BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Aðalfundur knattspyrnudeildar Breiðabliks 15. nóvember 2021

03.11.2021 image

Orri Hlöðversson gefur ekki kost á sér til endurkjörs -   Flosi Eiríksson býður sig fram til formanns. 

Boðað hefur verið til aðalfundar knattspyrnudeildar Breiðabliks mánudaginn 15. nóvember klukkan 18:30 í Smáranum. Dagskrá fundarins er hér. Líkt og verið hefur undanfarin ár verður haldinn framhaldsaðalfundur deildarinnar snemma árs 2022 og verður boðað til hans sérstaklega þegar staðfestur ársreikningur fyrir árið 2021 liggur fyrir.   

Formannsskipti framundan

Blikar.is gegnir því hlutverki að vera stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks í knattspyrnu og efnistökin bera auðvitað keim af því. Það breytir ekki þeirri staðreynd að við höfum mikinn áhuga á vexti og viðgangi deildarinnar. Það hvíslaði því að okkur lítill fugl að talsverðra tíðinda er að vænta af aðalfundinum sem er framundan.  Þar ber helst að nefna að Orri Hlöðversson, sem gegnt hefur formennsku í deildinni frá árinu 2018 hefur tekið ákvörðun um að gefa ekki kost á sér til embættis formanns. 

Orri Hlöðversson gefur ekki kost á sér til endurkjörs

Segja má að formannstíð Orra sé glæsileg hvernig sem á er litið. Meistaraflokkar félagsins luku báðir keppni í öðru sæti Pepsi deildarinnar og náðu hreint frábærum árangri í Evrópukeppnum og stelpurnar eru enn að keppa í meistardeildinni - fyrst íslenskra liða. Strákarnir komust alla leið í 3. umferð keppninnar. Yngri flokkar félagsins fóru með himinskautum – yfir helmingur Íslandsmeistartitla í yngri flokkunum unnust hjá Breiðablik og allir flokkar kvenna og karla stóðu sig frábærlega. Breiðablik er langstærsta knattspyrnufélag landsins með sína 1.600 iðkendur og hefur fjölgað mikið á undanförnum árum.  Félagið heldur stærsta knattspyrnumót landsins á ári hverju (Símamótið) og þannig mætti áfram telja. Síðast en ekki síst; Fjárhagur deildarinnar er afar traustur – ekki síst í ljósi árangurs í Evrópukeppni – en líka að ábyrgur rekstur hefur verið eitt aðalsmerki félagsins í mörg ár.

image

Orri Hlöðversson afhendir Höskuldi fyrirliða 200 leikja viðurkenningu fyrir lokaleik tímabilsins 2021.

En hvers vegna ákveður Orri að stíga til hliðar núna? 

Það er aldrei einfalt að finna réttan tímapunkt til að stíga niður en ég komst að þessari niðurstöðu eftir nokkra umhugsun síðustu mánuði. Stjórnin hefur verið óbreytt öll þau fjögur ár sem ég hef farið fyrir henni og þarna inni er einvala lið. Hið sama má segja um öflugt starfsfólk félagsins. Við lögðum ákveðnar línur í byrjun sem lutu að styrkingu innviða og rekstrar auk ákveðinnar hugmyndafræði þegar kemur að knattspyrnunni sjálfri. Þá voru tekin markviss skref í þá átt auka tengsl og sýnileika Breiðabliks innan knattspyrnuhreyfingarinnar í heild sinni. Þótt verkefnið verði aldrei klárað þá vil ég meina að þessar áherslur hafi skilað sér í hús innan vallar sem utan. Breiðablik hefur fest sig enn betur í sessi sem félag í fremstu röð og stofnar þess orðnir sterkari. Ég er trúr þeirri góðu reglu best sé að hverfa af vettvangi í svona verkefnum þegar vel gengur, hlutirnir eru í góðu lagi og þægilegt fyrir nýtt fólk að taka við fánanum. Þess vegna tek ég þessa ákvörðun nú og skapa mér um leið aukið svigrúm til að sinna öðrum verkefnum“ sagði Orri Hlöðversson. 

