BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Alfons til Norrköping

20.01.2017

Breiðablik hefur samþykkt tilboð frá sænska úrvalsdeildarklúbbnum Norrköping í bakvörðinn unga Alfons Sampsted.

Alfons hefur þegar skrifað undir samning við Svíana og heldur utan til æfinga með liðinu á sunnudaginn.

Alfons sem er 18 ára gamall hefur staðið sig einstaklega vel með Blikaliðinu undanfarin misseri. Hann á nú þegar að baki 27 leiki í Pepsí-deildinni. Þar að auki lék hann sem lánsmaður með Þór í 1. deildinni árið 2015 og stóð sig mjög vel.

Alfons hefur leikið 20 landsleiki með U-17 og U-19 ára landsliðum Íslands og var nýlega valinn til æfinga með U-21 ára landsliði Íslands. Brotthvarf Alfons er auðvitað ákveðið áfall fyrir Blikaliðið en Blikar samgleðjast samt með þessum unga leikmanni sem fær nú tækifæri á nýjum vettvangi til að verða enn betri leikmaður.

En gefum Alfonsi orðið;

 „IFK Norrköping er frábær klúbbur sem ég heimsótti, æfði og keppti með í nóvember á síðasta ári.

Það er afar ánægjulegt að Breiðablik og IFK Norrköping hafi náð saman um félagaskiptin.

IFK Norrköping urðu sænskir meistarar árið 2015 og enduðu í þriðja sæti 2016.  Það er mikil metnaður hjá félaginu, frábær æfingaaðstaða, öflugur hópur leikmanna og tryggir stuðningsmenn sem standa þétt við bakið á liðinu.  Það eru um og  yfir 12.000 manns sem mæta á heimaleiki.

Ég er afar þakklátur fyrir árin hjá uppeldisfélaginu mínu, Breiðabliki, þar hef ég notið leiðsagnar frábærra þjálfara allt frá því að ég steig mín fyrstu skref í 8. flokki. Umgjörðin öll hjá Breiðabliki hefur reynst mér vel og langar mig að þakka sérstaklega öllu starfsfólkinu sem vinnur í kringum félagið og liðsfélögunum. 

Arnar Grétarsson og hans hópur sýndu mér mikið traust þegar þeir tóku mig inn í æfingahóp með meistaraflokki aðeins 16 ára gamall.  Móttökur meðal leikamanna og þeirra sem standa að meistaraflokki hafa verið einstakar.  Ég er þakklátur Arnari fyrir að hvetja mig til að fara norður á lán til að spila með Þór. Þar öðlaðist ég frábæra reynslu og hvet ég alla unga fótboltamenn til þess að gefa neðri deildunum tækifæri ef það stendur til boða. 

Mínúturnar og leikirnir sem ég fékk í Pepsí deildinni síðasta sumar voru lærdómsríkar, stökkið að fara úr 1. deild upp í Pepsi deild var mikið og maður fann að þar átti maður margt ólært. 

Blikarnir verða með sterkan hóp næsta sumar, mitt hjarta verður alltaf hjá Breiðablik, klúbburinn, starfsfólkið, Kópacabana og allir stuðningsmennirnir hafa hjálpað mér að komast í þessa stöðu og fyrir það er ég þakklátur.

Framundan er að æfa af fullum krafti og berjast fyrir sæti mínu í nýju liði.“

Til baka