BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Baráttusigur gegn Val

07.10.2014

Blikar mættu Valsmönnum í lokaumferð PEPSI deildarinnar á laugardag. Undiritaður mætti á staðinn og sá leikinn og fór svo á dansiball um kvöldið eftir að hafa horft á Stjörnuna landa Íslandsmeistaratitlinum. Er þeim hér með óskað til hamingju með hann og dyggir lesendur Blikar.is beðnir velvirðingar á töfinni sem þetta olli. En aftur að leik okkar manna sem var að sjálfsögðu lang mikilvægasti leikur dagsins. Ja, fyrir utan kannski dansleikinn. Valsmenn voru enn að láta sig dreyma um Evrópu, en við vorum rækilegar rifnir upp og út úr þeim draumi fyrir norðan, sællar minningar. Eigi að síður var mikið undir hjá okkar mönnum, nefnilega stoltið(gamla klisjan). Aðstæður voru hreint ekki sem bestar. ASA 3-8 metrar á sekúndu með nokkrum hviðum og úrkoma á skalanum, frá þurru til úrhellis og slagviðris. Völlurinn allblautur, en engir pollar. Áhorfendur ekki ýkja margir eða tæplega 500. Flestir þokkalega hressir.

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (FM)
Baldvin Sturluson - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Arnór Aðalsteinsson
Höskuldur Gunnlaugsson - Andri Yeoman - Guðjón Pétur Lýðsson - Davíð Kristján Ólafssson
Ellert Hreinsson og Elfar Árni Aðalsteinsson en þetta var 100. opinberi leikur hans með Breiðabliki.

Varamenn:
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Oliver Sigurjónsson
Elvar Páll Sigurðsson
Gunnlaugur Hlynur Birgisson
Ernir Bjarnason
Finnur Orri Margeirsson
Arnór Gauti Ragnarsson (1. sinn á bekknum)

Sjúkralisti: Finnur Orri
Leikbann: Árni Vilhjálmsson
?????: Stefán Gíslason - Olgeir Sigurgeirsson

Blikaliðið var nokkuð breytt frá síðasta leik. Árni í leikbanni og Finnur Orri tæpur í baki og því ákveðið að hvíla hann, en leyfa honum samt að vera á bekknum í betri sætum. Ellert hinsvegar orðinn léttari (það var stúlka) og kom á ný í byrjunarliðið ásamt Davíð. Leikurinn fór rólega af stað en það voru gestirnir sem voru mun ákveðnari framan af. Lítið var um opin færi en Valsmenn voru nærri því að skora þegar þeir komust í sannkallað dauðafæri eftir laglegt samspil en Gulli varði mjög vel. Eftir það bar fátt til tíðinda utan að menn lágu eftir návígi á bæði borð og gul spjöld litu dagsins ljós. Þau hefðu hæglega getað orðið fleiri en dómarinn var í góðu skapi og leyfði mönnum ýmislegt. Þetta nýttu sumir sér úr hófi og stemningin innan vallar súrnaði eftir því sem leið á hálfleikinn. Talsvert um tuð og óþarfa brot. Það sagði hinsvegar fátt af góðum fótbolta og marktækifærum og það var ekki fyrr en undir lok hálfleiksins að næstum því dró til tíðinda þegar Valsmenn skölluðu í stöngina hjá Gunnleifi. Þar sluppu Blikar vel.  Staðan í hálfleik því 0-0.

Í hálfleik voru leikmenn og þjálfarar 5., 4. og 3ja flokks karla árið 1974 heiðraðir af deildinni. Þessir kappar unnu það einstæða afrek að verða Íslandsmeistarar í öllum flokkum þann 12. ágúst 1974 eins og lesa má hér. Þetta þótti einstakt afrek og vakti mikla athygli á sínum tíma. Fjölmargir þessara pilta léku síðar með meistaraflokki Blika, og margir léku jafnframt með yngri landsliðum og A-landsliði Íslands.  Húrra fyrir þeim!
Það var ekki mikill tími til skrafs í hálfleiknum, sem var óvenju stuttur. Allir að flýta sér.

