BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

200 leikjamenn heiðraðir

10.09.2017

Knattspyrnudeildin, í samstarfi við stuðningsmannavefinn blikar.is, heldur áfram að heiðra þá leikmenn sem hafa náð ákveðnum vörðum á leikmannaferlinum með Blikaliðinu. Fyrir leik okkar manna gegn ÍA í lok ágúst stóð knattspyrnudeildin og blikar.is fyrir ánægjulegri verðlaunaafhendingu, en þá voru nokkrir leikmenn heiðraðir fyrir að hafa leikið 200 leiki eða fleiri með meistaraflokki karla.

Alls hafa 16 leikmenn ná þessum áfanga frá upphafi. Þessir leikmenn eru: Olgeir Sigurgeirsson með 321 leik, Arnar Grétarsson með 289 leiki, Hákon Sverrisson 270 leikir, Andri Rafn Yeoman 266 leikir, Þór Hreiðarsson 266 leikir, Árni Kristinn Gunnarsson 255 leikir, Arnór Sveinn Aðalsteinsson, 252 leikur, Finnur Orri Margeirsson 243 leikur, Vignir Baldursson 228 leikir, Einar Þórhallsson 226 leikir, Kristinn Jónsson 216 leikir, Guðmundur H. Jónsson 204 leikir, Heiðar Breiðfjörð 203 leikir, Ólafur Björnsson 203 leikir, Jón Þórir Jónsson 201 leikur og Elfar Freyr Helgason 201 leikur.

Af þessum fjölda hafa nokkrir leikmenn þegar fengið þessa viðurkenningu enda hefur undanfarin misseri verið reynt að að afhenda viðurkenninguna þegar áfanganum er náð.

Það voru því leikmenn sem eru búnir að leggja skóna á hilluna sem mættu í boðið sem haldið var í glersalnum í stúkubyggingunni. Þessir áttu heimangegngt: Hákon Sverrisson, Þór Hreiðarsson, Árni Kristinn Gunnarsson, Vignir Baldursson, Guðmundur H. Jónsson, Heiðar Breiðfjörð, Ólafur Björnsson, Jón Þórir Jónsson.

Elfar Freyr fékk sína viðurkenningu afhenta fyrir leikinn og dóttir og barnabarn Einars Þórhallssonar tóku við viðurkenningu fyrir hönd Einars. 

Það var mikið hlegið og greinilegt að þessum kempum fannst gaman að hittast.

Myndband: Þór og Heiðar leysa frá skjóðunni!

BlikarTV var að sjálfsögðu á staðnum og tók tvær af þessum kempum tali, þá Þór Hreiðarsson og Heiðar Breiðfjörð, og fékk þá til að segja aðeins frá helstu minningum sínum frá flottum ferli þeirra með Blikaliðinu.  Báðir voru þeir í hópi ungra og efnilegra leikmanna sem voru að koma upp í meistaraflokkinn í kringum 1967 og léku báðir langt fram á áttunda áratuginn.

-AP

Til baka