BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

3 stig? Já takk.

15.06.2015

Blikar mættu Víkingum í 8. umferð PEPSI deildarinnar í kvöld. Landsleikjahlé er nú að baki og landsmenn  búnir  að smjatta á sætum sigrum okkar manna og mala eins og spikfeitir fresskettir frá því á föstudag.
Það var því ekki eftir neinu að bíða að sparka PEPSI deildinni aftur af stað.
Gengi þessara liða hefur verið ólíkt það sem af er sumri og má segja að Víkingar hafi alls ekki náð að fylgja eftir góðu gengi á síðasta sumri sem skilaði þeim alla leið í Evrópukeppnina.  Fyrir leikinn voru þeir í 9. sæti með 6 stig og hafa ekki náð að vinna leik síðan í 1. umferð. Blikar hinsvegar á fleygiferð, ósigraðir í mótinu og eftir 3 jafntefli í byrjun móts hafa komið 4 sigrar í röð og liðið í öðru sæti með 15 stig.
Það var því allt til staðar fyrir hörkuleik og aðstæður voru sannast sagna alveg afbragðs góðar. Hæg norðvestan átt, með glaðasólskini og hiti í kringum 11° og raki 56% skv. veðurathugun í Öskjuhlíðarhálendi, eins og Múlinn kallaði það.  Völlurinn allur að koma til eftir sáninguna í vor.
Blikar með óbreytt byrjunarlið frá undanförnum leikjum en ungu mennirni, Arnór og Sólon Breki, sem voru á bekknum í síðasta leik og komu inná í leiknum gegn Leiknismönnum voru nú fjarverandi og Olgeir kominn í hóp að nýju ásamt Davíð sem er orðinn heill heilsu.

Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)
Arnór Aðalsteinsson (F) - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Kristinn Jónsson - Höskuldur Gunnlaugsson - Guðjón Pétur Lýðsson - Andri R. Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Arnþór Ari Atlason - Ellert Hreinsson

Varamenn:
Aron Snær Friðriksson(M)
Atli Sigurjónsson
Olgeir Sigurgeirsson
Kári Ársælsson
Guðmundur Friðriksson
Gunnlaugur Hlynur Birgisson
Davíð Kristján Ólafsson

Sjúkralisti: Enginn
Leikbann: Enginn

Leikskýrsla.

Blikar áttu alveg fljúgandi start inn í þennan leik og í þann mund að ylvolgur og nýkeyptur hamborgarinn rann gegnum vélinda var fyrsta færið komið. Það átti Ellert þegar hann skallaði flotta fyrirgjöf Höskuldar rétt framhjá marki gestanna. Þetta reyndist hinsvegar ekki vera upptaktur að því sem boðið var uppá næstu mínúturnar því liðin skiptust á að sækja og mest var um tilviljanakennt fálm á báða bóga. Gestirnir fengu allt of mikið pláss og komust oft ótruflaðir langleiðina að okkar vítateig en náðu ekki að nýta sér gestrisnina en skutu einatt einhverjum þvæluskotum út í bláinn og oftast án þess Gunnleifur þyrfti að ómaka sig við að verja. En okkar menn áttu sín augnablik og eitt slíkt kom þegar Höskuldur sneri af sér andstæðinga á miðju vallarins og lék inn að miðjunni en kom svo með óvænta og fasta sendingu inn í vítateig gestanna, beint á Kristinn Jónsson sem var þar staddur og hann tróð sér framhjá varnarmanni og sendi svo boltann rakleitt í netið. 1 -0. Vel gert hjá Höskuldi og Kristinn afgreiddi þetta eins og ekta framherji. Blikar í stúkunni kættust og bjuggu sig undir veislu. En það reyndist ótímabært því næstu mínúturnar gerðu gestirnir harða hríð að marki okkar og minnstu munaði þeir næðu að jafna úr skyndisókn þegar framherji þeirra renndi sér á boltann fyrir opnu marki en því betur fór hann framhjá. Þar munaði litlu og nokkrum sinnum til viðbótar lifðu Blikar hættulega og sluppu með skrekkinn. Það var því meira en velkomið þegar Kristinn bætti við marki og jók forystu Blika þegar um hálftími var liðinn. Nokkuð gegn gangi leiksins má segja en hverjum er ekki sama um það. Mark er mark og það kom eftir ágæta sókn og nokkur návígi sem lauk með því að einn Víkingur lá óvígur og Arnór kom boltanum í fætur Ellerts sem var inni í teig. Hann náði að snúa af sér varnarmann og tók skotið en það geigaði og virtist á leið framhjá markinu þegar Kristinn kom aðvífandi á fjærstöngina og renndi boltanum í netið. 2-0 fyrir Blika. Takk fyrir og túkall !
Nú hýrnaði heldur yfir lögmanninum sem uppfærði 2-0 spá sína í 5-0 á leiðinni á völlinn, í votta viðurvist. En þar með var allur vindur úr okkar mönnum og það sem eftir lifði hálfleiks var nauðvörn okkar manna og gestirnir fengu fjölda ,,horspyrna“ en ekki mikið af færum. Heimtuðu svo víti en fengu ekki og skal ekki lagður dómur á réttmæti kröfunnar hér. En fyrirliði þeirra fékk hinsvegar að ganga í skrokk á Kristni og sparka hann niður ítrekað. Fékk að vísu tiltal fyrir rest, en slapp með það. Það var ansi lélegt hjá dómaranum sem sá þetta mæta vel.
Staðan í hálfleik 2-0 og það var svo sem ekki slæmt en það var sannarlega vel sloppið miðað við gang fyrrri hálfleiks. Okkar menn þokkalegir fyrstu 25 mínúturnar en svo var þetta tómt vesen. Miðjan heillum  horfin og varnarleikur tómt vesen, aftur og aftur. Sendingafeilar álíka margir og hólarnir í Vatnsdal og þá er bara ekki gaman að vera Bliki. Allsekki. Þó staðan sé 2-0.
En hvað um það. Metfjöldi í Blikakaffinu og allt stappað hornanna á milli. Þá er bara að bregða sér út undir bert loft og delera úti á plani. Þar var nóg pláss. Menn á einu máli að Blikar yrðu að kítta upp í götin í varnarleiknum. Annars væri verið að bjóða hættunni heim.

