BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Valur - Breiðablik í PEPSI sunnudaginn 10. september kl. 19:15

06.09.2017

18. umferð Pepsi-deildar karla verður leikin um helgina. Blikaliðið skellir sér til höfuðborgarinnar og mætir þar toppliði Vals á fagurgrænum og rennisléttum Valsvelli. Valur trjónir nú á toppi stigatöflunar með 37 stig. Við Blikar erum í 7. sæti með 24 stig. Bæði lið sigruðu í síðustu umferð. Blikar unnu ÍA 2-0 á Kópavogsvelli. Valur vann öflugan 2-3 sigur gegn ÍBV í Eyjum.

Fyrri leik liðanna í sumar lauk með 1-2 sigri Vals. Nánar um þann leik hér. 

Sagan

Opinberir leikir Breiðabliks og Vals í meistarflokki karla frá upphafi eru 86. Fyrsti mótsleikur liðanna var leikur í 2. umferð Bikarkeppni KSÍ á Melavellinum föstudaginn 13. ágúst  1965. Leikið var gegn B-liði Vals. Leikurinn tapaðist 3 - 1. Næsta viðureign liðanna var árið 1968. Og aftur var leikið gegn B-lið Vals í 2. umferð Bikarkeppni KSÍ. Leikurinn fór fram á Melavellinum 26. júlí 1968. Blikar unnu leikinn 3-0. Mikið skorað strax í fyrstu leikjum liðanna og tónninn fyrir framhaldið gefinn strax í byrjun.

Fyrstu viðureignir liðanna í efstu deild voru árið 1971 - árið sem Blikar léku fyrst í efstu deild. Fyrri leikurinn 1971 var heimaleikur Blika. Leiknum lauk með 2-0 sigri okkar manna. Hinsvegar tapaðist seinni leikurinn 4-2. Um haustið áttust liðin við í 8-liða úrslitum Bikarkeppni KSÍ í leik sem Blikar unnu 2-1. Samtals 11 mörk í þremur innbyrðisleikjum liðanna árið 1971.

Þrátt fyrir aðeins 3 mörk í leikjum liðanna í deildinni í fyrra eru leikir liðanna gjarnan mikilir markaleikir. Árið 2014 vinna Blikar 3-0 heima og 2-1 úti. Og 8. ágúst árið 2012 vinnur Breiðablik magnaðan 3-4 útisigur á Val í leik þar sem m.a. Ingvar Þór Kale, þáverandi markvörður Blika, var rekinn af velli á 65. mín. Valur komst í 2-0 í þeim leik sem Blikar vinna upp með mörkum á 70., 84., 85., og 90. mín. Árið 2010 vinnur Breiðablik 5-0 heima svo nokkur dæmi um markafjölda séu nefnd.

En sagan er með Val í 86 mótsleikjum frá fyrsta leik liðanna árið 1965. Valur hefur sigrað 36 sinnum, Blikar hafa sigrað 31 sinni og 19 leikjum hefur lokið með jafntefli.

Hinsvegar er tölfræðin jöfn þegar kemur að efstu deildar leikjum liðanna. Í 61 leikjum liðanna í efstu deild hefur Valur sigrað 24 leiki, Blikar 23 leiki og jafnteflin eru 14.

2006-2017

Blikar eru með gott tak á Valsmönnum í efstu deild frá því að liðin komu upp úr 1. deildinni síðast - Valur árið 2005 og Breiðablik árið 2006 - því að í 23 viðurgeignum heima og heiman hafa Blikar unnið 12 sinnum, Valur 5 sinnum og jafnteflin eru 6.

Í 11 efstu deildar leikjum á Valsvelli frá 2005 hafa Blikar unnið sex sinnum, tapað tvisvar og þrisvar gert jafntefli

Leikur Vals og Breiðabliks er á Valsvelli á sunnudaginn og hefst klukkan 19:15.

Áfram Breiðablik!

Til baka