BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Bakhjarlarnir okkar!

31.03.2023 image

Okkar fólk á skrifstofunni í Smáranum heldur áfram að endurnýja samninga við bakhjarla (sponsora) deildarinnar

Vel á annan tug fyrirtækja fyllir hóp bakhjarla knattspyrnudeildar Breiðabliks.

N1 og Krónan endurnýja samninga sína við Knattspyrnudeild Breiðabliks.

Breiðablik hefur átt farsælt samstarf við N1 og Krónuna síðustu ár en bæði fyrirtækin hafa átt sitt pláss á keppnistreyjum knattspyrnudeildar og verður engin breyting á því. Samningurinn var undirritaður til næstu 4 ára á Kópavogsvelli á dögunum. 

Það var stutt að fara fyrir þau Hinrik Örn Bjarnason framkvæmdastjóra hjá N1 og Guðrúnu Aðalsteinsdóttur framkvæmdastjóra Krónunnar en bæði fyrirtækin eru með höfuðstöðvar sínar í Kópavogi þó að starfsemin sé um allt land. Það skiptir félag eins og Breiðablik gríðarlega miklu máli að eiga liðsfélaga eins og Krónuna og N1 hvort sem það snýr að afreksstarfi, yngri flokkum eða meistaraflokkum.

N1 og Krónan leggja mikið upp úr samfélagslegri ábyrgð og þökkum við þeim kærlega fyrir að framlengja okkar góða samstarf sem hefur verið gæfuríkt. Markmiðið er að halda áfram á sömu braut með stórum og smáum sigrum saman.

image

image

Á myndunum má sjá Eysteinn Pétur Lárusson framkvæmdastjóra Breiðabliks, Guðrúnu Aðalsteinsdóttur framkvæmdastjóra Krónunnar og Hinrik Örn Bjarnason framkvæmdastjóra N1 ásamt glæsilegum ungum Blikum.

Frétt frá 22. desember 2022:

Undanfarna mánuði hefur félagið endurnýjað nokkra samninga og bætt einum nýjum við í hópinn. Við stuðningmenn fögnum því að sjálfsögðu að þessi fyrirtæki sýni félaginu okkar þennan stuðning ár eftir ár. 

Vel á annan tug fyrirtækja fyllir hóp bakhjarla knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Hér eru fréttir af síðustu undirskriftum:

Vörður tryggingar áfram bakhjarl knattspyrnudeildar Breiðabliks!

Vörður og knattspyrnudeild Breiðabliks hafa endurnýjað samning sín á milli um að Vörður verði áfram aðalstyrktaraðili deildarinnar til næstu fjögurra ára. Þetta er í þriðja sinn sem samningurinn er endurnýjaður og hefur Vörður verið bakhjarl knattspyrnudeildar Breiðabliks frá árinu 2010. Samningurinn er mikilvægur fyrir báða aðila en hann styður við meistaraflokka félagsins í efstu deild karla og kvenna og styrkir enn frekar öflugt uppeldis- og afreksstarf stærstu knattspyrnudeildar landsins.

Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar:

Við eru mjög ánægð með samstarfið við Breiðablik og viljum halda áfram að styðja við það góða uppeldis- og afreksstarf sem þar fer fram. Mikilvægt samfélagsstarf er unnið innan íþróttafélaga og ungt fólk sem elst upp við skipulega íþróttaiðkun býr að því alla ævi. Innan knattspyrnudeildar Breiðabliks eru um 1.700 iðkendur á öllum aldri og er það mesti fjöldi á landinu hjá einu félagi. Við erum því virkilega stolt af þátttöku okkar og stuðningi við þetta starf. Það rímar vel við gildi og áherslur Varðar.“

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks:

Vörður hefur staðið með Breiðablik í 12 ár núna sem aðal samstarfsaðili og við höfum gengið í gegnum súrt og sætt saman. Við stefnum áfram hátt og markmiðin innan félagsins eru að gera enn betur á öllum vígstöðvum. Það skiptir okkur gríðarlega miklu máli að hafa bakhjarl eins og Vörð í okkar liði og erum við spennt fyrir næstu 4 árum saman þar sem við stefnum á stóra og smáa sigra saman. Breiðablik og Vörður hafa markað saman ákveðna leið og það eru gleðitíðindi að halda áfram á saman á þeirri vegferð“. 

Vörður og Breiðablik vilja stuðla að hollri hreyfingu og heilbrigðu líferni og styðja þannig við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer þrjú um heilsu og vellíðan. Regluleg hreyfing hefur margþættan ávinning fyrir heilsuna, hún minnkar líkur á sjúkdómum, eykur lífsgæði og lengir lífið. Að hreyfa sig er samfélagsábyrgð í verki.

image

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks og Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar

Breiðablik og Málning hf halda góðu samstarfi áfram!

Á dögunum undirrituðu Breiðablik og Málning samning um áframhaldandi samstarf en Málning hefur verið á búningi Breiðabliks í nokkur ár og verður áfram næstu ár. Samstarfið nær langt aftur og erum við í Breiðablik gríðarlega þakklát fyrir þann öfluga stuðning sem Málning hefur sýnt félaginu í gegnum tíðina.

