BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Yngri drengirnir lögðu Þrótt

07.02.2015

Blikaliðið lagði Þrótt 2:1 í æfingaleik í Smáranum í morgun.  Blikaliðið var að mestu leyti skipað yngri leikmönnum og þeim leikmönnum sem hafa ekki spilað mikið i undanförnum leikjum. Það voru þeir Sólon Breki Leifsson og Elvar Páll Sigurðsson sem settu mörk okkar drengja í síðari hálfleik.

Þróttarar veittu okkur verðuga keppni í þessum leik enda voru þeir með nokkra erlenda leikmenn í prufu. Laugardalsdrengirnir náðu forystu snemma leiks og voru í raun betri aðilinn í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik komu okkur drengir sterkar inn í leikinn og tryggðu sér sigur með ágætum mörkum frá Sóloni Breka og Elvari Páli.

Zak Pajalic, tvítugur vinstri kantmaður frá frá Slóveníu og Dragoljub Radisevic 19 ára sóknarmaður frá Svartfjallalandi.léku fyrri hálfleik með Blikaliðinu en náðu ekki að setja mark sitt á leikinn. Bestu menn Blikaliðsins voru þeir Alfons Sampsted, 16 ára bakvörður, og Aron Snær 18 ára markvörður. Aron var raun besti maður Blikaliðsins og varði nokkrum frábærlega frá sóknarmönnum Þróttar. Einnig átti Ernir Bjarnason ágætan leik í síðari hálfleik. Nokkrir ungir leikmenn spiluðu sinn fyrsta meistaraflokksleik m.a. Gísli Martin Sigurðsson 16 ára og Viktor Ingason 18 ára.

Næsti leikur Blikaliðsins er æfingaleikur gegn Fram klukkan 20:00 á þriðjudagskvöld á Framvellinum í Úlfársdal.

-AP

Til baka