BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Jón Ingi – kveðja frá stuðningsmönnum

19.04.2018

Okkar góði félagi og Heiðursbliki, Jón Ingi Ragnarsson, lést mánudaginn 9. apríl s.l. Jón Ingi var einn af stofnfélögum Knattspyrnudeildar Breiðabliks og var kjörinn formaður deildarinnar 1958, aðeins 15 ára gamall og aftur 1960. Eins og nærri má geta af ungum aldri formannsins voru þeir sem stigu þetta heillaskref, að stofna sérstaka knattspyrnudeild innan Breiðabliks, flestir ungir að árum en allmargir voru þó eldri en Jón Ingi. Eigi að síður var hann snemma valinn til forystu enda maðurinn alveg svellkaldur og lét sér fátt fyrir brjósti brenna. Á þessum árum var knattspyrnan að hasla sér völl í ört vaxandi bæjarfélagi og aðstöðumálin brunnu á mönnum þá eins og jafnan síðar. Vallargerðisvöllur var varla meira en sæmilega sléttur melur á þessum tíma og varla brúklegur til knattspyrnuiðkunar og búningsaðstaða var engin. Af þessum sökum var nokkur flótti efnilegra knattspyrnumanna til Reykjavíkur þar sem öll aðstaða var mun betri.

Jón Ingi og félagar létu þetta ekki á sig fá og börðust fyrir bættri aðstöðu næstu árin og með góðra manna hjálp og auknum skilningi bæjaryfirvalda og vilja til að stöðva flóttann til Reykjavíkur hófust menn handa við að bæta völlinn í Vallargerði jafnramt því að reisa þar búnings- og baðaðstöðu. Og til að gera langa sögu stuttu þá var nýr og stórbættur Vallargerðisvöllur tekinn í notkun 1964 og fyrsti opinberi kappleikurinn á vellinu fór þá fram. Örlögin höguðu því svo að Jón Ingi skoraði fyrsta mark Breiðabliks á nýja vellinum. Það var við hæfi.
Næstu árin öx og dafnaði starfið í Vallargerði og þar lögðu margir Blikar hönd á plóg í sjálfboðavinnu. Jón Ingi lék næstu árin í meistaraflokki Breiðabliks við góðan orðstír og varð meðal annars þess heiðurs aðnjótandi að skora fyrsta mark félagsins á erlendri grund árið 1967 í frægri utanlandsferð meistaraflokks til Noregs, með viðkomu í Danmörku og Englandi. Á þessum árum voru hann  og félagar hans í meistaraflokki sannkölluð átrúnaðargoð ört stækkandi hóps ungra knattspyrnumanna sem nú óx úr grasi í Kópavogi. Alls lék Jón Ingi 139 leiki með meistaraflokki og skoraði í þeim 70 mörk. Það er dágóð tölfræði. Leikmannasíða Jóns Inga.  og Viðtal við Jón Inga fyrir leik við FH 2016.
Jón Ingi lagði keppnisskóna á hilluna 1969 aðeins 26 ára gamall. En hann var síður en svo hættur afskiptum af félaginu. Hann tók að sér þjálfun yngri flokka um nokkurt skeið á áttunda áratugnum. Hann var dyggur stuðningsmaður deildarinnar í hvívetna meðfram brauðstritinu og tók svo aftur að sér formennsku í deildinni haustið 1978 – 1981 og svo aftur 1983.  Árið 1989 tók Jón Ingi svo við embætti varaformanns aðalstjórnar Breiðabliks við hlið síns gamla félaga Loga Kristjánssonar sem þá var orðinn formaður félagsins. Því embætti gegndi Jón Ingi til ársins 1997. Þetta voru miklir framfaratímar hjá Breiðabliki og á þessum árum settust Blikar að í Smáranum þar sem félagið tók í notkun flóðlýstan gerfigrasvöll og félagsaðstöðu 1991, og framkvæmdir hófust jafnframt við byggingu íþróttahússins sem var vígt 1994. Jón Ingi var ráðinn rekstrarstjóri félagsins 1991 og gegndi því starfi næstu tvö árin uns hann hóf störf hjá Kópavogsbæ. Jón Ingi lét sér alla tíð mjög annt um félagið og þau hjón Jón Ingi og Alda hafa verið tíðir gestir á vellinum undanfarna áratugi. Jafn kappsamur og ör sem hann var gat hann talað í sig hita um málefni félagsins og þá sérstaklega knattspyrnudeildarinnar ef því var að skipta. Þetta voru hans hjartans mál. En það var alltaf stutt í húmorinn.

Á vefsíðunni blikar.is eru tölfræði upplýsingar um meistaraflokk karla frá stofnun deildarinnar til þessa dags, með upplýsingum um fjölda leikja allra leikmann, alla leiki, skoruð mörk og ásamt ljósmyndum og blaðaúrklippum. Eins og nærri má geta hefur mikil vinna verið lögð í að taka saman þessar upplýsingar aftur í tímann enda heimildar ekki alltaf aðgengilegar. Jón Ingi kom ekki að þeirri vinnu til að byrja með en var skiljanlega ekkert sérstaklega ánægður þegar hann um vorið 2012 sá að þá lá fyrir nánast öll tölfræði frá 1971 – 2011 og byrjað að veita viðurkenningar byggðar á þeim upplýsingum, en engar upplýsingar voru um fyrstu árin, þegar hann var sjálfur að spila. Það þykknaði aðeins í honum og hann lét það alveg í ljós við ritstjórn vefsins. Sjálfum sér líkur einhenti hann sér svo bara í að safna þessu sjálfur, enda áttaði hann sig strax á því að aðrir voru ekki líklegri eða betur til þess fallnir að klára þetta í bráð. Það er skemmst frá því að segja að Jón Ingi lagði gríðarlega vinnu í þetta og kláraði verkið með stæl á rúmu ári. Og þegar þessar upplýsingar lágu á borðinu var hafist handa við að hafa upp á fyrrverandi leikmönnum, og í þeirra hópi voru margir þeirra sem léku fyrstu kappleikina fyrir félagið, og þeim afhentar viðurkenningar frá knattspyrnudeildinni. Það var stoltur Jón Ingi sem heilsaði upp á gamla félaga í september 2013 og afhenti þeim viðurkenningar og það er fyrst og fremst honum að þakka að saga upphafsáranna er skráð. Eldri Blikar heiðraðir og 50 marka klúbburinn.

Nú er þessi svellkaldi og snaggaralegi töffari allur og hans verður sárt saknað á vellinum í sumar. Umsjónarmenn stuðningsmannasíðunnar Blikar.is senda Öldu og öllum afkomendum þeirra Jóns Inga samúðarkveðjur.

Útför Jóns Inga fer fram frá Kópavogskirkju á morgun, föstudag, og hefst kl. 13:00.

Ólafur Björnsson.

Til baka