BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Arnór yfirgefur Blika

03.11.2016

Arnór Aðalsteinsson og knattspyrnudeild Breiðabliks hafa orðið ásátt um að endurnýja ekki samning Arnórs við deildina. ,,Þetta var ekki létt ákvörðun enda hef ég ekki spilað með öðru liði hér á landi og þykir gríðarlega vænt um klúbbinn og allt fólkið sem að honum kemur,“ segir Arnór. ,,En ég er orðinn 30 ára gamall og fannst þetta rétti tíminn til að prófa eitthvað nýtt,“ bætir hann við. Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks segir að deildin hafi gjarnan viljað halda Arnóri. ,,Við skiljum hins vegar hans afstöðu og virðum hana. Við óskum honum að sjálfsögðu velfarnaðar í nýju félagi en vonum auðvitað að Arnór komi að lokum aftur heim.“

Arnór á glæsilegan feril að baki með Blikaliðinu. Hann lék fyrst með meistaraflokki árið 2003 og á að baki 252 leiki með meistaraflokki þar af 139 í efstu deild.  Arnór varð bikarmeistari með Breiðabliki 2009 og Íslandsmeistari 2010. Hann er sjötti leikjahæsti Bliki í meistaraflokki frá upphafi og hefur þar að auki spilað 12 leiki með A-landsliði Íslands og 9 með U-21árs landsliðinu. Arnór spilaði sem atvinnumaður með Hönefoss í efstu deild í Noregi á árunum 2011-2013.

Blikar senda Arnóri kveðjur og óska honum alls hins besta á nýjum slóðum. Við tökum hins vegar undir með framkvæmdastjóra deildarinnar um að við viljum að sjálfsögðu sjá Arnór aftur sem fyrst í grænu treyjunni.

Nánar um Arnór hér

Til baka