BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Vörður áfram aðalstyrktaraðili Breiðabliks.

30.06.2014

Vörður tryggingar og Knattspyrnudeild Breiðabliks ætla að halda sínu góða samstarfi en samstarfssamningur Varðar og knattspyrnudeildarinnar hefur verið framlengdur. Vörður verður því áfram aðalstyrktaraðili knattspyrnudeildarinnar og styður þannig við bakið á öflugu uppeldis- og afreksstarfi Breiðabliks. Vörður hefur verið aðalstyrktaraðili félagsins undanfarin fimm ár og hefur merki Varðar prýtt búninga knattspyrnumanna og kvenna Breiðabliks.

Samningurinn er báðum aðilum mikilvægur. Hann léttir undir við rekstur knattspyrnudeildar Breiðabliks sem rekur öflugt barna- og unglingastarf auk þess að eiga lið í efstu deild bæði karla og kvenna. Samstarfið styður enn frekar við þá vinnu sem knattspyrnudeildin hefur unnið síðastliðin ár við að fjölga iðkenndum í knattspyrnu og ala upp afreksfólk í íþróttinni.

Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar, segir það mikið ánægjuefni að fá tækifæri til að styðja áfram við metnaðarfullt starf Knattspyrnudeildar Breiðabliks og stuðla þannig að því að félagið verði áfram sá grundvöllur íþróttastarfs í Kópavogi sem bæjarbúar geti verið stoltir af. Með þátttöku sinni tekur Vörður þátt í mikilvægu og uppbyggilegu barna- og unglingastarfi og setur um leið mark sitt á keppni þeirra bestu í knattspyrnu. 

Til baka