BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX 2021: Breiðablik - Valur

09.09.2021 image

Eftir góða hvíld er komið að lokahrinu Blikamanna í Pepsi Max 2021. Næsta viðureign - og mögulega ein sú mikilvægasta í sumar - er gegn sjóðheitu liði Íslandsmeistara Vals. Leikið verður á Kópavogsvelli kl. 20:00 laugardalskvöldið 11. september. Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki geta mætt á leikinn.

Gengi okkar manna í sumar á Kópavogsvelli hefur verið með afbrigðum gott. Reyndar hefur meistarflokkur karla aldrei áður náð að vinna 8 heimaleiki í röð og því síður með markatöluna 26:1. Fimm leikir af þessum átta voru 4:0 sigrar. Liðið hefur fengið á sig  aðeins1 mark í leikjunum átta. Það voru Skagamenn sem laumuði inn marki í 2:1 sigri Blika.

Ágústmánuður var mjög gjöfull. Í sex deildaleikjum, heima og heiman, í ágúst skora Blikar 21 mark gegn 3 og vinna alla leikina. Sem sagt, á einum mánuði skoruðu strákarnir sjö sinnum fleiri mörk en þeir fengu á sig.

En það er meira. Síðasti leikurinn í ágúst var gegn Fylkismönnum á þeirra heimavelli í Árbænum. Blikaliðið gerði sér lítið fyrir og skorðai 7 mörk gegn engu og lönduðu þar með sínum stærsta efstu deildar sigri frá upphafi.

Blikaliðið er búið að skora 49 mörk - lang mest allra liða í deildinni þegar þrjár umferðir eru eftir. Blikar eru með 29 mörk í plús. Liðin í 2. og 3. sæti, Víkingur og Valur, eru bæði með 11 mörk í plús. Fyrra markamet Blika, 47 mörk Íslandsmeistaraárið 2010, er fallið. Önnur ár sem Blikaliðið skorar 40+ mörk er 2008 41 mark og 2019 45 mörk.

Til samanburðar þá er markaskorun liða í efstu deild (50+ mörk) þessi frá árinu 2008:

2020: Valur 50
2018: Valur 50
2013: KR 50
2012: FH 51
2009: KR 58 og FH 57
2008: KEF 54 og FH 50

Markamet efstu deildar frá upphafi er ótrúlegur árangur Skagamann árið 1993 þegar ÍA skorar 62 mörk í 10 liða deild.

Staða liðanna fyrir leiki helgarinnar er þessi. Blikar leiða stigatöfluna með 41 stig. Víkingar eru í 2. sæti með 39 stig og Valsmenn í því 3. með 36 stig.

Svona lítur stöðutaflan út eftir 19 umferðir:

image

Sagan

Heilt yfir hafa liðin leikið 95 leiki í öllum keppnum frá fyrsta innbyrðis leik liðanna árið 1965. Blikasigrar eru 33 gegn 41 og jafnteflin eru 21. 

Fyrstu innbyrðis leikir Breiðabliks og Vals í efstu deild voru árið 1971 – sama ár og Breiðablik lék fyrst í efstu deild. Fyrri leikurinn var heimaleikur Blika og lauk með 2-0 sigri okkar manna. Það voru þeir Guðmundur Þórðarson og Magnús Steinþórsson sem skorðu fyrstu efstu deildar mörk Breiðabliks gegn Valsmönnum. Seinni leikurinn tapaðist svo 4:2.

Um haustið áttust liðin við í 3ja sinn það ár. Sá leikur var í 8-liða úrslitum Bikarkeppninnar. Blikar unnu þann leik 2-1 og komust áfram í 4-liða úrslit. Og fóru svo alla leið í úrslitaleikinn gegn Víkingum eftir að hafa unnið Fram 1:0 á Melavellinum. Samtals 11 mörk skoruð í þremur innbyrðisleikjum liðanna árið 1971.

