Áramótakveðja 2022
31.12.2022/2021/Aramot2021_600_338.jpg)
Forsvarsmenn blikar.is senda öllum Blikum og öðrum landsmönnum nær og fjær bestu óskir um farsæld og gleði á nýju ári!
Í S L A N D S M E I S T A R A R 2 0 2 2
Sumarið 2022 sveif Breiðablik líkt og á töfrateppi öðrum liðum ofar í Bestu deild karla, allt frá fyrsta leik til þess síðasta. (Reyndar var Breiðablik líka í fyrsta sæti deildarinnar áður en keppnin byrjaði, en stafrófsröðin réði því.) Þetta ævintýri deildarkeppninnar stóð óvenjulega lengi eða allt frá 19. apríl til 29. október. Það gerir 193 daga eða rúmlega helming ársins 2022. Það eru þó ekki merkilegustu tölur ársins né heldur að í lok deildarkeppni ævintýraársins sem minnti á þúsund og eina nótt höfðu Breiðabliksstrákar náð samtals þúsund og einu stigi samtals í efstu deild. Met af ýmsu tagi voru slegin og hér er yfirlit yfir nokkur þeirra.fi.
23 ára met slegið
Í heimaleiknum gegn KR 23.júní 2022 skráði Breiðabliksliðið sig á spjöld sögunnar með sigri á Vesturbæjarliðinu. Leikurinn var sextándi sigur okkar manna í röð í efstu deild á heimavelli. Með sigrinum sló Blikaliðið met sem ÍBV hafði átt í heil 23 ár, en Eyjamenn unnu 15 heimaleiki í röð á Hásteinsvelli á árunum 1997 til 1999 og áttu metið einir síðan, eða þar til okkar menn jöfnuðu það í með sigri gegn KA 20. júní.
Gullhanskinn
Anton Ari Einarsson hreppti fyrsta gullhanskann sem afhentur hefur verið hér á landi. Í fyrsta sinn í ár fá bestu markmenn beggja kynja gullhanska. Gullhanskinn er afhentur þeim markverði sem heldur oftast hreinu á keppnistímabili Bestu deildarinnar. Okkar maður hélt tólf sinnum hreinu í 27 leikjum.
Taplausir á heimavelli
Blikar náðu þeim merka áfanga að spila 22 leiki í röð á heimavelli án taps (21 sigur / 1 jafntefli) með markatöluna 69:10. Liðið vann alla heimaleiki árið 2021, nema fyrsta leikinn sem var gegn KR á Kópavogsvelli 2. maí, með markatöluna 32:1 og liðið var taplaust árið 2022 tólf leiki í röð með markatöluna 37:9. Sá sem skrifaði handritið að þessari velgengni sá auðvitað til þess að velgengnin, sem hófst eftir tap gegn KR í fyrsta leik 2021, að það var KR sem batt enda á sigurgönguna í Kópavogi í 3. umferð úrslitakeppninnar á Kópavogsvelli 15. október 2022.
Venjulegt 22 leikja mót
Annað árið í röð skora Blikamenn 55 mörk í 22 leikjum í deildinni og bæta besta eigin árangur, frá 2021, um 4 stig. Þeir ljúka hefðbundnu móti með 51 stig og fara í úrslitakeppnina í október með átta stiga forskot á næstu lið. Félög á Íslandi sem hafa náð 50 eða fleiri stigum í 22 leikjum frá 2008 eru: 52 stig: KR árin 2013/2019 og Stjarnan 2014, 51 stig: FH 2009 og Breiðablik 2022, 50 stig: Valur 2017.
Úrslitakeppnin - efri hluti
Breiðabliksmenn mættu til leiks í fyrstu úrslitakeppnina með 51 stig - 8 stiga forskot á næstu lið (Víkinga og lið KA). Þegar talið var upp úr stigapokanum fræga var ljóst að Breiðablik vann yfirburðasigur í Bestu deild karla með 63 stig - fyrst liða á Íslandi til að ná þeim stigafjölda.
Stuðningssveitin Kópacabana
Stuðningsmennirnir okkar í Kópacabana stóðu sig frábærlega á pöllunum í allt sumar. Sveitin keyrði upp stemninguna í stúkunni bæði á heima- og útileikjum. Sjá nokkur góð dæmi hér: 26. maí 2022 3. október 2022 15. október 2022 29. október 2022
Markaskorun
Liðið skoraði 66:27 mörk í deildinni og deilir nýju markameti með Víkingum sem einnig skorðuðu 66:41 mörk. Það er reyndar með ólíkindum að lokaleikurinn gegn þeim hafi endað 1:0. Nánar> Alls skoraði Blikaliðið 109 mörk í 47 mótsleikjum á árinu 2022 sem skiptast svona milli móta: Besta deild 66 mörk, Mjólkurbikar 10 mörk, Sambandsdeild UEFA 9 mörk, Lengjubikar 13 mörk, FótboltaNet mót: 11 mörk.
Breiðablik er áttunda félagið frá upphafi til að ná 1.000 stigum í deildinni. Stigin eru reyndar 1.001 frá því að liðið lék fyrst í efstu deild árið 1971.
Í S L A N D S M E I S T A R A R 2 0 2 2