Flosi Eiríksson býður sig fram til embættis formanns knattspyrnudeildar

Þá hefur annar fugl hvíslað í eyru okkar á ritstjórn blikar.is að það hefur eitt framboð til formanns þegar borist til framkvæmdastjóra Breiðabliks. Núverandi stjórn hefur verið afar samhent og starfið gengið vel og því þarf ekki að koma á óvart að stjórnin leggi til að formannskandidat komi úr röðum hennar. Nýr kandidat er Flosi Eiríksson – en hann hefur verið í stjórn knattspyrnudeildarinnar síðan 2017.  

Stuðningsmenn Blika þekkja vel til Flosa eins og margir Blikar – enda dyggur stuðningsmaður félagsins alla tíð. Flosi var “SpáBliki” 5. Umferðar Pepsi deildarinnar í sumar og  þar var hann réttspár fyrir leik Breiðabliks og Stjörnunnar. Þar kom fram um Flosa hér á þessum vettvangi: „SpáBliki 5. umferðar er fæddur og uppalinn í Kópavogi, í næsta húsi við jafnaldra sinn og bekkjarbróður, Pétur Guðmundson varðstjóra og dómara í Pepsi deild karla. Hann hefur setið í stjórn Knattspyrnudeildar Breiðabliks síðan 2017. SpáBlikinn á 4 börn og hafa þrjú af þeim æft með Breiðabliki, en eitt með HK! Blikinn var (er) býsna pólitískur og sat í bæjarstjórn Kópavogs 1998 til 2010. Hann starfar nú sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins og reynir að tryggja að farið sé eftir reglum á vinnumarkaði.“ Taka má fram að leikurinn endaði með 4:0 sigri okkar manna – en spáin hjá Flosa var 3:1.

image

Flosi Eiríksson

Hvers vegna ákvað Flosi að taka þeirri áskorun að gefa kost á sér sem formaður?

"Það er ótrúlega að gefandi að starfa innan knattspyrnudeildarinnar Breiðabliks með öllu því góða fólki sem þar er. Ég býð mig fram sem formaður til að fara fyrir stjórninni á þeirri braut sem mörkuð hefur verið undir forystu Orra. Við þurfum að bæta aðstöðuna fyrir alla okkar iðkendur og standa áfram undir því að vera hvort tveggja í senn: afburðafélag bæði á sviði afreksíþrótta en líka uppeldis og grasrótarhreyfing. Slíkt er langt í frá að vera sjálfgefið. Við þurfum að búa meistaraflokkum karla og kvenna það umhverfi að þeir séu áfram og ávallt í fremstu röð og um leið styrkja samband stuðningsfólks við félagið og hvert við annað. Verkefnin eru því sem næst óþrjótandi og ég hlakka til að takast á við þau með öflugri stjórn og góðu starfsfólki." sagði Flosi Eiríksson.

Rétt er að taka fram að allir félagar knattspyrnudeildar sem eru 18 ára og eldri hafa rétt til að bjóða sig fram til setu í stjórn. Skriflegu framboði skal skila til framkvæmdastjóra félagsins að lágmarki viku fyrir boðaðan aðalfund eða í síðasta lagi 8. nóvember 2021. Í kjölfar aðalfundar verður skipað í þau ráð sem heyra undir stjórn knattspyrnudeildar. Má þar nefna meistaraflokksráð karla og kvenna auk barna- og unglingaráðs. Við hvetjum áhugasama að hafa samband við framkvæmdastjóra Breiðabliks á netfangið eysteinn@breidablik.is ef áhugi vaknar á að taka þátt í skemmtilegu og gefandi starfi innan félagsins.

Blikar.is þakka Orra Hlöðverssyni fyrir gott samstarf í hans formannstíð og við aðstandendur vefsíðunnar hlökkum til samvinnu við nýja stjórn.

Við hvetjum alla Blika til að fjölmenna á aðalfundinn þann 15. nóvember.

image

Meistaraflokkur kvenna 2021

image

Meistarflokkur karla 2021

Til baka