BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Andri Rafn með nýjan 3 ára samnning

13.02.2019

Miðjumaðurinn óþreytandi Andri Rafn Yeoman hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við knattspyrnudeild Breiðabliks. Þetta eru góðar fréttir fyrir Blika því þrátt fyrir að vera ekki nema 26 ára gamall er Andri Rafn leikjahæstur núverandi leikmanna Breiðabliks með 302 mótsleiki.

Árið 2016 náði Andri Rafn þeim áfanga að verða leikjahæsti leikmaður Breiðabliks í efstu deild frá upphafi þegar hann spilaði 144. leikinn í efstu deild, þá aðeins 24 ára gamall. Leikjametið tók hann af þáverandi þjálfara sínum, Arnari Grétarssyni. Í dag er Andri Rafn kominn með 191 leik í efstu deild. Nánar>

Andri Rafn hefur leikið 302 leiki fyrir meistaraflokk og skorað í þeim 16 mörk. Hann á þar að auki 23 leiki fyrir yngri landslið Íslands að baki. Andri Rafn varð bikarmeistari með Breiðabliki árið 2009 og Íslandsmeistari árið eftir. Stundum hefur verið sagt að Yeoman sé vanmetnasti leikmaður Pepsí-deildarinnar. Hann hefur samt oft verið valinn besti leikmaður Breiðabliks og verið einn af bestu miðjumönnum deildarinnar undanfarin áratug.

Andri Rafn hefur átt við meiðsli að stríða undanfarin misseri en er nú kominn á gott skrið. Það styttist því í að stuðningsmenn Blika fá að sjá þennan snjalla leikmann aftur inn á vellinum.

Blikar.is óskar Andra Rafni til hamingju með nýja samninginn. 

Mynd: HVH

    

Til baka