BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Falskur söngur í Kórnum

04.05.2015

Siðast liðið fimmtudagskvöld fór fram í Kórnum úrslitaleikur í Lengjubikar kvenna árið 2015 og voru það stelpurnar okkar í Breiðablik og Stjarnan sem öttu kappi. Var mikil spenna í loftinu að sjá hvernig þessi tvö af bestu liðum landsins myndu leggja upp leikinn.

Liðin voru eftirfarandi:

Breiðablik: Sonný Lára Þrá­ins­dótt­ir (M). Svava Rós Guðmunds­dótt­ir, Mál­fríður Erna Sig­urðardótt­ir, Jóna Krist­ín Hauks­dótt­ir, Fjolla Shala, Al­dís Kara Lúðvíks­dótt­ir, Rakel Hönnu­dótt­ir, Fann­dís Friðriks­dótt­ir, Ingi­björg Sig­urðardótt­ir, Guðrún Arn­ar­dótt­ir, Andrea Rán Snæ­feld Hauks­dótt­ir.
Vara­menn: María Rós Arn­gríms­dótt­ir, Krist­ín Dís Árna­dótt­ir, Telma Hjaltalín Þrast­ar­dótt­ir, Arna Dís Arnþórs­dótt­ir, Elena Brynj­ars­dótt­ir, Esther Rós Arn­ars­dótt­ir, Sunna Bald­vins­dótt­ir.

Stjarn­an: Sandra Sig­urðardótt­ir (M). Ana Victoria Cate, Lára Krist­ín Peder­sen, Sigrún Ella Ein­ars­dótt­ir, Kristrún Kristjáns­dótt­ir, Anna María Bald­urs­dótt­ir, Rúna Sif Stef­áns­dótt­ir, Anna Björk Kristjáns­dótt­ir, Theo­dóra Dís Agn­ars­dótt­ir, Harpa Þor­steins­dótt­ir, Írunn Þor­björg Ara­dótt­ir.
Vara­menn: Berg­lind Hrund Jón­as­dótt­ir, Björk Gunn­ars­dótt­ir, Guðrún Karítas Sig­urðardótt­ir, Sandra Dögg Bjarna­dótt­ir, Heiðrún Ósk Reyn­is­dótt­ir, Sig­ríður Þóra Birg­is­dótt­ir, Bryn­dís Björns­dótt­ir.

Fyrsta færið leit dagsins ljós eftir einungis tvær mínútur og var þar á ferð Fanndís sem náði góðu skoti á markið eftir frábæran sprett Aldísar inn í teiginn, en Sandra í marki Stjörnunnar gerði mjög vel þegar hún blakaði boltanum yfir.

Fyrstu 15 mínúturnar voru annars mjög jafnar þótt Breiðablik hafi verið ívið meira með boltann. Næstu 15 mínúturnar voru eign Breiðabliks sem skapaði sér nokkur úrvalsfæri. Á köflum spiluðu þær dúndur vel, en ekki kom markið. Undir lok hálfleiksins komst Stjarnan meira inn í leikinn og skapaði þó nokkra hættu fyrir framan mark Blika. Þessi hætta varð svo raunveruleg þegar Rúna Sif Stefánsdóttir kom Stjörnunni yfir á 41. mínútu leiksins. Frekar svekkjandi enda höfðu Blikastúlkur fengið mun fleiri færi í leiknum.

Blikastúlkur byrjuðu af miklum krafti í seinni hálfleik og gjörsamlega áttu fyrstu tíu mínúturnar. Mörg færi litu dagsins ljós en boltinn hafði engan áhuga á því að fara inn fyrir marklínu Stjörnunnar. Áhuginn leitaði meira í átt að marki Breiðabliks og svo fór að Bryndís Björnsdóttir skoraði fyrir Stjörnuna á 55. mínútu leiksins. Fékk hún langa sendingu frá Hörpu Þorsteinsdóttur á vinstri kantinum yfir á þann hægri, spretti inn í teiginn og sendi boltann undir Sonný í markinu. Þetta mark var mjög svekkjandi!

Telma Hjaltalín, María Rós og Esther Rós komu inn á í síðari hálfleik. Blikastúlkur reyndu og reyndu en allt kom fyrir ekki og innsiglaði Stjarnan sigur sinn undir lok leiksins með þriðja markinu og var þar að verki Björk Gunnarsdóttir.

Þetta gekk því miður ekki upp þetta kvöldið þótt mjög margt hafi verið jákvætt í leik liðsins. Blikastúlkur stjórnuðu leiknum á löngum köflum og sköpuðu sér færi, en voru óheppnar að skora ekki. Því er spáð að það gangi betur í næsta leik á móti Stjörnunni sem fer fram föstudaginn 8. maí nk. kl. 19:15 á Samsung vellinum í Meistarakeppni KSÍ. Allir á völlinn!

Til baka