BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Arnór Gauti mættur í Kópavoginn

13.01.2024 image

Blekið þornar ekki í pennanum hjá okkar mönnum í Smáranum þessa dagana. Nýr leikmaður kominn til félagsins  - Arnór Gauti Jónsson var að skrifa undir samning sem gildir út keppnistímabilið 2026. Búið var að orða leikmanninn sterklega við önnur félög en hann valdi að koma í Kópavoginn.

"Það eru gleðitíðindi að Arnór Gauti hafi valið að semja við Breiðablik og kemur hann með að smellpassa inn í leikmannahóp Breiðabliks. Arnór er fjölhæfur leikmaður með mikla meistaraflokksreynslu þrátt fyrir ungan aldur. Arnór býr einnig yfir því hugarfari og hungri sem við vorum að leita að og erum við mjög ánægðir með að fá hann til liðs við okkur." "Við teljum okkur hafa styrkt liðið vel á síðastliðnum vikum. Auk Arnórs Gauta höfum við fengið Aron Bjarnason sem er einn allra besti sóknarmaður deildarinnar og mun gefa okkur nýja vídd í okkar sóknarleik. Kristinn Jónsson þekkir svo hverja fjöl í Smáranum og er heimkoma hans eitthvað sem allir Blikar ættu að vera hrikalega spenntir fyrir." segir Halldór Árnason aðalþjálfari í spjalli við tíðindamann blikar.is

Arnór kemur til okkar úr Árbænum þar sem hann var fastamaður í liði Fylkis með  89 leiki Pepsi Max deildinni 2020 og 2021, Lengjudeildinni 2022 - sérfræðingar Fótbolta.net völdu Arnór í lið ársins 2022 - og Bestu deildinni 2023.

Arnór er uppalinn hjá Aftureldingu. Meistaraflokksferillinn byrjaði þar í leik gegn Kára í úrslitum B-deildar Lengjubikarsins í byrjun apríl 2018. Nokkrir leikir í 2. deildinni sumarið 2018 fylgdu í kjölfarið. Árið eftir eru það 19 leikir í Inkasso-deildin plús 4 leikir í Mjólkurbikarnum auk leikja með 2. flokki Aftureldingar.  Arnór skipti svo í Fylki um mitt sumar 2020.

Í desember 2023 fór Arnór á reynslu til þýska liðsins Preussen Münster.

Arnór Gauti  var valinn í U21 landsliðið fyrri hluta árs 2023. Þessi mynd af þeim Blikfélögum - Eyþóri Aroni Wöhler, Róberti Orra Þorkelssyni og Arnóri Gauta Jónssyni - er tekin U21 landsliðsferð. 

Samningurinn við Arnór Gauta gildir út árið 2026.

Vertu hjartanlega velkominn í Kópavoginn.

PÓÁ

Arnór Gauti var eftirsóttur en af hverju valdi hann Breiðablik?

Til baka