BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Bara upp á við!

13.05.2014

Leikskýrsla.

Blikar riðu ekki feitum hesti frá viðureign sinni við Keflavík í Pepsí-deild karla í gær í Reykjanesbæ. Heimapiltar voru betri á flestum sviðum knattspyrnulistarinnar og unnu öruggan 2:0 sigur á lánlausum Kópavogsbúum.

Blikar náðu sér engan vegin á strik í leiknum og vantaði allt malt í okkar pilta að þessu sinni. Það eina góða við leikinn er að við getum varla spilað slakar og upp frá þessu er allt upp á við!

Fyrri hálfleikur var í sjálfu sér stórslysalaus. Liðin skiptust á að sækja en þó vantaði nokkuð á snerpuna í sóknarleik Blikanna. Við erum ekki að skapa okkur nægjanlega mörg tækifæri og sjaldan sem við reynum á markvörð andstæðinganna. 

Það riðlaði  nokkuð leikskipulagi okkar að við misstum bæði Pál Olgeir og Tómas Óla út af meidda en það er í sjálfu sér engin afsökun. Einhvern neista og leikgleði vantaði í þá grænklæddu og það þarf að laga fyrir næsta leik.

Mörk Keflvíkinga komu eftir hörmuleg varnarmistök okkar drengja og var pínlegt fyrir áhorfendur að fylgjast með varnartilburðum Blikaliðsins allt frá sóknarlínu til aftasta manns.

Best er að gleyma síðari hálfleik sem allra fyrst. Sendingar rötuðu ekki á rétta menn, uppbygging sóknarlota Blikaliðsins tók allt of langan tíma og miðju- og sóknarmenn misstu boltann nánast undantekningalaust allt of langt frá sér.  Einnig vantaði að menn hjálpuðu hvor öðrum og berðust almennilega um alla lausa bolta.

Í sjálfu sér er ekki heldur hægt að hrósa áhorfendum Blika fyrir mikinn stuðning úr stúkunni. Að vísu mættu margir Kópavogsbúar á völlinn en þeir létu varla heyra í sér. Engin Blikafáni var á lofti og engin trommuleikur! 

Næsti leikur er liðsins er gegn spútnikliði Fjölnis á Kópavogsvelli á sunnudaginn kl.19.15. Það verða menn að bíta í skjaldarrendur og mæta dýrvitlausir til leiks.

Það býr miklu meira í Blikaliðinu en það sýndi í þessum leik. 

Mætum vel á sunnudaginn og löndum fyrsta sigri sumarsins!

-AP

Til baka