Síðari hálfleikur hófst hinsvegar eins og sá fyrri endaði og gestirnir voru greinilega komnir á bragðið. Enda leið ekki á löngu þar til dró til tíðinda röngu megin. Það tók nefnilega ekki nema 5 mínútur fyrir gestina að minnka muninn. Blikar voru að gaufa með boltann við miðlínu og þar kom sóknarmaður Víkinga aðvífandi, hirti boltann og lék svo óáreittur upp að vítateig, alls rúmlega 30 metra leið og þar lét hann vaða á markið. Og í netinu lá hann, án þess Gunnleifur kæmi vörnum við. 2-1 og viðvörunarbjöllurnar hringdu alveg látlaust næstu mínúturnar á meðan gestirnir pressuðu stíft og áttu fjölda marktilrauna, en án árangurs. Og þegar þessi djöfulgangur stóð sem hæst og maður beið eftir jöfnunarmarkinu, með öndina í hálsinum, urðu kaflaskil í leiknum þegar Blikar náðu að hræra í eina eitraða sókn. Henni lauk með því að Kristinn kom boltanum á Höskuld sem sneri af sér varnarmann og lék á annan og lét svo vaða á markið við vítateiginn. Skemmst er frá að segja að boltinn hafnaði efst uppi í markhorninu hægra megin. Negla. 3-1 og þeir sem segja að mörk breyti leikjum hafa nokkuð til síns máls. Þetta mark gjörsamlega ,,drap“ leikinn ef svo má segja og eftir þetta var allur vindur úr gestunum en okkar menn fengu hinsvegar byr í seglin. Blikar gerðu tvær breytingar á liði sínu í kjölfarið. Fyrst kom Atli Sigurjónsson inn í stað Guðjóns Péturs sem var ólíkur sjálfum sér í kvöld og svo kom Davíð inn fyrir Arnþór Ara sem var líka nokkuð fjarii sínu besta. Það sem eftir lifði leiks gerðum við harða hríð að gestunum og litlu munaði að bæði Ellert og Andri bættu við mörkum áður en Ellert gerði bragarbót, en Andri skuldar enn. Ellert skoraði nefnilega fjórða mark Blika þegar gestunum urðu á mistök í varnarleiknum og boltinn hrökk af leikmanni þeirra inn fyrir vörnina og þar var Ellert mættur og hann skeiðaði inn í teig, lék framhjá markmanninum og renndi boltanum í netið. Vel gert og sigurinn þar með gulltryggður.

Þessi leikur fer ekki  í sögubækurnar fyrir gæði eða góða spilamennsku okkar manna. Þetta var ströggl og basl mestallan tímann. Stigin engu að síður vel þegin og markatalan löguð til muna þó ekki hefði tekist að halda markinu hreinu. Við héldum í við efsta liðið og erum nú með 18 stig og lúrum einu stigi fyrir aftan. Það er fín staða. Þjálfararnir eiga hinsvegar áreiðanlega eftir að fara vel yfir þennan leik með leikmönnum og það þarf að berja í brestina fljótt og vel. Næsti leikur er nefnilega strax á fimmtudag.
Það var hinsvegar fín stemmning í stúkunni og mikið sungið og trallað nánast allan tímann og það er ljóst að Kópacabana drengirnir eru að gera góða hluti þessa dagana.
Leikmenn og stuðningsmenn tóku svo lagið saman eftir leik og héldu partí í stúkunni og a.m.k. einn leikmaður lýsti yfir stuðningi við ,,Free The Nipple“ hreyfinguna þegar hann reif sig úr að ofan. Vel gert en sennilega degi of seint.

Næsti leikur er eins og áður segir á fimmtudag gegn KA í Borgunarbíkarnum og hefst kl. 19:15
Við mætum.

Áfram Breiðablik !

OWK.

Til baka