Eysteinn Pétur Lárusson framkvæmdastjóri var að vonum ánægður með nýjan samning.

"Málning hefur verið einn af okkar helstu bakhjörlum í fjölda mörg ár og samstarfið verið virkilega ánægjulegt. Breiðablik og félagsmenn hafa átt gott samband við Málningu um langt skeið og það er okkar von að svo verði um ókomin ár. Þessi samningur skiptir okkur miklu máli og erum við þakklát Málningu fyrir þeirra framlag til félagsins".

Þórður Davíðsson frá Málningu tekur í sama streng.

"Við höfum alltaf lagt mikið upp úr því að skila til samfélagsins og það er því gott að tengjast svona stóru félagi eins og Breiðablik er sem skiptir samfélagið í Kópavogi miklu máli. Okkar samstarf verið frábært í öll þau ár sem við höfum unnið saman og við erum spennt fyrir komandi tímum með Blikum. Okkar höfuðstöðvar eru að sjálfsögðu í Kópavogi og við hlökkum til að þjónusta Blika áfram,  framtíðin er björt í Kópavogi.Á myndinni má sjá Eystein Pétur Lárusson og Þórð Davíðsson.

image

Þórður Davíðsson frá Málningu og Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks

Knattspyrnudeild Breiðabliks og Vídd flísaverslun endurnýja samstarfssamning

Knattspyrnudeild Breiðabliks og Vídd flísaverslun hafa endurnýjað samstarfssamning til næstu fjögurra ára. Öll lið á vegum knattspyrnudeildar Breiðabliks munu bera merki frá Vídd á sínum búningum næstu fjögur tímabil.

Eysteinn Pétur Lárusson Framkvæmdastjóri Breiðabliks er mjög sáttur við að endurnýja samstarfið við Vídd.

Vídd hefur verið dyggur stuðningsaðili okkar um árabil og við erum gríðarlega
sátt að endurnýja okkar góða samstarf og tryggja það til næstu 4 ára. Það skiptir félag eins og Breiðablik mjög miklu máli að hafa góða bakhjarla eins og Vídd og hlökkum við til frekari afreka á næstu árum með þau innanborðs“.

Atli Rúnar Þorsteinsson framkvæmdarstjóri hjá Vídd er glaður með endurnýjun á samstarfinu.

Okkar samstarf við Knattspyrnudeild Breiðabliks hefur verið afar farsælt, við erum staðsett ekki langt frá svæði Breiðabliks upp í Bæjarlind þó að við séum einnig með verslun á Akureyri. Við höfum lagt metnað okkar í að skila til samfélagsins og styðja við æskulýðs og íþróttastarf eins og unnið er hjá Blikum. Ekki skemmir fyrir að knattspyrnudeild Breiðabliks er ein sú sterkasta og fjölmennasta á landinu og við erum gríðarlega spennt fyrir áframhaldandi samstarfi“.

image

Atli Rúnar Þorsteinsson, framkvæmdarstjóri hjá Vídd og Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks

Knattspyrnudeild Breiðabliks og Nike hafa gert með sér samstarfssamning til næstu fjögurra ára.

Öll lið á vegum knattspyrnudeildar Breiðabliks munu því leika í fatnaði frá Nike næstu fjögur tímabil. Breiðablik spilaði síðast í Nike árið 2009 þegar liðið varð meðal annars bikarmeistari karla.

Eysteinn Pétur Lárusson Framkvæmdastjóri Breiðabliks er mjög sáttur við nýja samninginn

Það að við höfum náð samkomulagi við Nike sem er eitt stærsta íþróttavörumerki heimi skiptir knattspyrnudeild Breiðabliks gríðarlega miklu máli. Nú munu allir iðkendur knattspyrnudeildar frá þeim minnstu og upp í meistaraflokk klæðast þessum vönduðu vörum. Þetta eru tæplega 2000 manns í heildina og verður gaman að sjá samstarfið þróast með Nike á Íslandi. Markmiðið er að verða betri og auka þjónustu við okkar fólk sem mun klæðast Nike fatnaði og eru spennandi tímar framundan“.

Þuríður Hrund Hjartardóttir framkvæmdarstjóri Heilsu og Íþróttasviðs hjá Icepharma er einnig mjög ánægð með nýja samninginn,

„Knattspyrnudeild Breiðabliks er ein sú sterkasta og fjölmennasta á landinu og við erum gríðarlega spennt fyrir samstarfinu með þeim. Einnig er þetta nýja samstarf ánægjulegt í ljósi þess að við stefnum að því að flytja höfuðstöðvar okkar í næsta nágrenni við félagið í Arnarlandi innan fárra ára".

Blikar og aðrir áhugasamir verða upplýstir í framhaldinu um söluna og hvernig má nálgast vörur þegar þær eru klárar hjá H verslun og verslun Breiðabliks sem mun taka til starfa eftir áramótin. Áætlað er að formleg sala á nýjum Breiðabliks Nike vörum hefjist fyrir áramót.

image

Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdarstjóri Heilsu og Íþróttasviðs hjá Icepharma og Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks

Til baka