BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ágúst Eðvald til Norwich

04.01.2017

Blikinn ungi og efnilegi Ágúst Eðvald Hlynsson, leikmaður Breiðabliks, er að ganga í raðir enska félagsins Norwich. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart því Ágúst fór til Englands í haust og hefur æft með liðinu frá þeim tíma. Líklegt er að gengið verði frá samningum á morgun og Ágúst verður þá leikmaður Norwich. Enska liðið er þekkt fyrir góða unglingaakademíu og hafa margir góðir leikmenn komið frá liðinu.

Hinn 16 ára gamli Ágúst Eðvald hóf knattspyrnuiðkun sína með Þór á Akureyri en flutti ungur í Kópavoginn. Síðasta sumar varð hann meðal annars yngsti markaskorari í sögu meistaraflokks Blika þegar hann skoraði gegn Kríu í 32-liða úrslitum Borgunarbikarsins.

Þar að auki lék hann í Evrópukeppni með Blikaliðinu og varð þar með fjórði yngsti leikmaður sögunnar til að spila í Evrópudeildinni þegar hann kom inn á 78. mín gegn FK Jelgava þá aðeins 16 ára 3 mánaða og 2 daga gamall.

Ágúst skoraði einnig í bikarleik gegn ÍA en samtals spilaði hann fjóra leiki í Pepsi-deildinni og þrjá leiki í Borgunarbikarnum.

Samtals hefur Ágúst skorað þrjú mörk í fimmtán leikjum með U17 ára landsliðinu.

Blikar fagna þessum áfanga og óska Ágústi velfarnaðar í enska boltanum.

Til baka