BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Baráttusigur í fyrsta leik

09.04.2024 image

Jæja, þá er veislan hafin og Besta deildin komin í  gang. Okkar menn klárir í slaginn eftir stysta undirbúningstímabil í manna minnum. Kunnuglegur og árviss fiðringur lét á sér kræla og greinilegt að undirritaður var ekki einn í þeim báti því hvorki fleiri né færri en 1.823 mættu á þennan fyrsta (heima) leik Breiðabliks. Grillið á sínum stað og stemmningin góð fyrir leik.
Byrjunarlið Blika var svona:

image

Liðin fóru varlega inn í þennan leik og fátt markvert gerðist fyrstu mínúturnar. Gestirnir gerðu fyrstu atlöguna þegar þeir fengu frían skalla inn í vítateig en boltinn vel fram hjá markinu. Skömmu síðar var Kristinn Steindórs í álitlegri stöðu en boltinn í varnarmann og þaðan í horn. Upp úr hornin barst boltinn út fyrir teig og til Viktors Karls sem sneri laglega á varnarmenn gestanna og sendi fyrir markið, boltinn fór í gegnum allan pakkann, en litlu munaði að Viktor Örn kæmi kollinum í hann. Við fjærstöngina lúrði hinsvegar Jason og hann var fljótur að afgreiða boltinn í nærhornið og netið með eilítilli viðkomu í varnarmanni gestanna. 1 – 0 fyrir Blika. Nú tóku okkar menn vel við sér og stýrðu leiknum meira og minna það sem eftir lifið en sköpuðu ekki mörg færi. Í þrígang mátti þó litlu muna, fyrst Kristófer en skotið ekki vel heppnað, svo Kristinn Steindórs og enn var skotið ekki nógu gott og svo aftur Kristinn og í þetta sinn small boltinn í stönginni og fór svo þvert fyrir markið. Þar munaði sannarlega mjóu. Gestirnir komust einu sinni í álitlega stöðu en Anton Ari kom höndum á boltann og bjargaði Blikum eftir smá bras. Fleira bar ekki til tíðinda, annað en dómarinn var þegar þarna var komið sögu búinn að spjalda fjóra leikmenn, tvo úr hvoru liði, fyrir næsta litlar sakir fannst manni.  Breyttar áherslur er víst málið og það hefur maður svo sem heyrt áður og svo hætta menn þessu  sennilega þegar 3 - 4 umferðir eru búnar.
Margt var spjallað í leikhléinu og aðeins um nýja miðasölufyrirkomulagið og góða mætingu. En ekki mikið um hvatningu hjá okkar fólki og greinilegt að það þarf nýja nálgun í því að koma stúkunni í gírinn. En kaffi og meðlæti rann ljúflega í mannskapinn að venju.
Blikar mættu með óbreytt lið í seinni hálfleik en gestirnir hrærðu vel upp í sínu liði með tvöfaldri skiptingu og breyttu leikskipulagi. Og nú skipti algerlega um og gestirnir tóku nánast öll völd á vellinum og héldu þeim næstu 25 mínúturnar. Okkar mönnum hélst engan veginn á boltanum en gestirnir voru mjög aðgangsharðir og áttu hverja sóknina á fætur annarri en Blikar í samfelldri nauðvörn. Ítrekað skall hurð nærri hælum, en Blikar vörðust vel inn í teig og Anton Ari stóð vaktina með prýði og hirti það sem þó lak í gegn. Blikar gerðu nú tvöfalda skiptingu. Kristinn Steindórs haltraði af velli og Alexander Helgi fór sömuleiðis af velli, báðir með fínan leik. Inn komu Andri Yeoman í sínum 443ja leik fyrir Blika og  Arnór Gauti í sínum fyrsta leik fyrir Blika í efstu deild. Og nú varð skammt stórra högga á milli. Gestirnir heimtuðu víti á 70. mínútu þegar Damir lenti í klafsi við sóknarmann gestanna (hóst,hóst), en dómarinn sennilega þjakaður af deildarmyrkva á auga sá ekkert og dæmdi því ekkert, en spjaldaði tvo FH-inga fyrir mótmæli. Þar voru Blikar heppnir… og hentu í enn eina skiptingu og inn kom Benjamin Stokke, í sínum fyrsta leik fyrir Blika í efstu deild, í stað Kristófers sem var búinn að vera gríðarlega duglegur. Og norðmaðurinn var ekki lengi að láta að sér kveða því á 77. mínútu náðu Blikar góðri sókn og Aron kom boltanum á Viktor Karl sem var í ágætu færi og skaut á markið en boltinn hafði viðkomu í varnarmanni gestanna og hrökk fyrir fætur Benjamins sem lagði boltann fyrir sig með hægrifæti og setti svo boltann í netið með þeim vinstri. Staðan orðin 2 – 0 og þungu fargi létt af Blikum í stúkunni. Eyþór Wöhler kom inn fyrir Jason þegar 10 mínútur voru eftir. Það sem eftir lifði leiks virtist allur vindur úr gestunum og Blikar sigldu sigrinum nokkuð þægilega í höfn. 3 stig í húsi eftir mjög kaflaskiptan leik. Baráttan í fínu lagi hjá okkar mönnum en liðið oft spilað betur úti á vellinum. Töpuðum of mörgum skallaeinvígjum í fyrri hálfleik en að öðru leyti var sá fyrri nokkuð góður. Í þeim síðari vorum við hins vegar iðulega of langt frá mönnum, pressan gekk þess vegna illa, við héldum boltanum illa þegar við unnum hann og hleyptum gestunum allt of oft í álitlegar stöður. Laga það.

Eins og áður sagði var flott mæting í kvöld en áhorfendur/stuðningsfólk þarf að láta betur í sér heyra en í kvöld. Aukin stemmning átti reyndar að fylgja bjórsölunni á vellinum en það hefur svo sannarlega ekki gengið eftir og er heldur hvimleitt að sjá fólk rápa með bjórinn um stúkuna innan um börn og unglinga. Allavega hefur stemmningin ekki aukist og hennar vegna mætti hætta bjórsölunni strax, og þó fyrr hefði verið.

Næsti heimaleikur er á laugardaginn kl14:00 og þá koma Vestra menn í heimsókn. Það verður hörkuleikur enda Vestramenn til alls líklegir. 

Áfram Breiðablik!

OWK

Til baka