BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Vel þegin stig í Víkinni

22.05.2017

Blikar sóttu nágranna sína í Fossvoginum heim í kvöld í 4. umferð PEPSI deildarinnar. Það hefur ekki verið lognið og mollan í kringum þessi lið undanfarið og eiginlega allt verið í gangi nema fótbolti. Bæði lið í bölvuðuð basli og þjálfaralaus þessa dagana. Og því mest í fréttum af velgjuvaldandi ástæðum. Það líður vonandi hjá.

Á maður að ræða veðrið eitthvað? Varla komið sumar og samt brakandi þurrkur af austri, með glampandi sól og hita upp á rúmar 15°C í Blesugrófinni. Mistur í lofti en skyggni ágætt.

Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)(F)
Guðmundur Friðriksson - Damir Muminovic - Michee Efete - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Gísli Eyjólfsson - Arnþór Ari Atlason - Martin Lund Pedersen - Höskuldur Gunnlaugsson - Hrvoje Tokic
Varamenn:
Ólafur Íshólm Ólafsson(M) - Kolbeinn Þórðarson - Aron Bjarnason -  Sólon Breki Leifsson - Ernir Bjarnason - Willum Þór Willumsson - Viktor Örn Margeirsson

Sjúkralisti: Oliver Sigurjónsson (meiddur)
Leikbann: Enginn

Blikar gerðu þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá bikarleiknum gegn Fylki. Guðmundur Friðriksson kom inn fyrir Viktor, Tokic fyrir Sólon og Gísli fyrir Aron.

Leikurinn byrjaði með látum og það voru heimamenn sem voru aðgangsharðari fyrstu mínúturnar. Blikar ögn værukærir í sendingum við eigin vítateig og litlu munaði að það kostaði mark þegar boltinn tapaðist á miðjum vallarhelmingi okkar og heimamenn skyndilega komnir 3 á móti 2 en sem betur fer klúðruðu þeir upplögðu færi og skutu beint í lúkurnar á Gunnleifi. Annars var þetta mest miðjumoð og barátta fyrsta korterið og höfðu ýmsir betur. En þegar klukkan sló 19:31 geystust Blikar í sókn og Martin átti góða sendingu frá vinstri á Gísla sem var við teiginn og hann læddi boltanum á Tokic sem renndi boltanum í netið. Fallegt mark og Blikar komnir yfir, 0-1. Í fyrsta sinn á þessu tímabili náðu okkar menn forystunni.
Heimamenn virtust ögn slegnir yfir þessu, en Blikar hresstust heldur. Næstu mínútur voru líflegar. Liðin sóttu á víxl án þess þó að skapa sér opin færi og talsvert var um vel heppnaðar feilsendingar. Okkar menn  gerðu sig líklega fram á við en léku sér ítrekað að hættunni við eigin vítateig og oft vorum við stálheppnir og sluppum með skrekkinn. Betri lið hefðu refsað fyrir sum glappaskotin okkar í varnarleiknum. Þetta þarf að laga. Það sem eftir lifði hálfleiks einkenndist af barningi á miðsvæðinu og talsvert var um pústra, peysutog og hrindingar í bak og fyrir og verður að segjast að dómari leiksins var alveg gjörsamlega úti að aka lengst af þessum leik og lét heimamenn komast upp með fjölda brota átölulaust. Höskuldur og Tokic fengu ítrekað að kenna á því, en ekkert dæmt. Sérstaklega var þetta slæmt í fyrri hálfleik. Hörmungar dómgæsla, eins og gegn Fylki í bikarnum. Tríóið fær sjálfsagt fína einkunn hjá fjölmiðlum og eftirlitsmönnum en þetta var algjör hörmung.
Blikar fengu svo sannkallað dauðafæri eftir aukaspyrnu en á einhvern hátt tókst okkar manni (sá ekki greinilega hver það var – en sumir liggja undir grun) að moka boltanum yfir markið nánast á marklínu Víkinga. Þar fór gott færi í súginn. Örskömmu síðar lögðu okkar menn upp dauðafæri fyrir gestina inn í eigin vítateig en Víkingar klúðruðu því og áttu enn á ný laflaust skot í fangið á Gunnleifi. Það var með hreinum ólíkindum að við skyldum sleppa svona billega. Aftur.

Skömmu síðar flautaði arfaslakur dómari til hálfleiks. Staðan 0-1 og það verður bara að segjast að það var vel sloppið. Varnarleikur okkar manna ekki upp á marga fiska en sem betur fer voru sóknarmenn Víkinga á pari við það. Í hálfleik ræddu menn um tifandi tímasprengju og voru mátulega bjartsýnir á framhaldið. Blikar að bjóða hættunni heim ítrekað með fjölda feilsendinga á eigin vallarhelmingi, við og í teignum. Arrgg.
Borgararnir búnir í vallarsjoppunni en veðrið jafngott og áður.

