BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Við munum styrkja okkur,“ segir Eysteinn Pétur Lárusson framkvæmdastjóri Blika

22.01.2017

Knattspyrnulið meistaraflokks karla hjá Blikum hefur verið töluvert í sviðsljósinu að undanförnu. Margir leikmenn hafa haldið á brott og fáir utanaðkomandi hafa bæst við.  Fjórir fastamenn frá síðasta tímabili, Elfar Freyr, Alfons, Daníel Bamberg og Árni Vill, verða ekki með okkur næsta sumar og þar að auki hafa fjórir aðrir leikmenn sem voru hópnum, Glenn, Ágúst Eðvald, Arnór Sveinn og Ellert, horfið á braut. Margir stuðningsmenn Blika hafa haft af þessar nokkrar áhyggjur og því ákvað blikar.is að setjast niður með Eysteini Pétri Lárussyni framkvæmdastjóra til að spyrja um stöðuna.

En skoðum fyrst breytingarnar á Blikaliðinu frá síðasta tímabili. Fyrstur til að hverfa á braut var miðjumaðurinn ungi og efnilegi Ágúst Eðvald Hlynsson sem gerði samning við Norwich í ensku 1. deildinni. Hann var að vísu ekki mikið að spila en hefði sjálfsagt fengið stærra hlutverk á næsta tímabili.  Nú nýlega hafa bæði Elfar Freyr Helgason og Alfons Sampsted ákveðið að freista gæfunnar á Norðurlöndunum. Elfar Freyr var lánaður í danska úrvalsdeildarliðið Horsens og Alfons var seldur til Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni. Fyrir nokkrum vikum ákvað Arnór Sveinn Aðalsteinsson að söðla um og spila með KR á næstunni. Knattspyrnudeildin hefur síðan ákveðið að endurnýja ekki saming við Jonathan Glenn og Daníel Bamberg. Þar að auki er samingur við Ellert Hreinsson runninn út og hefur hann ekkert æft á þessu undirbúningstímabili.

Stefna Breiðabliks að koma mönnum í atvinnumennsku

Sumir hafa velt því fyrir sér hvort Breiðablik sé of viljugt að láta frá sér góða leikmenn. Hvað segir Eysteinn um það? ,,Það hefur alltaf verið stefna Breiðabliks að ekki standa í vegi fyrir að menn geti tekið næsta skref og hugsanlega gert knattspyrnuna að atvinnu svo framarlega sem tilboðin erlendis frá eru ásættanleg“  Í tilfelli Elfar Freys þá var þetta hugsanlega hans síðasta tækifæri til að komast í atvinnumennsku. Hann er frábær knattspyrnumaður og við studdum hann heilshugar í þessu. Vonandi gengur þetta upp en ef ekki þá kemur hann bara heim til okkar aftur. En ég er eiginlega alveg sannfærður að Elfar Freyr á eftir að standa sig í danska boltanum. Síðan var þetta eiginlega bara spurning hvenær en ekki hvort Ágúst Eðvald og Alfons færu í atvinnumennsku.“

En er þetta of mikil breyting á skömmum tíma. Eigum við í lið á næsta tímabili? ,,Ó, já!“ sagði Eysteinn hlæjandi. ,,Við höfum nýlega gert samning við danska sóknarmanninn Martin Lund Pedersen. Hann skoraði 9 mörk með Fjölni á síðasta tímabili og sýndi það og sannaði að hann er mjög sterkur leikmaður. Svo má ekki gleyma því að við höfum átt Íslandsmeistara í 2. flokki undanfarin tvö ár og þar hafa margir öflugir leikmenn verið að koma upp á undanförnum árum. Við lánuðum nokkra af þeim leikmönnum í önnur lið og þar fengu þeir góða reynslu. Lánsmenn frá okkur voru til dæmis að spila með Þrótti í efstu deild, Þór, Fram og Selfoss í 1. deildinni og svo hjá Vestra í 2. deildinni. Þetta hefur gefið góða raun og  má til dæmis geta að Alfons var lánaður í Þór sumarið 2015 og nú er hann kominn í atvinnumennsku.“

Blikar ætla að vera í toppbaráttu

Eysteinn segir að þessi leikmenn hafi fengið góða eldskírn í fyrra sem ætti að nýtast þeim í baráttunni fyrir sæti í Blikaliðinu á þessu ári. ,,En samkeppnin er mjög mikil í Blikaliðinu og ljóst að ekki munu allir þessir leikmenn hljóta náð fyrir augum þjálfaranna. Það þýðir hins vegar ekkert fyrir þá að leggja árar í bát heldur þurfa þeir að leggja enn harðar að sér og þá munu þeir uppskera! Oliver Sigurjónsson er gott dæmi um leikmann sem kom sterkur inn þegar staða losnaði í liðinu.“

Eysteinn viðurkennir hins vegar að ef við ætlum að vera í toppbaráttu í Pepsí-deildinni þurfum við að bæta við 1-2 leikmönnum í viðbót.  ,,Við munum bæta við okkur í framlínuna og munu einhverjir leikmenn koma til prufu til okkar á næstu vikum. Við höfum meðal annars verið í sambandi við Danmörku þannig að ekki er ólíklegt að leikmaður komi þaðan.“

Eysteinn segir að mikil samstaða ríki á milli stjórnar, þjálfaranna og starfsmanna að styrkja þurfi liðið. ,,Við vitum að akkilesarhæll okkar undanfarin ár hefur verið markaskorunin þannig að við erum einkum að skoða styrkingu fram á við. Svo sjáum við hvernig þeir strákar sem eru að æfa núna munu spjara sig í þeim æfingamótum sem eru framundan. Hugsanlega þurfum við skoða aðrar stöður en fyrst um sinn einbeitum við okkur að framlínunni.“

Samkvæmt þessum orðum framkvæmdastjórans er ljóst að Blikaliðið ætlar sér stóra hluti í Pepsí-deildinni næsta sumar. Blikaliðið sýndi góða takta gegn Keflvíkingum í Fótbolta.net mótinu á laugardaginn en það verður spennandi að sjá hvernig liðið spjarar sig gegn sterku liði FH á föstudaginn.

-AP

Til baka