BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Aðeins eitt stig í gulum leik!

01.07.2018

Blikum mistókst að ná í öll stigin gegn grófum KA-mönnum á nýskírðum Greifavellinum í hjarta Akureyrar í Pepsí-deildinni í dag.  Þrátt fyrir að vera einum fleiri bróðurpartinn af seinni hálfleiknum tókst okkur ekki að koma tuðrunni í netið hjá heimamönnum og 0:0 því staðreynd.  Það vantaði meiri hugmyndaauðgi í sóknarleik okkar pilta og við náðum ekki að skapa okkur nægjanlega mörg færi í leiknum til að verðskulda öll stigin þrjú.

Sjá byrjunarliðin hér.

Norðurlandið var baðað sól þegar Blikar komu í höfuðstað Noðrurlands þannig að ekki var hægt að kvarta undan veðuraðstæðum til knattspyrnuiðkunar. Reyndar er Greifavöllurinn líkari grófu hamborgarabrauði yfirferðar en rennisléttum Kópavogsvelli. Gætum við ef til vill lánað Magga Bö norður til að kenna Akureyringum að útbúa flottan fótboltavöll? Ef Ómar Stefánsson les þennan pistil þá er hann vinsamlegast beðinn að íhuga málið!

Eins og í of mörgum leikjum í sumar þá voru okkar drengir seinir í gang. KA-menn sóttu nokkuð stíft á okkur fyrstu 10-15 mínútur leiksins og virtist ferðin norður eitthvað sitja í okkar piltum. En smám saman náðum við betri tökum á miðjunni og komum sterkar inn í leikinn. Gísla var að vanda áberandi á miðjunni og gripu þeir gulklæddu hvað eftir annað til þess ráðs að sparka okkar mann niður. Þetta þýddi að sjálfsögðu að gula spjaldið fór á loft hvað eftir annað. Þegar yfir lauk höfðu sex KA-menn fengið áminningu og einn þeirra þar að auki tvöfalt gult spjald og þar með rautt. Flest voru spjöldin eftir brot á Gísla og fer þetta að verða dálítið þreytandi hve slæma meðferð hann fær frá andstæðingum okkar. Til að vega upp á móti öllum þessum gulu spjöldum á heimamenn þurfti dómarinn algjörlega að nauðsynjalausu að klessa þremur gulum kvikindum á okkar drengi. Skil ekkert í þeim ákvörðunum annars ágæts dómara leiksins.

Stuðningsmenn Blika í stúkunni glöddust hins vegar þegar ljóst var að heimapiltar þyrftu að klára leikinn einum færri. Töluvert margir Kópavogsbúar voru mættir til Akureyrar enda N 1 og Pollamót Þórs á  Akureyri um næstu helgi. En fögnuður þeirra var ekki mjög langvinnur þvi KA pökkuðu í vörn og við vorum ekki nógu klókir að spila okkur í gegnum þennan Brekkumúr sem þeir gulklæddu reistu.

Þeir Blikar sem ekki áttu heimangengt norður mættu galvaskir í stúkuna á Kópavogsvelli til að fylgjast með leiknum. Þar héldu menn í vonina fram á síðustu mínútu að stigin kæmu öll í bæinn. Þar var fremstur meðal jafningja danski framherjinn Thomas Mikkelsen. Hann er mættur til landsins og verður löglegur með Blikaliðinu gegn Fjölni mánudaginn 16. júlí á Kópavogsvelli.

En auðvitað er betra að fá eitt stig en ekki neitt, hvað þá á útivelli. Hins vegar hefði með meiri yfirvegun verið hægt að ná í stigin þrjú. Um næstu helgi förum við á erfiðan útivöll í Eyjum  og þá þýðir ekkert að segja elsku mamma. Við verðum að mæta grjótharðir í þann leik og vonandi mætir eitthvað af fólki til að styðja Blikaliðið til sigurs í þeim leik.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Umfjöllun netmiðla

Myndaveisla

-AP

Til baka