BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Bikarinn í hásölum

15.09.2015

Blikastúlkur fengu ÍBV í heimsókn síðastliðinn laugardag (12. september 2015) í síðustu umferð Pepsí-deildarinnar þetta árið. Fyrir leikinn voru Blikar búnir að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn en að sjálfsögðu var lagt upp með að sigra leikinn fyrir framan fjölmarga áhorfendur og taka svo við bikarnum fagra (og risastóra…).

Liðin voru eftirfarandi: (Hægt að sjá leikskýrslu hér)

Breiðablik - byrjunarlið

1. Sonný Lára Þráinsdóttir (m) 
2. Svava Rós Guðmundsdóttir 
7. Hildur Sif Hauksdóttir 
8. Málfríður Erna Sigurðardóttir 
9. Telma Hjaltalín Þrastardóttir 
14. Hallbera Guðný Gísladóttir 
17. Aldís Kara Lúðvíksdóttir('68) 
22. Rakel Hönnudóttir 
23. Fanndís Friðriksdóttir('57) 
28. Guðrún Arnardóttir 
29. Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir('45) 

Varamenn:
26. Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir (m) 
10. Jóna Kristín Hauksdóttir('45) 
11. Fjolla Shala('57) 
15. Steinunn Sigurjónsdóttir 
25. Ingibjörg Sigurðardóttir ('68) 

ÍBV – byrjunarlið

1. Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir (m) 
2. Sóley Guðmundsdóttir 
3. Júlíana Sveinsdóttir ('84) 
8. Sigríður Lára Garðarsdóttir 
10. Guðrún Bára Magnúsdóttir('61) 
11. Kristín Erna Sigurlásdóttir ('77) 
14. Svava Tara Ólafsdóttir 
19. Esther Rós Arnarsdóttir 
20. Cloe Lacasse 
22. Sabrína Lind Adolfsdóttir 
29. Díana Helga Guðjónsdóttir 

Varamenn:
12. Sigríður Sæland Óðinsdóttir (m) 
4. Ármey Valdimarsdóttir ('84) 
6. Margrét Íris Einarsdóttir 
16. Þórey Helga Hallgrímsdóttir('77) 
21. Þóra Kristín Bergsdóttir ('61) 
23. Inga Jóhanna Bergsdóttir 
24. Sóldís Eva Gylfadóttir 

Tvær breytingar voru gerðar á byrjunarliði síðasta leiks. Hildur Sif Hauksdóttir og Aldís Kara Lúðvíksdóttir komu inn í stað Fjollu Shala og Jónu Kristínu Hauksdóttur, en nákvæmlega þessar breytingar voru gerðar í hálfleik á móti Þór/KA.

Leikurinn fór heldur rólega af stað en fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 19. mínútu. Fanndís fékk boltann á vinstri kantinum, um tíu metrum frá vítateigshorninu, tók á rás framhjá nokkrum ÍBV leikmönnum, inn í vítateginn og sendi fyrir með vinstri fætinum, beint í þverslána en boltinn datt niður fyrir Aldísi Köru sem skallaði boltann í markið af stuttu færi. Vel gert hjá báðum leikmönnum.

Leikurinn varð aðeins fjörugri eftir markið og sóttu bæði lið. Reyndar datt ÍBV liðið vel aftarlega þegar Blikar fengu boltann og vörðust ágætlega.

Á 31. mínútu leiksins dró aftur til tíðinda. Hildur Sif hljóp þá upp hægri kantinn framhjá ÍBV leikmönnum, alveg út að endalínu, sendi boltann inn í markteginn, beint í fæturnar á Telmu, sem þrumaði boltanum í netið, umkringd fjölmörgum ÍBV leikmönnum. Hennar 12. mark á tímabilinu! Frábærlega vel staðið að þessu marki líka.

Staðan í hálfleik var 2-0 fyrir Breiðablik sem var mjög sanngjarnt.

Síðari hálfleikur var ekkert sérstaklega skemmtilegur en hverjum var ekki sama um það. Blikar voru að vinna og um að gera að fara ná í bikarinn og stilla honum upp fyrir afhendinguna!

Svava Rós reyndi þó nokkrum sinnum að hitta inn fyrir stangirnar tvær og þverslána sem tengir þær saman, en allt kom fyrir ekki í þessum leik. Hún átti þó marga mjög góða spretti og var sífellt ógnandi. Átti hún t.a.m. hörkuskot í stöng á 83. mínútu leiksins.

Þegar nær dró 90. mínútu leiksins heyrðist í stúkunni að það væri nú gaman að skora eitt í viðbót undir lok leiksins, svona til að koma áhorfendum í stuð fyrir afhendingu Íslandsbikarsins. Og það gerðist…

Á 88. mínútu leiksins þeyttist Svava Rós upp kantinn hægra megin, aðeins inn í vítateiginn, gaf lága sendingu inn á vítateiginn, rétt fyrir utan markteig, þar sem Telma kom á ferðinni og hamraði boltann rétt undir þverslána. Frábærlega vel gert og Telma með sitt 13. mark í sumar. Mörkin öll í þessum leik mjög keimlík.

Leiknum lauk með 3-0 sigri Blikastúlkna og var sigurinn verðskuldaður.

Mikið var yndislegt og gott að sjá Blikastúlkur lyfta bikarnum og fagna Íslandsmeistaratitlinum. Tímabilið er búið að vera alveg frábært og er hægt að nefna nokkur atriði af handahófi:

  • Breiðablik endaði með 50 stig eftir 18 leiki. Sigrarnir voru 16 og jafnteflin tvö. Einungis fjögur stig fóru í súginn í sumar! Alls komu 25 stig á heimavelli og 25 stig á útivelli.
  • Mörkin urðu 51 talsins í leikjunum 18, að meðaltali skoruðu þær 2,833 mörk í leik. Á heimavelli voru skoruð 23 mörk en fleiri urðu mörkin á útivelli, alls 28 talsins.
  • Blikastúlkur fengu aðeins fjögur mörk á sig í sumar, þar af eitt á heimavelli en þrjú á útivelli. Það er með hreinum ólíkindum!
  • Breiðablik endaði fimm stigum fyrir ofan Stjörnuna og var 14 stigum á undan Selfossi sem endaði í þriðja sæti.
  • Fanndís Friðriksdóttir hlaut gullskóinn fyrir sín 19 mörk í deildinni en Telma Hjaltalín var í fjórða sæti með 13 mörk. Aldís Kara og Rakel Hönnudóttir skoruðu fimm mörk hvor.

Í Gylfaginningu segir Snorri Sturluson að engir bústaðir guðanna komist í námunda við Breiðablik að fegurð og glæsileika. Ég held að það hafi alltaf verið þannig í Breiðablik, en þetta á ekki síður við núna þegar Íslandsmeistarabikarinn er kominn heim!

ÓLE

Til baka