BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Auglýst eftir ástríðu!

25.09.2016

Eins og í ansi mörgum leikjum í sumar  þá var leikmönnum Blika alveg fyrirmunað að skora í mark andstæðinganna. Þrátt fyrir mýmörg færi, tvo skot í slá þá vildi knötturinn ekki í netið. Hins vegar tókst Skagamönnum að koma knettinum einu sinni í netið framhjá Gunnleifi markverði í síðari hálfleik og því fórum við hnýptir og svekktir til baka frá þessum leik. Fyrri hálfleikur var nokkuð góður hjá okkur mönnum en alla ástríðu vantaði í liðið í síðari hálfeik. Ekki var að sjá að gríðarlega mikið væri í húfi og auglýsum við eftir miklu meiri ástríðu fyrir lokaleikinn gegn Fjölni á laugardaginn!

Veðurguðirnir voru í þokkalega góðu skapi að þessu sinni. Að vísu var ekki hægt að spila borðtennis utandyra á Skaganum líkt og Kópavogsbúar gerðu í Hrauntungunni, Hvömmunum og suðurhlíðum Kópavogs. Kári blés hressilega þvert á völlinn en sólin yljaði þeim sem ákváðu að sitja í grasbalanum við Skagavöllinn.

Yfirburðir Blika fyrstu 30 mínúturnar voru miklir. Við fengum nokkuð frjálsa flugbraut upp kantana og áttu bakverðir okkar Alfons og Davíð Kristján nokkrar vænlegar fyrirgjafir. En sóknarmönnum okkar tókst ekki að  nýta þær ekki frekar en aðra möguleika í leiknum. Þrumufleygur Olivers Sigurjónssonar úr aukaspyrnu small í þverslánni og vildu sumir halda því fram að knötturinn hefði farið inn. En í kjölfarið fór Arnþór Ari illa með upplagt færi þegar hann skallaði knöttinn beint á markvörð heimapilta. Á margan hátt var fyrri hálfleikur vel spilaður hjá okkar drengjum en það dugir skammt ef menn skora ekki.

Eitthvað var Arnar þjálfari ósáttur við sína menn og henti þeim Atla Sigurjónssyni og Höskuldi Gunnlaugssyni inn á eftir leikhléið. Andri Rafn og Bamberg þurftu að setja á tréverkið en ekki er vitað hvort meiðsli komu þar eitthvað við sögu. Við sóttum nokkuð stíft á Skagamennina fyrstu 10-15 mínútur síðari háflleiks án þess þó að skapa okkur nein tækifæri að ráði.  Smám saman virtist trúin á verkefnið hverfa úr liðinu og öll ástríða hvarf úr leik Blikaliðsins. Við áttum engin svör við sterkum varnarleik Skagamanna og gæðin á síðasta þriðjung vallarins voru nánast engin. Það kom því ekki mikið á óvart að heimamenn laumuðu inn einu marki þegar varnarleikur okkar klikkaði eftir hornspyrnu þeirra gulklæddu.  

Það er mikið áhyggjuefni hve erfiðlega gengur að mótivera liðsmenn Blikaliðsins fyrir þessu Evrópuverkefni. Skelfilegur leikur liðsins gegn ÍBV í síðustu umferð virtist ekki kveikja nægjanlega vel í mannskapnum. Að vísu var allt annað að sjá til liðsins í fyrri hálfleik en liðið koðnaði niður í svipað miðjumoð og í ÍBV leiknum.

Nú erum við komin alveg upp við vegg en vegna annarra úrslita þá er Evrópusætið enn innan seilingar. Við verðum hins vegar að sigra Fjölnismenn í lokaleiknum til að sætið sé öruggt. Við gerum þá kröfu til þjálfara, leikmanna og stuðningsmanna að þeir snúi bökum saman til að að það takist.

Annað er ekki ásættanlegt!

-AP

Umfjallanir annarra netmiðla

Til baka