BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik – Víkingur Ó í PEPSI sunnudaginn 28. maí kl. 18:00

25.05.2017

Fimmta umferð Íslandsmótsins, PEPSI-deildin, verður leikin um helgina. Við Blikar eigum leik á sunnudaginn en þá mætum við baráttujöxlunum úr Víking Ólafsvík. Við eigum þar harma að hefna frá í fyrra enda lögðu þeir okkur óvænt í fyrstu umferð mótsins á Kópavogsvelli.

 

Liðin eru jöfn með 3 stig í 10. og 11. sæti þegar 4. umferðir eru búnar.

 

Breiðablik og Víkingur Ó. hafa mæst 17 sinnum í mótsleikjum. Blikar hafa sigrað í 13 leikjum, Víkingar í 1 leik og 3 leikir hafa endað með jafntefli.

 

Liðin eiga 4 leiki að baki í efstu deild. Árið 2013 vinna Blikar 2-0 í Kópavoginum í byrjun júní en gera svo 0-0 jafntefli í Ólafsvík í lok ágúst. Árið 2016, í fyrsta leik Blika í PEPSI það árið, vinnur lið Ólafsvíkur 1-2  sigur á Kópavogsvelli. Blikar vinna seinni leikinn í Ólafsvík 0-2. Leikurinn á sunnudaginn er því 5. viðureign liðanna í efstu deild frá upphafi.

 

Það eru töluverð tengsl milli þessara liða. Nokkrir núverandi og fyrrverandi leikmanna Blikaliðsins hafa spilað með Ólafsvíkingum. Rétt fyrir mót 2016 var Gísli Eyjólfsson lánaður til Ólafsvíkurliðsins. Hann var svo kallaður til baka úr láni liðlega mánuði síðar eftir að hafa leikið 3 leiki með liðinu. Í félagaskiptaglugganum í fyrra var Alexander Helgi Sigurðarson lánaður til Ólafsvíkur en meiðsli komu í veg fyrir að hann gæti æft og spilað í Ólafsvík. Damir Muminovic  lék 24 leiki með Ólafsvíkurliðinu árið 2013 og skoraði 2 mörk. Ellert Hreinsson var í búningi Ólsara keppnistímabilin 2006 og 2007 og skoraði 11 mörk í 23 leikjum Í félagaskiptaglugganum árið 2015 fer Gunnlaugur Hlynur Birgisson á láni til Ólafsvíkur og spilar þar 10 leiki með þeim 1. deildinni. Í febrúar á þessu ári gerði Gunnlaugur Hlynur 2 ára samning við Ólafsvíkurliðið og á þar nú fast sæti i byrjunarliðinu. Frá Víkingum fengu Blikar í byrjun árs þeirra markahæsta mann þegar Hrjove Tokic skirfaði undir 2 ára samning við Breiðablk. Hrjove hefur skorað 21 mark í 29 leikjum í fyrstu-og efstu deild með Ólafsvíkurliðinu.

Þau tíðindi bárust á mánudaginn að Milos Milojevic var ráðinn aðalþjálfari meistaraflokks karla og Olgeir Sigurgeirsson var ráðinn honum til aðstoðar.

Milos kom hingað til lands fyrst árið 2006 sem spilandi þjálfari hjá Hamar í Hveragerði. Hann hefur verið hjá Víkingum síðan 2009 og var öflugur varnarmaður í liðinu til ársins 2011. Hann var fyrst aðstoðarþjálfari Ólafs Þórðarsonar hjá Víkingum en tók síðan við sem aðalþjálfari árið 2015. Milos er einn af fáum þjálfurum á Íslandi með UEFA Pro gráðu.

Olgeir Sigurgeirsson þarf vart að kynna fyrir Blikum. Hann gekk til liðs við okkur Blika árið 2003 og er leikjahæsti leikmaður meistaraflokks karla frá upphafi. Hann spilaði í allt 321 leik með Blikum og skoraði í þeim 29 mörk. Hann varð líka bikarmeistari með liðinu árið 2009 og Íslandsmeistari árið 2010. Hann hefur í ár verið starfandi sem einn af þjálfurum hins sterka 2. flokks karla hjá Blikum.

Nýja þjálfarateymið ætti að geta teflt fram okkar sterkasta liði.

 

Vonandi munu margir Blikar láta sjá sig á Kópavogsvelli á sunnudaginn.

 

Leikurinn er klukkan 18:00!

 

Áfram Breiðablik, alltaf, alls staðar!

Til baka