BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Að höggva undan báða fætur

03.10.2022 image

Logn var veðurs, eins og Snorri Sturluson segir í Ólafs sögu Helga í Heimskringlu, þegar lið Blika og Stjörnunnar gengu inn á Kópavogsvöll miðvikudagskvöldið 3. október. En rigningin var þeim mun atkvæðameiri. Hún var kannski ekki á biblíulegum skala – en það var að minnsta kosti hægt að hvíla vökvunarkerfið í aðdraganda leiksins.

Hugsanlegt svar við mögulegu uppleggi

Lið Blika var kunnuglegt, nema hvað Höskuldur var í vinstri bakverði og Andri Rafn – í sínum 400. leik fyrir okkar menn – hægra megin.

image

Smella á mynd til að lesa nánar 400 leikja áfanga Andra Rafns Yeoman

Nú er minni fólks misjafnt. Til dæmis rekur tíðindamann blikar.is ekki minni til þess að liðin hafi leitt saman hesta sína í Garðabæ í sumar en einhverjir í stúkunni töluðu um að hafi sá leikur farið fram hafi þessi viðsnúningur á hlutverkum þeirra hugsanlega verið svar við mögulegu uppleggi andstæðinganna á þeim vettvangi. Skal ekki fjölyrt um það frekar hér en lið Blika var þannig skipað:

image

Eftirsókn eftir vindi

Leikurinn hófst með miklum látum. Gestirnir tóku öll völd á vellinum í um það bil 30 sekúndur og sköpuðu mikla hættu við mark Blika, hefur tíðindamðurinn punktað hjá sér þegar tvær og hálf mínúta stóðu á klukkunni. Má segja að þar með hafi sóknarmenn Stjörnunnar lokið leik á Kópavogsvelli í kvöld og er sjálfsagt að þakka þeim fyrir komuna. Að vísu voru þeir afar duglegir að taka spretti á milli varnarmanna heimaliðsins án sýnilegs tilgangs (kannski í von um að ná boltanum?) og var árangurinn eftir því. Ef til vill hefði mamma Fíusólar átt að ræða við þá fyrir leik en söguheimur þessarar landsfrægu persónu Kristínar Helgu Gunnarsdóttur á sér einmitt fyrirmynd í Garðabæ þar sem skáldkonan býr. Í einni af bókunum segir móðir Fíusólar einmitt við hana: „Þú ert drottning í þínu eigin, risastóra hugmyndaríki ... En þú verður að passa að hugmyndirnar þínar fljúgi ekki svo hátt að þú missir þær út í veður og vind og einhverja vitleysu.“ Þetta var hálfgerður „hégómi og eftirsókn eftir vindi,“ eins og Predikarinn segir í Biblíunni, en það var lítið um vind en þeim mun meira um „einhverja vitleysu“ í hlaupum sóknarmannanna.

En hér gefst ekki tími til að velta frekar vöngum yfir því þar sem í sömu svifum æddi Gísli Eyjólfsson upp allan völl, lék á mann og annan, var allt í einu kominn inn í miðjan teig andstæðinganna en skot hans fór framhjá.

„Alveg er þetta ömurlegt“

Þetta gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi. Á næstu mínútum dundu sóknir heimamanna á gestunum með slíkum látum að „sýndist hinum þrjú vera sverðin á lofti og sá hann eigi hvar hann skyldi sér helst hlífa,“ svo vitnað sé til Gunnars á Hlíðarenda. Jason Daði æddi upp og átti magnaða fyrirgjöf sem fór í horn. Dagur Dan átti skot sem var varið. Gísli skaut á markteig og aftur var varið. Og aðeins 10.53 á klukkunni. Eitthvað hlaut undan að láta. Hálfri mínútu síðar æddi Dagur Dan inn af vinstri kanti eftir stórkostlega sendingu frá Oliver og þrumaði boltanum í netið.

image

12’ MARK! Dagur Dan með geggjað skot fyrir utan teig - jarðarbolti alveg út við stöng. Staðan 1:0.

Á eftir stóðu tveir af varnarmönnum Stjörnunnar sem steini lostnir, störðu í augun hvor á öðrum og reyndu að átta sig á því hvaðan þessi eldibrandur hefði komið. En niðurstaðan var sú sama og í þýðingu sveitunga þeirra úr vesturhluta Garðabæjar, Guðmundar Andra Thorssonar, á Bangsímon: „Eyrnaslapi, gamli grái asninn, stóð við ána og horfði á spegilmynd sína í vatninu. Ömurlegt, sagði hann. Alveg er þetta ömurlegt.“

Svar gestanna við þessum ósköpum var að bæta í hörkuna, svo mjög að fyrir aftan tíðindamann blikar.is heyrðist grandvar maður dæsa hneykslaður: „Þetta er eins og fjölbragðaglíma.“

Sælla er að gefa en þiggja ...

