvær úrvalsgóðar hornspyrnur okkar manna sigldu í gegnum allan pakkann og í útspark. Enginn gerði atlögu að boltanum. Og við fengum 12 hornspyrnur í leiknum. Liðið var einfaldlega ekki á tánum og Fylkismenn börðust um alla bolta í loftinu og unnu þá flesta. Hirtu líka seinni boltana. Ruku svo upp völlinn með fjölmenni og sköpuðu usla og fengu öll bestu færin í leiknum. Við hefðum hæglega getað fengið á okkur 3-4 mörk í þessum leik. Gulli varði stórkostlega í fyrri hálfleik þegar Fylkismaður skallaði af stuttu færi og Elvar og Damir björguðu á síðustu stundu þegar gestirnir voru um það bil að koma sér í dauðafæri. Og þá eru ótalin eitt eða tvö færi sem gestirnir sáu um að klúðra sjálfir. Nei það var ekki einleikið hvað þetta dapurt hjá okkar mönnum í kvöld. Sóknarleikurinn varla til og færi ekki til að tala um. Það var einna helst að Olgeir gerði sig líklegan undir lok leiks, nýkominn inná. Hann virtist í það minnsta hafa einhverja hugmynd um hvar mark andstæðinganna væri. En flestir leikmenn voru ekki nema skugginn af sjálfum sér og virtust ekki hafa neina hugmynd um hvernig ætti að komast í gegnum Fylkisvörnina. Sem var þó hurðarlaus á báðum vængjum. En það máttu gestirnir eiga að þeir vissu alveg upp á hár hvar Blikamarkið var, enda settu þeir alltaf stefnuna beinustu leið og fundu það fyrir rest og þar skildi á milli með liðunum. Og við höfðum því miður ekki næga burði til að svara fyrir okkur.
Það er þyngra en tárum taki að þurfa að horfa á þennan leik í baksýnisspeglinum og rifja upp hvernig við létum tækifærið ganga okkur úr greipum. 4 sætið er niðurstaðan eftir leikinn og sex stig í toppsætið. Það er blóðugt.
En nú verða menn að gjöra svo vel og girða sig í brók, leikmenn og allir sem að liðinu standa. Leikmenn þurfa að líta í eigin barm og spyrja sig hvernig þeir geti bætt sig. Þeir eru væntanlega hættir að dást að því hvað þeir séu frábærir því þetta var alger liðsskita. Og þá erum við komin að leikmannamálunum. Þ.e.a.s styrkingu. Hvernig standa þau mál. Á að sækja sóknarmann eða ekki? Vonandi er eitthvað í gangi. Það er algjörlega nauðsynlegt að freista þess að ná í reyndan markaskorara strax. Það hljóta að vera til góðir framherjar erlendis sem vilja koma og sýna sig í PEPSI deildinni í glugganum. Ísland er í 24. sæti á FIFA listanum, for helvede. Það er ekki eins og við séum í kjallara heimsfótboltans.
Komaso. Við höfum ekki efni á bíða lengur ef við ætlum okkur eitthvað í þessari deild.

Næsti leikur okkar manna er gegn KR í Frostaskjóli n.k. mánudag. Hann hefst kl. 20:00. Það er enn einn úrslitaleikurinn og ekkert væl. Nú þarf að reisa sig á lappir.

Við mætum og styðjum okkar menn.

Áfram Breiðablik.

OWK

Til baka