Blikar og FH skildu jöfn 1:1 í æfingaleik í Fífunni í dag. Úrslitin voru líklegast sanngjörn. Fimleikadrengirnir voru betri í fyrri hálfleik en eftir að ungu…" /> Blikar og FH skildu jöfn 1:1 í æfingaleik í Fífunni í dag. Úrslitin voru líklegast sanngjörn. Fimleikadrengirnir voru betri í fyrri hálfleik en eftir að ungu…">

BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Unglingarnir tryggðu stigið

24.03.2018
Blikar og FH skildu jöfn 1:1 í æfingaleik í Fífunni í dag. Úrslitin voru líklegast sanngjörn. Fimleikadrengirnir voru betri í fyrri hálfleik en eftir að ungu leikmennirnir komu inn  á hjá okkur í síðari hálfleik tókum við öll völd á vellinum. En það dugði bara til jafnteflis en við tökum því bara. Við vinnum þá bara í leikjunum sem skipta máli í sumar. 
 
Gestirnir spiluðu mjög gróft í fyrri hálfleik og missti Tómas Mayer dómari í raun tök á leiknum. Oftar en einu sinni sauð nánast upp úr og hefði dómarinn að  ósekju mátt sýna tveimur FH-ingum rauða spjaldið. Nokkuð jafnvægi var í leiknum framan af en síðustu 10-15 mínútur lá mjög á okkur. Það kom því ekki á óvart að Hafnfirðingar kæmust yfir.
 
Í síðari hálfleik skipti Gústi Arnóri Gauta inn á og frískaðist mjög framlína okkar við það. Síðan komu ungu strákarnir hver á fætur öðrum inn á; Alexander Helgi, Óskar, Aron, Kolli, Davíð Ingvars, Brynjólfurm, Aron Kári og Karl Friðrik. Við vorum miklu frískari og náðum öllum tökum á miðjunni. Arnór Gauti kórónaði fínan leik sinn með góðu marki um 10 mínútum fyrir leikslok. En við verðum að minnast á frábæra innkomu Alexanders Helga. Hann er að komast í gríðarlega gott form og sýndi það og sannaði hve góður leikmaður hann er. Ef hann sleppur við meiðsli gæti Alexander Helgi orðið sá leikmaður sem gæti komið mest á óvart.
 
Þetta var síðasti æfingaleikur fyrir páska. Meistaraflokkurinn fer í æfingaleik til Spánar annan í páskum. Síðan verða líklegast tveir æfingaleikir áður en Íslandsmótið hefst.
 
Brot úr leiknum í boði BlikarTV.
 
BlikarTV sýndi leikinn í beinni – sjá upptöku
 
-AP

Til baka