Áfram hélt fjörið. Ísak komst inn fyrir vörn gestanna en virtist halda að hann væri rangstæður og skaut með hálfum huga. Aftur komst hann í gegn, var felldur, ekkert dæmt, Jason Daði náði boltanum en skotið var varið í horn. Upp úr því varð slíkur darraðardans að gestir í stúkunni héldu margsinnis að boltinn væri í netinu.

Undir lok hálfleiksins var Ísak rifinn niður fyrir utan teig. Dagur Dan tók aukaspyrnuna en skaut rétt framhjá. Það segir kannski meira en mörg orð um gang mála að á þessum mínútum jarðaði Höskuldur þann gamla ref Daníel Laxdal í skallaeinvígi. Og skömmu síðar átti Gísli skot sem var varið í horn.

Eins og sjá má voru Stjörnumenn líklega þeirri stund fegnastir þegar dómarinn flautaði til hálfleiks. Kannski eins og boxari fagnar því að lota klárast eftir að hann hefur verið laminn sundur og saman. En á leiðinni inni í klefann fóru Blikar sennilega með þessa línu úr ljóði Káins: „Sælla er að gefa en þiggja – á kjaftinn.“

Öll völd á vellinum

Mikil bjartsýni ríkti á meðal heimamanna í hálfleik. Ýmsum spádómum var varpað fram og voru þeir allir á eina lund. Enginn efaðist um sigur.

Það bar helst til tíðinda í upphafi seinni hálfleiks að Höskuldur og Andri Rafn skiptu um stöðu. Höskuldur var áfram stúkumegin, nú í hægri bakverði. Annars var allt við það sama. Blikar voru með öll völd á vellinum.

Viktor Karl skaut í stöng eftir hornspyrnu. Ísak komst einn í gegn en mistókst að leika á markvörð Stjörnunnar. Og svo framvegis.

Áttum Damir inni

Þegar þarna var komið sögu – eftir klukkustundar leik – hallaði tíðindamaðurinn sér að sessunaut sínum og hafði orð á því að það væri eins og Damir væri bara ekkert með. Það mæddi ekkert á honum, eins og Stjörnumenn forðuðust eins og heitan eldinn að nálgast hann. Hann kom varla við boltann, nema þegar þeir Viktor og Anton Ari þreyttu sóknarmenninna fyrrnefndu. Tíðindamaðurinn hafði varla sleppt orðinu þegar Damir átti hörkuskalla framhjá marki eftir hornspyrnu og tveimur mínútum síðar skallaði hann aftur að marki – en nú kom Gísli aðvífandi og skilaði boltanum í netið. Við áttum sem sagt Damir inni ...
 

image

68’ MARK Blikar fá hornspyrnu sem Höskuldur tekur. Maður leiksins, Gísli Eyjólfsson, skilar boltanum í netið eftir hörkuskalla Damirs

Enn hækkuðu Stjörnumenn hörkustuðulinn. Nefndur Daníel Laxdal greip einn Blika fangbrögðum svo að hinn grandvari sessunautur kallaði aftur: „Glíma!“ En áfram héldu okkar menn að herja á gestina. Oliver dansaði í gegnum vörnina, féll við í teignum og töldu allir réttsýnir menn að dómarinn myndi dæma víti en í staðinn gaf hann okkar manni gult spjald fyrir leikaraskap. Litlu síðar komst Ísak enn eina ferðina einn í gegn en markvörður Garðbæinga sá við honum.

Ekkert er nýtt undir sólinni

Nokkru áður höfðu Höskuldur og Andri Rafn aftur skipt um kant – líklega til þess að rugla gestina enn frekar í ríminu. Og vissu þeir þó ekki sitt rjúkandi ráð fyrir. Það bar sannarlega árangur því að þegar tvær mínútur lifðu leiks kom löng sending upp kantinn þar sem Höskuldur hljóp eins og vindurinn, sendi fyrir á Jason Daða sem lagði boltann snyrtilega í netið. 3-0.

image

89’ MARK. Jason Daði með netta gabb hreyfingu og skorar í autt markið eftir snildarsendingu frá Höskuldi. Staðan 3:0.

Niðurstaða kvöldsins var sem sagt eins og segir í Predikaranum: „Það sem hefur verið mun verða og það sem gerst hefur mun enn gerast og ekkert er nýtt undir sólinni.“ Stjarnan er ekki vön að sækja gull í greipar Blika á Kópavogsvelli og á því var engin breyting nú. Stjarnan átti sitt eina færi á þriðju mínútu en eftir það var aðeins eitt lið á vellinum. Lokin á atriðinu þar sem sverðin þrjú sáust á lofti voru þau að Gunnar á Hlíðarenda hjó undan andstæðingnum báða fætur. Blikar veittu Stjörnumönnum eiginlega viðlíka trakteringar í kvöld.

Okkar menn hefja úrslitakeppnina þannig með miklum látum. Þeir hafa örlögin enn í sínum höndum og þurfa ekki að treysta á úrslit annarra leikja. Framundan er viðureign við KA fyrir norðan um næstu helgi. Þar eigum við harma að hefna!

PMÓ

Mörkin í boði Stöð 2 Sport

Til baka