Tölfræðin fellur með Val. Í 69 efstu deildar leikjum hafa Valsmenn unnið 29 leiki, Blikar 24 leiki og 16 sinnum skilja liðin jöfn. Oft mikið skorað í innbyrðis leikjum liðanna. Í þessum 69 innbyrðis leikjum leikjum liðanna í efstu deild hefur Valur skorað 110 mörk gegn 97 mörkum heimamanna. Samtals 206 mörk í 69 leikjum sem gerir 3 mörk að meðaltali í leik.

Síðustu 5 á Kópavogsvelli

Heilt yfir frá árinu 2006 - árið sem Breiðabliksliðið kom aftur upp í efstu deild eftir nokkur mögur ár í næst efstu deild - hafa Blikar haft yfirhöndina gegn Val í leikjum á Kópvogsvelli (6 sigar, 5 jafntefli, 4 töp), en í síðustu 5 ár af 15 hafa Valsmenn tekið flest stigin:

Leikmenn

Einn núverandi leikmanna Blika hefur leikið með Val. Anton Ari Einarsson á að baki 36 meistaraflokksleiki með Valsmönnum.

Leikmannahópur Blika:

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 20. umferðar er Kópavogsbúi í húð og hár og á rætur að rekja til mikillar Blikafjölskyldu. Afinn var formaður knattspyrnudeildar, pabbinn var liðsstjóri hjá meistaraflokki karla og sat síðar í aðalstjórn félagsins, og bróðirinn spilaði og skoraði mörkin með Breiðabliki. SpáBlikinn starfar sem vefstjóri og er aðalsprautan bakvið tæknilega hlið og útlit blikar.is - sjálfstæða stuðningsmannasíðu meistaraflokka Breiðabliks í knattspyrnu. Hann var þekktur fyrir sín þrumuskot og skoraði eitt sinn með hjólhestaspyrnu á Kópavogsvellinum og telst það hápunktur ferilsins - jafnvel þó atvikið hafi átt sér stað í hálfleik! Hann hefur séð flesta leiki meistaraflokks frá því hann var 8 ára gamall og því hokinn af reynslu. Þegar hann er ekki að elta börnin 3 eða á vellinum eyðir hann tíma sínum í nördaskap eins og að smíða retro spilakassa, kasta pílum af miklum móð, lesa meistara Þórberg eða sanka að sér óþarfa fróðleik um tónlist og kvikmyndir síðustu aldar.

Gylfi Steinn Gunnarsson - Hvernig fer leikurinn?

Þessi leikur á laugardagskvöldið verður þrunginn slíkri spennu að andrúmsloftið mun víbra um gjörvallt höfuðborgarsvæðið, ef ekki lengra, svo eftir verður takandi. Það þarf ekki mikinn talnaspeking til að úrskurða um mikilvægi punktanna sem í boði eru. Það er hins vegar svo að sveit Breiðabliks er komin í slíkan gír að hún verður ekki stöðvuð úr þessu.

Þar fyrir utan liggur fyrir að í síðustu leikjum gegn þeim rauðklæddu höfum við Blikar fengið talsvert færri stig en við höfum átt skilið og sagan sýnir að slíkt gengur ekki áfram út í eitt.

Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af spennustigi okkar manna í þessum leik því með þeim háskarpa fókus, fullu einurð og ákefð sem hefur einkennt framgöngu okkar pilta inni á vellinum í ár þá leggjum við gestina með tveimur mörkum gegn engu.

En þeir þurfa okkar stuðning og eiga það skilið að Kópavogsvöllur verði eins kjaftfullur og lög gera ráð fyrir á laugardagskvöldið.

image

SpáBliki 20. umferðar: Gylfi Steinn Gunnarsson

Dagskrá

Miðasala er á tix.is

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport.

Flautað til leiks kl.20:00!

Kaldur á karna og Blikaborgararnir verða á sínum stað í sjoppunni.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

image

Til baka