BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Þrjár efnilegar semja við Breiðablik

05.03.2016

Knattspyrnudeild Breiðabliks gekk í dag frá samningum við þrjá unga og efnilega leikmenn. Kristínu Dís Árnadóttur og Guðrúnu Gyðu Haralz sem eru báðar fæddar árið 1999 og Sólveigu Jóhannesdóttur Larsen sem er fædd árið 2000.

Kristín Dís er öflugur miðvallarleikmaður sem hefur verið fyrirliði U17 ára landsliðs Íslands í undanförnum leikjum. Hún hittir fyrir systur sína Ástu Eir Árnadóttur í meistaraflokki Breiðabliks. Kristín Dís hefur spilað 10 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands og þar á meðal í úrslitakeppni Evrópumótsins í fyrra. Hún hefur skorað í þeim 1 mark. Kristín spilaði 11 leiki með Augnablik í 1. deildinni í fyrra.

Guðrún Gyða Haralz er sterkur framherji sem hefur verið á skotskónum fyrir yngri flokka Breiðabliks og yngri landslið Íslands. Hún hefur skorað hvorki meira né minna en 12 mörk í 10 landsleikjum fyrir U16 og U17 ára landsliðin. Guðrún lék 8 leiki með Augnablik í 1. deildinni í fyrra.

Sólveig Jóhannesdóttir Larsen er efnilegur framherji sem á að baki 5 leiki fyrir yngri landsliðin og hefur skorað í þeim 1 mark. Sólveig lék með 1. deildarliði Augnabliks í fyrra og skoraði 7 mörk í 12 leikjum þrátt fyrir ungan aldur.

Þessar efnilegu stúlkur hafa allar komið upp yngri flokkana hjá Breiðablik og félagið bindur miklar vonir við þær í framtíðinni.

Til baka