BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Tveir leikmenn lánaðir!

01.08.2012

Knattspyrnudeild Breiðabliks hefur lánað tvo leikmenn út þetta tímabil. Það eru þeir Jökull Elísabetarson og Árni Vilhjálmsson. Jökull fer KV í vesturbæinn í Reykjavík en Árni fer í Hauka í Hafnarfirði. Hvorugur leikmannanna hefur átt fast sæti í Blikaliðinu á þessu keppnistímabili og var því talið best fyrir alla aðila að þeir færu í félag þar sem líklegt væri að þeir fengju sem mestan spilatíma.  Þeir koma vonandi síðan til baka með mikið sjálfstraust og leikreynslu fyrir næsta keppnistímabil.

Árni er 18 ára gamall framherji sem hefur verið viðriðinn meistaraflokkinn undanfarin 2 ár. Hann hefur einnig átt fast sæti í yngri landsliðum Íslands. Hjá Haukum hittir hann meðal annars fyrir Blikann Viktor Unnar Illugason sem einnig er í láni hjá félögum okkar í Hafnarfirði. Árni er mikill markaskorari en hefur ekki alveg fundið fjölina í ár. Vonandi á hann eftir að spila mikið með KFUM liðinu í 1. deildinni þannig að sú reynsla nýtist honum vel í Kópavoginum á komandi árum. Skemmst er að minnast að landsliðsmaðurinn Guðmundur Kristjánsson var lánaður í Hauka og kom þaðan mun betri leikmaður.

Jökull Elísabetarson kom í Blikana árið 2010 og átti stóran þátt í að landa Íslandsmeistaratitli það árið. Hann hefur hins vegar ekki alveg náð fyrra formi og hefur ekki verið í byrjunarliðinu í undanförnum leikjum. KV er nú efst í 2. deildinni og þar hittir Jökull fyrir marga af sínum fyrri félögum úr yngri flokkum KR. Það er ljóst að Jökull mun verða hvalreki á fjörur Vesturbæinga enda er hann mjög snjall miðjumaður.

Skemmst er að minnast að Norðmaðurinn Petar Rnkovic náði starfslokasamningi við deildina fyrir skömmu þannig að það má búast við  breytingum á leikmannahópnum í næsta leik. Þetta opnar á tækifæri fyrir hina fjölmörgu ungu og efnilegu leikmenn Blikaliðsins að sanna sig. Það má því búast við nýjum andlitum á Kópavogsvellinum það sem eftir er komandi keppnistímabili.

AP

Til baka