BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Það skiptir máli að standa upp aftur!

02.10.2023 image

Það voru þrumulostnir áhangendur Blika sem yfirgáfu KR völlinn í gær eftir 4:3 tap fyrir heimamönnum. Það var ekkert sem benti til annars en að Blikaliðið myndi fara sigri hrósandi með þrjú stig í farteskinu heim í Kópavoginn. Komið var fram í uppbótartíma og staðan 2:3 fyrir okkur. En á einhvern óskiljanlegan hátt glopraði Blikaliðið forystunni niður og fékk á sig tvö mörk á lokaandartökum leiksins. Það er ekki til nema ein leið til að svara svona áfalli og það er að koma tvíefldir til baka í Evrópuleiknum á fimmtudaginn gegn úkraínska liðinu Zorya Luhansk. Leikmenn Blika skulda sjálfur sér og stuðningsmönnunum betri frammistöðu en í þessum leik!

Til er gamalt máltæki í Bandaríkjunum sem segir að það skipti ekki máli hve oft maður er kýldur í gólfið heldur hve oft maður stendur upp á nýjan leik! Það á svo sannarlega við í  þessu tilfelli því frammistaða Blikaliðsins í þessum leik var mjög slök. Það eina sem í raun gladdi augað voru þrjú mjög flott mörk okkar drengja. Varnarleikur liðsins um allan völl var hins vegar skelfilegur. KR-ingar virtust alltaf finna lausa menn til að gefa á og dekkningin í leiknum var mjög losaraleg. Við vorum í raun heppnir að vera ekki búnir að fá okkur tvö mörk á upphafsmínútum leiksins. Fyrsta mark Blikaliðsins kom úr fyrstu sókn liðsins á 10. mínútu. Reyndar verður að hrósa Jasoni Daða fyrir það mark enda átti hann það alveg skuldlaust.

Sending Jason Daða á Klæmint Olsen í öðru marki var einnig gullfalleg og Færeyingurinn gerði mjög vel að taka knöttinn niður og skora örugglega. Svo átti Klæmint skalla inn á Kristinn Steindórs sem kláraði færið lystilega eins og honum einum er lagið.

En þar með er hrósinu lokið. Menn voru að ,,chilla“ með knöttinn í varnarleiknum og hvað eftir annað sluppum við með skrekkinn. Þrátt fyrir að staðan væri 1:3 þegar gengið var til búningsherbergja þá leið stuðningsmönnunum ekki mjög vel. Og þeir höfðu svo sannarlega ástæðu til að vera áhyggjufullir. Það var eins slökkt væri á Blikaliðinu í síðari hálfleik. Ákefðin var lítil sem engin og því fór sem fór. Sigur heimamanna var í sjálfu sér ekki ósanngjarn en reynslumikið lið eins og Breiðablik á að sigla svona stöðu í hús.

En það þýðir ekki að gráta Björn bónda! Strax á fimmtudaginn er tækifæri til að rísa upp úr öskustónni eins og fuglinn Fönix gerði forðum daga. Addi Grétars og félagar í Val gerðu okkur greiða með því að vinna FH í gærkvöldi þannig að Evrópusætið er tryggt fyrir næsta ár. Það ætti að taka mesta hrollinn úr okkur fyrir næstu leiki.  Það vita allir að gæðin eru fyrir hendi í liðinu og nú þurfa menn að töfra fram snilldina á nýjan leik. Það væri fínt að byrja á því í Evrópuleiknum á fimmtudaginn þar sem allir sannir Blikar ætla að mæta!

Áfram Blikar, alltaf, allstaðar

-AP

Til baka