BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Árið byrjar með hörkuleik gegn Stjörnunni

11.01.2018

Fyrsti opinberi leikur hjá meistaraflokki karla á árinu 2018 verður í Kórnum kl. 12:30 á laugardaginn. Þá mætum við nágrönnum okkar frá Garðabæ í Fótbolta.net mótinu.

Leikurinn verður fjórða viðureign liðanna í Fótabolta.net mótinu frá upphafi. Tveir af þremur leikjum til þessa voru úrslitaleikir sem Breiðablik vann. Fyrri úrslitaleikurinn var 3-2 sigur Blika í Kórnum árið 2012 (nánar). Síðari úrslitaleikurinn var á 1-2 sigur okkar manna í Kórnum árið 2015 (nánar). Sigurleikur Stjörnumanna var 3-2 tap okkar manna í riðlakeppni í Fífunni árið 2016 (nánar).

Allir opinberir leikir liðanna frá upphafi (nánar).

Búast má við hörkuleik enda líta bæði lið á nágranna sína sem sinn aðalkeppinaut. Liðin mættust fyrir mánuði síðan þegar Blikaliðið vann 2-0 sigur í úrslitaleik BOSE 2017 mótinu. Þar voru okkar drengir mun betri og því má búast við að Garðbæingar komi tvíefldir til leiks að þessu sinni (nánar)

Blikastrákarnir hafa hins vegar æft vel að undanförnu og hafa nokkrir ungir og efnilegir leikmenn úr 2. og 3. flokki fengið að æfa með liðinu. Það hefur sett skemmtilega svip á æfingarnar enda eru þetta kappsfullir strákar sem vilja sanna sig fyrir þjálfaranum. Ekki er vitað hvort einhver þessara stráka fái tækifæri á laugardaginn en óneitanlega væri gaman að sjá einhvern þeirra spreyta sig.

Við hvetjum því alla Blika sem vettlingi geta valdið að mæta í Kórinn á laugardaginn og njóta knattspyrnunnar í skjóli frá veðri og vindum janúarlægðanna.

Áfram Blikar, alltaf alls staðar!

Til baka