BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikastelpur heiðruðu minningu Valda vallarvarðar með góðum sigri á KR

11.05.2016

Löng bið eftir fyrsta leik í Pepsí-deild kvenna var á enda þegar stelpurnar okkar tóku á móti KR í fyrsta leik Íslandsmótsins.  Blikum er spáð sigri í deildinni í ár enda frábærlega mannaður hópur í sumar. 

Á völlinn voru mættir 612 áhorfendur sem byrjuðu á að heiðra minningu Valda vallarvarðar þar sem lágmynd af honum var afhjúpuð.  Virkilega falleg stund á Kópavogsvelli.

Byrjunarlið Breiðabliks:  Sonný – Hildur – Guðrún – Málfríður – Hallbera - Ingibjörg – Selma Sól – Fanndís – Svava – Andrea – Rakel

Varamenn:  Telma – Arna Dís(79) – Ragna Björg – Fjolla Shala(65) – Ásta Eir – Esther Rós(65)

Leikskýrsla, myndband, myndir og aðrar umfjallanir.

Leikurinn hófst strax á miklu fjöri og nokkuð ljóst að Blikar ætluðu að byrja tímabilið á sigri.  Blikastelpur tóku strax öll völd á vellinum og áttu nokkur góð færi á fyrstu 20 mínútum leiksins.  Það var í raun bara góður markmaður KR sem sá til þess að Blikastelpur voru ekki komnar með forustu strax.

Á 24. mínútu á Fanndís frábært hlaup upp vinstri kantinn, fer léttilega framhjá einum varnarmanni og setur boltann út á Andreau Rán sem þrumar boltanum í netið.  Ekki hægt að segja annað en þetta hafi legið í loftinu.

Blikar héldu svo áfram að sækja það sem eftir lifði hálfleiks en náðu ekki að setja fleiri mörk þrátt fyrir mikla yfirburði.  Boltinn fékk oft að ganga flott á milli stelpnanna sem færðu hann ágætlega út á kantana og spiluðu nokkuð vel þennan fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri endaði, Blikar sóttu.  Það voru einungis 4 mínútur liðnar þegar Fanndís fékk boltann rétt fyrir innan miðju, brunaði framhjá hverjum KRingi á fætur öðrum, og endaði með að leggja boltann í markhornið.  Frábært mark og staðan orðin 2 – 0 fyrir Blika.

KR-stelpur voru varla búnar að jafna sig á marki Fanndísar þegar boltinn barst hátt í loftið inn á Rakel sem tók boltann snyrtilega með sér og lagði hann framhjá markmanni KR.  Einungis 2 mínútur á milli marka og staðan orðin 3 – 0.

Leikurinn róaðist nokkuð næstu mínúturnar en Blikar  samt alltaf með öll völd á vellinum.  Það var svo á 63. mínútu sem Rakel vann boltann af mikilli hörku af vörn KR, renndi boltanum inn í teig á Andreu Rán sem fíflaði varnarmann áður en hún renndi boltanum í markhornið af miklu öryggi.  Andrea Rán í miklu stuði og skorar og skorar þessa dagana.  Staðan orðin 4 – 0 fyrir Blika.

KR stelpur náðu svo að klóra aðeins í bakkann með ágætis marki þegar þær fóru upp hægri kantinn, sendu fína fyrirgjöf fyrir markið þar sem Eydís Lilja setti boltann viðstöðulaust framhjá Sonný í markinu.

Í uppbótartíma fékk Andrea svo dauðafæri en setti boltann í slánna, hefði verið gaman að kóróna mjög góðan leik með þrennu.

En það fór svo að dómarinn flautaði til leiksloka og endaði leikurinn með öruggum sigri 4 – 1 og var Andrea Rán valin maður leiksins.

Þessi fyrsti leikur hjá stelpunum lofar mjög góðu fyrir sumarið og frábært hvað margir mættu til að styðja stelpurnar.

Næsti leikur er svo á móti FH stelpum og fer hann fram í Kaplakrika þann 18. maí. Kl. 19:15. 

Nú er um að gera að mæta á völlinn og styðja stelpurnar okkar.

Áfram Breiðablik!

Til baka