BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Fanndís bjargvættur

29.05.2015

Breiðablik tók á móti KR í kvöld í þriðju umferð Pepsí-deildarinnar. Fyrir leikinn var Breiðablik efst í deildinni með sex stig og 10-1 í markamun, en KR var ekki búið að fá neitt stig og var með 0-6 í markamun.

Liðin voru eftirfarandi:

Breiðablik - byrjunarlið

1. Sonný Lára Þráinsdóttir (m)
8. Málfríður Erna Sigurðardóttir
9. Telma Hjaltalín Þrastardóttir
10. Jóna Kristín Hauksdóttir
13. Ásta Eir Árnadóttir
14. Hallbera Guðný Gísladóttir
17. Aldís Kara Lúðvíksdóttir
22. Rakel Hönnudóttir
23. Fanndís Friðriksdóttir
28. Guðrún Arnardóttir
29. Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir

Varamenn:
2. Svava Rós Guðmundsdóttir
7. Hildur Sif Hauksdóttir
11. Fjolla Shala
12. Arna Dís Arnþórsdóttir
25. Ingibjörg Sigurðardóttir

KR - byrjunarlið:

1. Hrafnhildur Agnarsdóttir (m)
2. Chelsea A. Leiva
3. Hanna Kristín Hannesdóttir
5. Sigrún Birta Kristinsdóttir
7. Sonja Björk Jóhannsdóttir
9. Margrét María Hólmarsdóttir
18. Íris Ósk Valmundsdóttir
21. Chelsea Raymond
23. Guðrún María Johnson
25. Hugrún Lilja Ólafsdóttir
26. Kelsey Loupee

Varamenn:
4. Oktavía Jóhannsdóttir
8. Sara Lissy Chontosh
11. Sigríður María S Sigurðardóttir
14. Hulda Ósk Jónsdóttir
15. Stefanía Pálsdóttir
17. Jóhanna K Sigurþórsdóttir
19. Helena Sævarsdóttir

Leikskýrsla


Fyrsta færi leiksins fékk KR-ingurinn og Blikaþjálfarinn (5. og 6. flokkur kvenna), Margrét María Hólmarsdóttir á fjórðu mínútu, þegar hún var sloppin ein í gegn en Sonný Lára gerði vel og hirti boltann af Margréti Maríu áður en hún náði að komast framhjá henni.

Þótt Breiðablik hafi verið ögn sterkara í fyrri hálfleik þá náðu stelpurnar ekki að spila sig almennilega í gegnum KR vörnina í góð færi og því var staðan 0-0 í hálfleik. Nokkur hálffæri litu dagsins ljós og eitt „semi“ dauðafæri á 15. mínútu en Málfríður náði ekki að setja boltann á markið í það skiptið.

Seinni hálfleikur var talsvert betri af hálfu Breiðabliks og byrjuðu stelpurnar af miklum krafti. Reyndar þurfti Breiðablik að bjarga á línu á 54. mínútu eftir hornspyrnu KR. Í kjölfar þessa átti Breiðablik góða skyndisókn sem endaði með hörkuskoti Fanndísar en góður markvörður KR í leiknum náði að slá boltann langt upp í loftið og handsamaði svo boltann áður en leikmenn Breiðabliks náðu að gera sér mat úr færinu.

Breiðablik færðist nær og nær að setja mark á KR en á 69. mínútu gerðist það að Fjolla braut (augljóslega) á Huldu Ósk á vítateigslínunni (ekki augljóslega) og dæmdi dómari leiksins umsvifalaust víti á Breiðablik. Skiptar skoðanir voru í stúkunni hjá stuðningsmönnum Breiðabliks hvort brotið hafi verið innan teigsins eða ekki, en víti var dæmt og tók Margrét María vítið. Skoraði hún með föstu skoti hægra megin við Sonný (séð frá Sonný). Fyrsta mark KR í deildinni staðreynd. Og það á móti efsta liðinu. Og því besta!

Breiðablik jók pressuna talsvert eftir þetta og á 85. mínútu skaut Rakel Hönnudóttir í stöngina. Hallbera fylgdi á eftir með góðu skoti en markvörður KR varði vel. Tveimur mínútum síðar fékk Fanndís boltann frá Ástu hægra megin á vellinum og var hún með KR-ing þétt við bakið á sér. Fanndís tók boltann með sér inn á völlinn við rétt fyrir utan vítateiginn, enn með KR-inginn andandi í hálsmálið á henni, skaut með vinstri og snéri boltanum fáránlega flott framhjá markverði KR-inga, alveg í fjærhornið. Glæsilegt mark hjá Fanndísi sem svo fór út af haltrandi. Vonandi ekki alvarlegt því hún er alger lykilmaður í liðinu.

Leiknum lauk með 1-1 jafntefli sem verður að teljast vonbrigði. Önnur úrslit kvöldsins voru:

ÍBV – Þróttur               1-0

Þór/KA – Afturelding   5-2

Stjarnan – Selfoss       1-2

Valur – Fylkir               3-1

Eftir þrjár umferðir eru Blikastelpur í öðru sæti, tveimur stigum á eftir Völsurum.

Að öðrum ólöstuðum þá stóð, að mati höfundar, Ásta Eir Árnadóttir sig best í leiknum. Átti hún marga góða spretti upp kantinn og náði nánast undantekningarlaust að koma með góða bolta inn í teiginn. Var hún áræðin og óhrædd að taka varnarmanninn á.

Næsti leikur er þann 1. júní nk. kl. 19:15 á móti Fylki á Fylkisvelli. Það eru allir leikir mikilvægir. Mætum á völlinn og sýnum leikmönnum Breiðabliks stuðning, konum og körlum!

- Ólafur Lúther.

Til baka