Síðari hálfleikur rann af stað og okkar menn byrjuðu ágætlega. Settu smá pressu á heimamenn en náðu ekki að skapa verulega hættu við markið. Og svo jöfnuðu heimamenn, nánast upp úr þurru. Aðdragandinn að því marki var reyndar all sérkennilegur. Blikar voru í sókn og Tokic var með boltann en var togaður niður og sparkað í hann í leiðinni en ekkert dæmt, sennilega af því dómarinn var búinn að ákveða að hann væri með leikaraskap. En þá hefði hann átt að spjalda Tokic, sem hann gerði ekki. En hvað um það, Víkingar geystust fram og uppskáru hornspyrnu. Hún kom á vítateigshornið nær og þar skallaði leikmaður Víkinga boltann í boga yfir á fjærstöngina og þar var enginn Bliki. En þar var leikmaður Víkings og náði  (að mér sýndist) pota boltanum yfir línuna áður en Gunnleifur náði að blaka knettinum frá. Afar slysalegt mark, forljótt og alger óþarfi. 1-1. Þetta var mark upp á svona átta pirrr, af tíu mögulegum.
Næstu mínúturnar var lítið um fallega knattspyrnu, en mikið um pústra og baráttu og það mega okkar menn eiga að þeir börðust ágætlega og létu alveg finna fyrir sér, og fannst nú sumum kominn tími til.  Næst færi sem talandi er um átti Tokic en hann sneiddi flotta fyrirgjöf frá hægri framhjá, með kollinum. Virtist í dauðafæri en var nokkuð aðþrengdur. Skömmu síðar áttu heimamenn gott færi en sem fyrr var Gunnleifur vel staðsettur. Næstu mínútur var þetta endanna á milli og lítið um færi en svo kom að því Blikar náðu forystunni á nýjan leik. Víkingar brutu á Blikum á eigin vallarhelmingi og dómarinn dæmdi aukaspyrnu. Stuðningsmenn Blika trúðu vart eigin augum (og eyrum) og risu á fætur og klöppuðu fyrir dómaranum. Ekki sáum við hver tók spyrnuna en hún var há og laus og virtist algerlega misheppnuð þar sem hún sveif yfir á fjærstöngina. Vér bölvuðum upphátt en þá var sokknum umsvifa- og vafningalaust troðið ofan í oss. Arnþór Ari náði til boltans við endalínuna og skallaði út í teiginn þar sem Davíð tók boltann snoturlega á lofti og þrumaði í netið. Étt´ann sjálfur !
Blikar komnir yfir á ný og aftur var glæta í sólskininu í Víkinni. Og nú létu Blikar kné fylgja kviði og pressuðu á heimamenn. Og eftir snarpa sókn átti Gísli skot á mark en það var varið í horn. Davíð tók hornið og sendi fastan bolta fyrir markið þar sem Michee Efete kom á dúndrandi siglingu og stangaði boltann í netið. 1-3 og nú kættust Blikar um veröld víða. Loksins. En Adam var næstum rotaður í sinni Paradís, því Víkingar svöruðu strax með góðri sókn og komust í gott færi en boltinn naumlega framhjá. Það var vel sloppið. Lokamínútur leiksins liðu hægt. Blikar gerðu breytingu á liðinu og Ernir kom inn fyrir Gísla. Skömmu síðar kom Aron inn fyrir Tokic og að síðustu kom Kolbeinn inn fyrir Davíð. Blikar virtust sigla þessu hægt og rólega í land en þegar 3 mínútur voru liðnar í uppbótartíma sofnuð okkar menn á verðinum. Víkingar fengu horn eftir snarpa sókn og Höskuldur fékk sinadrátt og lá í grasinu við vítateiginn en stóð svo upp í stað þess að liggja aðeins og drepa tímann og tempóið. Hvað um það, eitthvað misstu okkar menn einbeitinguna við þetta og Víkingar tóku hornið og einn lágvaxnasti leikmaður þeirra var einn og óvaldaður í teignum og skallaði í netið. 2-3. Þar með höfðum við fengið tvö mörk á okkur úr föstum leikatriðum. Þetta kallast einbeitingar skortur og verður að laga strax.
Fleira gerðist ekki í þessum leik og Blikar fögnuðu fyrsta sigrinum í PEPSI deildinni 2017 vel og innilega.

Blikar gerðu margt vel í þessum leik og það var meiri léttleiki og hreyfanleiki en sést hefur til þessa. Boltinn gekk hratt í sóknarleiknum og menn voru þokkalega ákafir. En þetta var langt frá því að vera gallalaust og stöku leikmenn mættu að ósekju dúlla minna með boltann. Það þarf ekki alltaf að taka 4 -5 snertingar. Færin komu þegar boltinn gekk í fáum snertingu.  Varnarlega voru okkar menn ekki sérlega traustvekjandi. Unnu að vísu mörg návígi, voru grimmir og áttu allskostar við andstæðingana í loftinu lengst af en misstu boltann aftur og aftur með klaufaskap á hættulegum stöðum og voru stálheppnir að fá ekki á sig mark eða mörk eftir nokkrar slíkar gloríur. Rússnesk rúlletta er áhættusport.

En stigin voru vel þegin og liðið sýndi að því er ekki alls varnað þegar menn berjast af krafti og mæta andstæðingunum í návígjum. Með meiri einbeitingu í varnarleiknum og færri snertingar í sóknarleiknum eru því ýmsir vegir færir.

Næsti leikur okkar manna er heimaleikur gegn Víkingi Ólafsvík næsta sunnudag kl. 18:00.
Þar bíða 3 stig sem við þurfum að krækja í og munum öruggleg þurfa að hafa fyrir þeim.

Áfram Breiðablik !

OWK

Umfjallanir annarra netmiðla. 

Myndaveisla

Til baka