Síðari hálfleikur hófst rólega en smátt og smátt færðist smá fjör í leikinn. Liðin sóttu á víxl en sköpuðu ekki mikið af færum en áfram hélt spjaldasöfnum og alls voru þau gulu orðin 6 áður en leikurinn byrjaði fyrir alvöru. Blikar gerðu breytingu á lliðinu og Oliver kom inn fyrir Davíð. En það var svo á 64. mínútu sem fjör færðist í leikinn. Þá fengu Valsmenn hornspyrnu sem Gulli sló út fyrir vítateig. Þar virtist Valsmaður ætla að verða fyrstur í boltann en Andri Rafn ræsti túrbínuna og þaut eins og eldibrandur framúr Valsmanninum og náði boltanum. Óð svo fram völlinn með Valsmannin hangandi í nærbuxunum og nálgaðist vítateiginn eins og óð fluga og var að komast í vænlega stöðu þegar einn Valsmann sá þann kost grænstan að stoppa hann. Það gerðist ekki alveg tilþrifalaust því okkar maður endastakkst með tilþrifum á andlitið í rennblautan svörðinn. Sá brotlegi hlaut umsvifalaust gult spjald að launum og mátti gera svo vel að marsera snimmendis í bað því þetta var spjald númer 2. Graham Poll hefði kannski sleppt honum með 2 spjöld en ekki Vilhjálmur Alvar. Og nú fóru hlutirnir að gerast. Guðjón Pétur tók aukaspyrnuna og hún rataði beint í lúkurnar á Valsmanni, sem var innan teigs, um leið og hann sneri sér undan skotinu og hindraði þar með leið boltans að markinu. Guðjón skoraði af öryggi úr vítinu. Mörk breyta leikjum og það var ekki breyting á því hér. Valsmennirnir urðu áberandi pirraðir við að lenda undir og misstu hausinn. Boðskapur Séra Friðriks hafður að engu. Kannski vissu þeir stöðu í öðrum leikjum og þar með að sigur gæti þýtt 4. og síðasta Evrópusætið. Hve veit? En það breytir ekki því að það var eins og okkar menn losnuðu úr álögum og smá saman tóku þeir að herja af miklum krafti á gestina. Elfar Árni  skallaði í slá eftir aukaspyrnu og Ellert skaut í slá eftir flotta sókn. Höskuldur var tvívegis nærri því að skora og sóknirnar dundu á Valsmönnum án þess að Blikar næðu að bæta við marki. Allt stefndi í 1-0 sigur okkar manna og Ernir Bjarnason og Gunnlaugur Hlynur Birgisson komu inn í sínum fyrstu leikjum í PEPSI deildinni fyrir Andra og Baldvin sem báðir höfðu átt fínan leik. Og það var fyrrnefndur Ernir sem var fljótastur að átta sig þegar misskilningur varð í vörn gestanna eftir útspark frá Gunnleifi. Hann náði boltanum og stefndi rakleitt að marki. Varnarmaður Vals kom fæti fyrir skot Ernis en hann náði boltanum aftur, stóð af sér návígi og lagði út á Ellert sem, dró að sér varnarmenn og renndi boltanum til hægri, á Guðjón sem vippaði laglega yfir markvörðinn. Sannkallað glæsimark og vel að því staðið. Staðan orðin 2 -0 og leiknum í raun lokið, en þó ekki því Blikar bættu við 3ja markinu þegar Ellert skoraði eftir aukaspyrnu Guðjóns, nema hvað? Ellert sneiddi boltann utanfótar með hægri fæti og hann lá í netinu. Snyrtilega gert og honum til hróss þá sleppti hann hinu vemmilega og klisjulega Bebeto fagni nýbakaðra feðra sem hefur tröllriðið heimsbyggðinni frá 1990. Já það er orðið svona gamalt. Staðan 3-0 og þetta urðu úrslit leiksins því dómari leiksins flautaði til leiksloka um leið og Valsmenn tóku miðjuna. Sigur á Valsmönnum staðreynd en frá því Blikar endurheimtu sæti sitt í efstu deild árið 2005 hafa þeir leikið 18 leiki gegn Val. Blikar hafa unnið í helmingi leikjanna eða 9 sinnum, 5 sinnum hefur orðið jafntefli og 4 töp eru staðreynd.
Okkar menn spiluðu fyrir stoltið (klisja) og gerðu það á köflum vel. Sérstaklega voru þeir líflegir síðast hálftímann orðnir einum fleiri en það hefur ekki alltaf fært þeim neina sérstaka gæfu í sumar. En nú náðu þeir að nýta sér það. Þetta sumar var erfitt fyrir alla Blika. Gildir þá einu hvort það voru leikmenn, þjálfarar, stjórnarmenn eða almennir stuðningsmenn. Strögl og meira strögl frá upphafi móts. Þjálfaraskipti í júní eins og frægt varð og það var ýmislegt okkur mótdrægt. Liðið átti mest basli með að vinna leiki og aðeins tvisvar héldum við hreinu. En það var heldur ekki auðunnið. Það töpuðust ,,aðeins“ 5 leikir. Sigrarnir voru jafnmargir og þar af leiðandi allt of fáir. En það er seigla í liðinu og það er góðs viti.

En skyldum við læra eitthvað af þessu, og þá hvað?
Það er miljón dollara spurningin.

Sumarið gerum við svo upp í sérstölum pistli síðar. Það er verið að efna í hann og hann verður mátulega langur. Málefnalegur eftir atvikum og smekk. Þar verða kannski nokkrar spurningar.

Áfram Breiðablik !

OWK

 

Meistaraflokkur Breiðabliks 2014. Mynd: Helgi Viðar Hilmarsson.

Fremsta röð f.v.: Guðmundur Benediktsson aðalþjálfari, Elfar Árni Aðalsteinsson, Andri Rafn Yeoman, Olgeir Sigurgeirsson, Gunnleifur Gunnleifsson, Finnur Orri Margeirsson fyrirliði, Arnór Bjarki Hafsteinsson, Guðjón Pétur Lýðsson, Árni Vilhjálmsson, Ernir Bjarnason, Borghildur Sigurðardóttir formaður kanttspyrnudeildar.

Miðröð f.v.: Bjarni Bergsson formaður mfl.ráðs, Willum Þór Þórsson aðstoðarþjálfari, Oliver Sigurjónsson, Baldvin Sturluson, Aron Snær Friðriksson, Elvar Páll Sigursson, Hlynur Örn Hlöðversson, Gunnlaugur Hlynur Birgisson, Höskuldur Gunnlaugsson, Ólafur Pétursson markmannsþjálfari, Eysteinn Pétur Lárusson framkvæmdastjóri.

Aftasta röð f.v.: Jón Magnússon liðsstjórn, Kristján H. Ragnarsson sjúkraþjálfari, Davíð Kristján Ólafsson, Damir Muminovic, Elfar Freyr Helgason, Ellert Hreinsson, Stefán Gíslason, Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Þórður Magnússon sjúkraþjálfari, Marinó Önundarson mfl.ráð.

Á myndina vantar leikmennina Tómas Óla Garðarsson og Gísla Pál Helgason.

Til baka